Jarðbundin Veronique Vaka vinnur á nýstárlegan hátt með náttúruna.
Ljósmynd/Silvia Gentili

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 2. maí, 2020.

Veit duftsins dóttir nokkra dýrlegri sýn?

Veronique Vaka er frá Kanada og hefur verið búsett hér á landi um nokkra hríð. Hún hefur vakið verðskuldaða athygli undanfarin misseri fyrir tónlist sína og skrifar um þessar mundir sellókonsert fyrir Sæunni Þorsteinsdóttur.

Já, Veronique Vaka hefur verið með eindæmum virk í íslensku tónlistarlífi undanfarin ár og það væri að æra óstöðugan ef ég ætlaði að telja það allt upp hér. Hún fæddist 1986 í Kanada en kláraði svo mastersgráðu í tónlist frá Listaháskóla Íslands.

Árið 2015 gaf hún út plötuna Erlendis , „til að klára námið mitt í klassík og elektró-akústík. Svo hellti ég mér út í það að semja nútímatónlist, algerlega“, sagði hún blaðamanni í stuttu tölvupóstsspjalli. Fljótlega fór hún að hugsa um landslagið og náttúruna hér, og það sem hún miðar að í tónlistarsköpuninni er að búa til ljóðræna/tónræna tengingu á milli þess sem hún sér og heyrir í óspilltri náttúru og þess sem hún svo setur niður á blað. Hún segir: „Það var alltaf á áætlun að búa til afstrakt tónlist undir áhrifum frá náttúrunni og það vill bara svo til að ég bý á Íslandi. Ég viðurkenni að ég er enn að kynnast náttúrunni hérna og held ég verði aldrei búin að skoða hana til hlítar.“

Blaðamaður stenst ekki mátið að spyrja hana út í þær náttúruklisjur sem eru oft beintengdar íslensku tónlistarlífi, hvort sem það er popp, rokk eða skrifuð tónlist. Er hún meðvituð um þetta? Er hún jafnvel að sveigja frá slíku? „Ég er sannarlega meðvituð um þær,“ segir hún og hlær í gegnum tölvupóstinn. Mér er mikið í mun þegar ég sem að fjarlæga mig frá allri rómantík eða væmni og fer þess í stað beint í hreinar jarðfræðilegar tengingar og staðreyndir sem ég vinn svo inn í tónlistina. Náttúran er kjarninn í vinnuferlinu, en eftir að ég er búin að véla um þetta er lítið af þráðbeinum tilvísunum í náttúruna ef svo mætti segja.“

Það er fallegur tónn í tónlist Veronique og höfundareinkenni sterk. Maður heyrir að þetta er hún, hvort heldur í styttri poppaðri verkum ( Erlendis ) eða íburðarmeiri. Næmt jafnvægi einhvern veginn sem virkar og er smekklegt. Hörðu kaflarnir eru alltaf mátulega harðir og þeir fallegu mátulega fallegir! Verkin hafa komið ört út síðastliðin fimm ár eða svo. Tveir heimar (2013), Umbra (2016), Rift (2017), Sceadu (2018,19) og Lendh (2018) fyrir sinfóníuhljómsveit og var hún tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir það síðastnefnda. Verk fyrir minni sveitir eru mun fleiri, bera nöfn eins og Flowen, Sciftan og Perspicere, og hafa verið að ryðjast út síðan 2016 eða svo. Veronique er að semja sellóverk fyrir Sæunni Þorsteinsdóttur eins og er. Sum verka hennar má heyra á Youtube eður Spotify. Bendi áhugasömum líka á ansi greinargóða heimasíðu höfundar, veroniquevaka.com.

Ég spurði hana að lokum hvernig það væri að lifa og starfa hér; hvort hún og hæfileikar hennar væru umföðmuð eða hvort hún fyndi sig á milli þilja, sem á það til að gerast þegar fólk af erlendu bergi brotið flytur hingað og starfar. Óþolandi t.d. þegar maður situr í dómnefndum og alltaf er spurt hvort menn eins og Ben Frost séu gjaldgengir; Ástrali sem hefur búið hér í tuttugu ár, talar lýtalausa íslensku og hefur auðgað íslenskt tónlistarlíf svo um munar. Ekkert slíkt er að plaga Veronique, sem betur fer. „Ég er heppin finnst mér! Ég hef kynnst og starfað með yndislegu fólki. Þau hafa farið út fyrir öll mörk við að hjálpa mér við að ná þeim þroska sem ég hef tekið út undanfarin ár.“

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: