Það þarf ekki að fara í neinar grafgötur með það að Skúli Sverrisson er meistari mikill. Ég hef verið að fylgjast með sólóferli hans og samstarfsvinnu í meira en áratug núna og allt er þetta flott, spennandi og fær hjartað til að tikka. Nú var hið virta Downbeat að velja hann sem einn fremsta bassaleikara heims. Nema hvað, segi ég nú bara. Ný plata frá Skúla og Óskari Guðjónssyni, The Box Tree, kemur þá út fljótlega og spila þeir saman á tónleikum í Listasafni Íslands föstudaginn 21. september vegna þessa. Þeir félagar gáfu út hina stórkostlegu Eftir þögn fyrir tíu árum síðan og því óhætt að núa saman höndum. Hér er svo nánari tilkynning sem mér barst um þetta mál:

Skúli Sverrisson og Björk á lista Downbeat

Skúli Sverrisson bassaleikari og tónskáld er í ágústhefti tímaritsins Downbeat á lista yfir fremstu rafbassaleikara samtímans í djasstónlist. Downbeat, sem er nokkurs konar biblía jassáhugamanna, birtir listann árlega og er hann valinn með kosningu á meðal gagnrýnenda á vegum tímaritsins. Þetta er í 60. sinn sem listinn er birtur.

Skúli hefur frá árinu 2003 verið á lista yfir helstu vonarstjörnur í rafbassaleik að mati gagnrýnenda Downbeat en er nú í fyrsta skipti á lista yfir þá allra fremstu. Hans er reyndar enn á ný getið sem einnar helstu vonarstjörnu rafbassaleikara í bransanum og á því greinilega enn meira inni að mati gagnrýnenda.

Óhætt er að segja að það sé mikil viðurkenning fyrir hvern þann tónlistarmann sem á listann kemst og er Skúli fyrsti íslenski hljóðfæraleikarinn sem kemst á hann.

 En Skúli er ekki einn á lista Downbeat í ár því Björk Guðmundsdóttir er einnig á honum og það í tveimur flokkum eins og Skúli. Hún er annars vegar á lista yfir athyglisverðustu hljómsveitir og listamenn í nokkurs konar opnum flokki og hins vegar er síðasta plata hennar, Biophilia, á lista yfir athyglisverðustu plöturnar í sambærilegum opnum flokki.

Það er vert að benda áhugasömum á að næst komandi föstudag mun Skúla flytja eigið efni ásamt Óskari Guðjónssyni saxafónleikara í Listasafni Íslands. Tilefnið er útgáfa nýrrar plötu þeirra sem nefnist The Box Tree. Tónleikarnir hefjast kl. 20 og fer miðasala fram í afgreiðslu Listasafnsins frá og með næsta þriðjudegi.

 

 

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: