[Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 1. desember]

Við, hin dauðlegu...

• Scott Walker gefur út Bish Bosch
• Við sama heygarðshornið og enginn veit hvernig bregðast skal við

Tónlistarbransinn stendur ráðþrota gagnvart fyrrverandi tyggjókúlupopparanum, síðar dramapoppssöngvaranum Scott Walker. Síðustu plötur hans þykja það sýrðar og það „erfiðar“ að meira að segja þeir, sem hugnast slík list best, klóra sér í höfðinu.
Skilningsleysið er slíkt að menn nota gamalt „trix“, líta á Walker sem hálfgerðan geðsjúkling og það skýri þennan magnaða stað þar sem list hans dvelur á um þessar mundir. Sem betur fer eru þeir þó til sem virða list hans við hann og persónulega er engin ein plata sem hefur vakið með mér jafn mikla eftirvæntingu í ár og þessi nýja plata hans, Bish Bosch. Hún kemur út á merkinu góða og gegna 4AD nú eftir helgi en síðasta plata hans, The Drift (2006), er eitt það ótrúlegasta tónlistarverk sem ég hef nokkru sinni heyrt, segi og skrifa það.

Umbreyting

Ég ætla ekki að fara ítarlega í hina merku umbreytingu sem Scott Walker hefur gengið í gegnum á ferlinum. Það var á Nite Flights (1978), plötu sem eignuð var Walker Brothers, sem Walker hóf að gera tilraunir með tónlist sína og hafa þær orðið sértækari og farið lengra frá tónlistinni, ef svo mætti segja, með hverri sólóplötu síðan. Sú fyrsta, Climate of Hunter, kom út 1984, síðan Tilt (1995) og loks The Drift (2006). The Drift er mögnuð plata svo ekki sé nú meira sagt, hrollvekjandi og martraðarkennd tónlistin er bundin í kolniðamyrkur en svo brestur skyndilega á með birtu, yl og fegurð. Walker syngur í þessum „krúnustíl“ sínum (e. „crooner“) þannig að platan hljómar eins og I am a Bird Now með Antony and the Johnsons hafi verið snúið á rönguna. Það er ekki oft sem maður verður beinlínis hræddur við að hlusta á tónlist en The Drift kallar fram þannig stemningu – af mun meiri ofsa en grimmasta og kaldasta öfgarokk sem ég hef heyrt.

Á jörðinni

„‘See You Don’t Bump His Head’“, „Corps De Blah“, „SDSS1416+13B (Zercon, A Flagpole Sitter)“, „Epizootics!“ og „The Day The “Conducator Died“ eru á meðal lagatitla á plötunni og eru vísbendingar um innihaldið (þegar er hægt er að nálgast „Epizootics!“ á netinu). Upptökur hófust 2009 og platan var tekin upp í lotum í þrjú ár. Flest er á huldu með plötuna en poppfræðingurinn Rob Young (The Wire, Electric Eden o.fl.) skrifar langan texta á bishbosch.com þar sem ýmislegt fróðlegt er að finna, þó textinn sé svo gott sem jafn lyklaður og platan sjálf.
Scott segir sjálfur að tónlist hans sé „andleg“ fyrst og fremst og í gegnum allan þann orðahrauk sem er raðað í kringum þessa „erfiðu“ plötu er vel hægt að greina að Scott er um leið frekar niðri á jörðinni með það sem hann vill ná fram. Hann er listamaður og „eitthvað nýtt“ virðist vera megindrifkrafturinn hjá honum þegar grannt er skoðað. Hann sagði t.a.m. í viðtali við Mojo fyrir stuttu:„Þið þurfið ekki á mér að halda til að koma með þetta „venjulega“.“ Af „Epizootics!“ að dæma er það laukrétt.

Bendi að lokum á stórmerkilega heimildarmynd, Scott Walker: 30 Century Man (2006) fyrir þá sem vilja kynna sér málin betur. Einnig bókina No Regrets: Writings on Scott Walker (2012) sem ritstýrt er af nefndum Rob Young.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: