Tríó Countess Malaise, Cell7 og Hildur Guðna, kampakátar.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 7. mars, 2020.

Hildur hin óstöðvandi

Tónlistarhátíðin by:Larm fór fram um liðna helgi og m.a. gekk Hildur Guðnadóttir frá hátíðinni sem handhafi Nordic Music Prize-verðlaunanna. Pistilritari var á staðnum.

Osló á sína eigin Airwaves-hátíð, by:Larm kallast hún og var hún sett á laggirnar árið 1998, einu ári áður en Airwaves hélt sína fyrstu hátíð í flugskála á Reykjavíkurflugvelli (ári síðar rúllaði hún svo af stað eins og við þekkjum hana í dag). Merkilegt, að fyrstu tíu árin flakkaði by:Larm á milli borga, en síðan 2008 hefur hún verið í höfuðborginni. Hátíðin hefur reynst öflugur vettvangur fyrir heilnæma samansúrrun norræna tónlistariðnaðarins. Starfsfólk sem honum tilheyrir hittist og ber saman bækur sínar, annaðhvort formlega eða óformlega. Fjöldi tónleika er þá, eðlilega, og áhersla á listamenn frá Norðurlöndum. Ráðstefnuhluti hátíðarinnar er vandaður og fer vaxandi með ári hverju.

Samfara hátíðinni eru Norrænu tónlistarverðlaunin veitt, verðlaun sem hátíðin hratt af stað árið 2011 (fyrsta árið vann Jónsi, fyrir plötu sína Go , sem út kom 2010). Það voru þrír listamenn frá Fróni á tólf platna stuttlistanum þetta árið, Hildur Guðnadóttir, Cell7 og Countess Malaise. Fór svo að Hildur hreppti hnossið. Ég sat í salnum, að vonum spenntur. Þegar sigurvegaranum var lýst svo, áður en nafnið kom fram: „Viðkomandi hefur ýtt á öll mörk og mæri þeirrar stefnu sem þetta verk er unnið í“ gaus upp hlýr straumur innra með mér og ég hrópaði og kallaði. Og svo mikið sem hún átti þetta skilið.

Hildur hafði komið fram fyrr um daginn í spjallviðburði, þar sem blaðamaðurinn Jude Rogers ræddi við hana uppi á sviði. Hafði hún verið bókuð inn á það nokkrum mánuðum fyrr, enda efast ég um að Hildur hefði haft færi í dag, sé mið tekið af þeim skriðþunga sem hefur verið að undanförnu. Ég náði örlitlu tali af henni baksviðs eftir atið og það var gott að sjá hana. Ég, eins og aðrir, er náttúrlega gríðarlega stoltur.

Ég sótti nokkra af ráðstefnuviðburðunum og hafði gaman af. Eamonn Forde leiddi okkur t.d. í allan sannleikann um hvernig E.M.I fór á hausinn og Scumeck Sabottka, bókari Rammstein til 25 ára, sagði okkur frá nokkrum húsráðum sem hann nýtir sér. Og já, hann lítur nákvæmlega eins út og nafnið hans! Hápunktur þessa alls var þó að hlusta á Bruce Pavitt, stofnanda Sub Pop-útgáfunnar áhrifaríku, segja frá.

Tónleikar voru úti um allar koppagrundir líka. Catherine, einslags þjóðlagasíðrokksband frá Englandi, heillaði ekki, of hrátt og tilgerðarlegt. Brasilíska þrasssveitin Nervosa, skipuð þremur stúlkum, átti hins vegar salinn og gerði allt vitlaust. Þá gafst mér líka tækifæri til að sjá hana JDFR okkar spila á staðnum Ingensted, yndislega myndrænu rými sem er við á sem rennur í gegnum Osló.

JFDR var eini Íslendingur á hátíðinni, ásamt NYRST og Þorgerði Jóhönnu, sem er plötusnúður, búsettur í Osló. Enginn finnskur listamaður var bókaður. Nóg var af Norðmönnum og Svíar og Danir áttu sæmilegan slurk af fulltrúum. Þetta skýtur dálítið skökku við, þegar hátíðin hýsir verðlaun sem er ætlað að kynna norræna tónlist út á við og tvö lönd af fimm eru nánast ekki með. Þetta styður samt rækilega við það sem ég hef greint í gegnum vinnu mína fyrir verðlaunin, að Noregur/Svíþjóð/Danmörk eru vel tengd markaðs- og svæðislega en Ísland og Finnland eru jaðarlönd, bæði landfræðilega og menningarlega greinilega. Enda urðum ég og finnski meðdómari minn perluvinir eftir að hafa þekkst í u.þ.b. fimm mínútur. Jebbs, klisjur eru sannar.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: