[Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 8. september]

Eigi siglir hann lygnan sjó

• Bob Dylan gefur út nýja hljóðversplötu á mánudaginn
• Tempest er 35. plata meistarans sem kominn er á áttræðisaldur

Af hverju höfum við svona mikla þráhyggju gagnvart Bob Dylan? Hver ákvað þetta? Þessi hugmynd um að hann sé eitthvað annað og meira en maður sem semur lög og texta. Hann sé einhvers konar tákn, heilagur maður með beintengingu við almættið og í honum kristallist einhvern veginn samviska eftirstríðsárabarnanna.
Þessi mynd okkar af honum virðist síðan vera að treystast og skýrast með árunum ef eitthvað er, m.a. vegna þess gæðaefnis sem frá honum kemur nú á efri árum. Dylan passar svo gott sem fullkomlega í hlutverk hins alsjáandi, en dularfulla, öldungs sem veit alltaf meira en nef hans nær.

Klósett

Nýjasti skammturinn í þessari ævikvöldsreið hans er Tempest, tíu laga plata þar sem tæplega fjórtán mínútna titillagið er miðlægt. Þar fjallar Dylan um örlög Titanic í 45 versum. Lag Carter-fjölskyldunnar um slysið varð Dylan innblástur en hann lætur sér ekki nægja að fjalla um stórslysið upprunalega heldur vísar hann og í mynd James Cameron frá 1997.

Dylan tók plötuna upp með hljómsveit sinni, líkt og hann hefur gert á síðustu plötum. Þessi aðferðafræði, að fara með þetta gengi (og þeir líta út eins og gengi) inn í hljóðver eftir að hafa spilað sig sundur og saman á tónleikum í marga mánuði, en Dylan er sítúrandi, hefur getið af sér mikla kjörgripi og Dylan er ekki að kroppa í eitthvað sem virkar. Love and Theft (2001) og Modern Times (2006) eru skínandi dæmi um virkni þessa, svo þéttar að vatnið kemst ekki á milli og maður finnur sterkt fyrir því að þessir menn þurfa ekki að tala mikið saman í hljóðverinu. Þessi dampur datt dálítið niður á Together Through Life (2009) en jólaplata Dylans það sama ár kom honum aftur á kúrs, algerlega magnað verk, eins skringilega og það hljómar (þið verðið bara að taka orð mín fyrir því, hér er ekki pláss til að rökræða það frekar. Vísa hins vegar í grein sem ég skrifaði í blaðið frá 6. janúar 2010).

Shakespeare

Tónlistin á Tempest fylgir svipuðum línum og allar þessar plötur. Amerísk tónlist, í sinni víðustu mynd, í forgrunni. Blús (mikið af honum), djass, rokkabillí, þjóðlagatónlist, tex-mex o.s.frv. Það er harðneskja, ofbeldi og blóð í gangi en líka ljúflegheit og sakleysi.Opnunarlagið, „Duquesne Whistle“ er í gamaldags djassstíl og lokalagið, „Roll on John,“ er blíður óður til Johns Lennons. Í viðtali við Rolling Stone viðurkennir Dylan að hann hafi ætlað að gera trúarlegri plötu en hann hafi einfaldlega ekki verið með nægilega mikið efni í það. Dylan-rýnar sumir hverjir supu hveljur við að lesa þetta og minnast umdeildra kristilegra platna Dylan frá áttunda og níunda áratugnum, Slow Train Coming, Saved og Shot of Love. En af síðustu verkum hans að dæma hefði aðkoman verið öðruvísi, kallinn er ekkert að fara að „frelsast“ úr þessu.

Í sama viðtali var Dylan spurður hvort platan væri vísun í lokaleikrit Shakespeare og þetta væri því þar með síðasta plata hans. „Síðasta leikrit Shakespeare kallast The Tempest,“ svaraði Dylan þá. „Platan mín heitir Tempest. Þetta eru tveir ólíkir titlar.“ Dylan er snjall.

Tagged with:
 

2 Responses to Bob Dylan: Ný hljóðversplata, Tempest

  1. Mikið er ég ánægður að kallinn gerði nýja plötu. Ég var mjög hræddur um að Together Through Life yrðí hans síðasta. Það hefði verið harmur eftir stórkostlega þrennuna sem á undan kom.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: