Drottningin Eivör Pálsdóttir, drottningin af Færeyjum, heillaði hátíðargesti.
Ljósmyndir: G! Festival – Alessio Mesiano. Nema annað sé tekið fram

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 18. júlí, 2019.

Gleði í Götusandi

Tónlistarhátíðin G!, sem er haldin í smábænum Götu í Færeyjum, fór fram í átjánda sinn um síðustu helgi.

G!-hátíðin á rætur í tónlistarbyltingu sem átti sér stað um síðustu aldamót í Færeyjum. Nýjar hljómsveitir og listamenn með nýjar listrænar áherslur fóru að taka sér stöðu og pláss og gátu þessar hræringar af sér t.a.m. Clickhaze, Gesti, 200 og sólóferil Eivarar Pálsdóttur. Tónlistarmenn með rætur í Götu og Austurey fóru mikinn á þessum tíma og endurómurinn lifir enn á eyjunum átján.

G!-hátíðin hefur styrkst og eflst í gegnum tíðina – en ekki vaxið að umfangi sem er lykillinn að farsæld hennar. Hátíðin rúllar í dag fumlaust, líkt og ljúfasta skerpukjöt, og íbúar og starfsfólk leggjast á eitt um að gera þetta að jákvæðri og nærandi upplifun fyrir alla. Fjölskyldur skjóta skjólshúsi yfir erlenda lista- og blaðamenn, ungir Færeyingar sækja hátíðina ennþá af miklum móð og færeyskir stjórnmálamenn og menningarfrömuðir styðja við hátíðina og sjá í henni hið óskoraða gildi.

Dagskráin einkennist ávallt af mikilli fjölbreytni, þar sem áhersla er á að hafa eitthvað fyrir alla. Færeyskir listamenn eru eðlilega í öndvegi en ávallt eru t.d. þrír eða fjórir héðan. Önnur Skandinavíulönd leggja þá í púkkið líka. Hefð er orðin fyrir því að hafa eitt eða tvö stór alþjóðleg númer og í þetta sinn var það sjálfur Fatboy Slim sem lauk hátíðinni með taktföstu teknói. Það er raunverulega gægst í öll skúmaskot; danskur jaðarrappari treður upp á eftir fullorðnu færeysku söngvaskáldi og svo kemur íslenska svartmálmsbandið Zhrine í kjölfarið. Aðrir íslenskir tónlistarmenn þetta árið voru þau Vök, JóiPé og Króli og Emmsjé Gauti. Allt þetta fólk stóð sig með sóma og rappararnir vöktu mikla athygli hjá færeyska ungviðinu.

Það er erfitt að lýsa hátíðinni í orðum, upplifun er eiginlega nauðsynleg. Gata, þ.e. Syðri-Gata, er með einstæða legu, og í botni fjarðarins er fjara eða „sandur“ með ljósgráum sandi. Kræklóttar göturnar gefa þorpinu svo nánast portúgalskt yfirbragð. Stóra sviðið er í fjörunni (sem mér fannst galin hugmynd á sínum tíma) og önnur svið og tilheyrandi sölubásar hlykkjast um þetta örlitla þorp. Gestir eru þá af öllum toga og innilegheitin tilfinnanleg. Auk tónleika er boðið upp á barnadagskrá, jógatíma, bjórhlaup, matarsmakk og metnaðarfulla listadagskrá með upplestrum, gjörningum og þvíumlíku.

Aðstandendur vita þá lengra en nef þeirra nær og blaðamönnum og erlendum listamönnum er boðið upp á kynningartúra á daginn. Farið var í þorpið Gjógv, bæjarskrifstofurnar í Götu skoðaðar (margverðlaunaður arkitektúr) og hlustað á þjóðlagatónlist í gömlu kirkjunni (hvar Kári Sverrisson söng af stakri list). Þórshöfn var líka heimsótt og kíkt í Norðurlandahúsið, plötubúðina Tutl og einnig nutum við leiðsagnar um bæinn, en þar fór hinn litríki Magni Arge á kostum. Slíkur er uppgangurinn í Færeyjum um þessar mundir að Magni hljómaði eins og Íslendingur!
Mér hlotnaðist þá sá heiður, sem fulltrúi Morgunblaðsins, Íslands og fræðastúss míns í kringum tónlist, að taka þátt í samtali um færeyska dægurtónlist, stöðu hennar í dag o.s.frv.

Dyggir lesendur kunna að hafa orðið varir við áhuga minn á eyjunum og ég hef skrifað tugi greina um tónlistarlífið þar allt síðan ég tók mikla Færeyjasótt fyrir rúmum fimmtán árum eða svo. Megi lækning aldrei finnast.

Nýstirni Greta Svabo Bech er ung og efnileg söngkona frá Færeyjum.
Sælusandur Stemningin á G! er í senn innileg og ánægjuleg.
Ræturnar Þjóðlagatónlistin fyllti Fjósið, sem var nýtt svið á hátíðinni.
Húmar að Stemningin á G! var hin fjölskrúðugasta, dag sem nátt.
Kraftur Danska þungarokkssveitin Baest rokkaði af miklum móð.
Ljósmynd: Ross Silcocks
Ung Næsta kynslóð horfir til hafs.
Ljósmynd: Ross Silcocks
Magnað Það er einfaldlega ótrúlegt, G! svæðið.
Rapp Hinn danski Noah Carter vakti mikla lukku.
Ljósmynd: Ross Silcocks
Jóga Boðið var upp á teknójóga í fjörunni einn morguninn!

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: