steve mason

[Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 6. apríl, 2013]

Betra band og betri líðan

• Ný hljóðversplata Steve Masons fær lofsamlega dóma
• Sólin skín, loksins, hjá þessum fyrrverandi „truflaða“ leiðtoga hljómsveitarinnar Beta Band

Platan kallast Monkey Minds in the Devil‘s Time og kom út í síðasta mánuði. Það sem er fréttnæmast við útgáfuna er að hún er ausin lofi hægri og vinstri, gagnrýnendur sem aðdáendur á því að Mason hafi loksins fundið fjölina á ný. Hann sjálfur er nokk hissa yfir þessu öllu saman, orðinn vanur barlómi, en er nú búinn að trekkja upp band sem mun túra með honum um velli víða næstu vikur. Ekkert slíkt var í kortunum áður en platan kom út, Mason hafði þess í stað spilað nokkra tónleika einn með kassagítarinn. „Ég vildi fyrst sjá hvort einhver myndi eftir mér!“ sagði hann fyrir stuttu á Fésbókarsetri sínu sem glóir núna af reglubundnum fréttum og stuðvænum skilaboðum. Maður finnur fyrir virkni og einhverju sem mætti kalla jákvæðni, jafnvel sátt. Öldungis breyttir tímar fyrir mann sem þjáðist af miklu þunglyndi fyrir nokkrum árum, ástand sem skilaði honum næstum því í höfnina í Pittenweem en þetta fallega sjávarþorp í Fife-héraði er bækistöð okkar manns nú um stundir.

Beta Band

Það er við hæfi að rifja feril Masons upp stuttlega. Hann leiddi semsagt Beta Band á tíunda áratugnum, sveit sem var hampað linnulaust af gagnrýnendum, hökustrjúkurum og öllum þeim sem „vita hvað er í gangi“. Merkasta afrek hennar liggur í þremur stuttskífum sem komu út 1996 og 1997 og í raun toppaði Mason sig í fyrsta laginu á fyrstu plötunni, hinu snilldarlega „Dry The Rain“, sem spilar allstóra rullu í kvikmyndinni High Fidelity. Þetta orðspor skilaði sér hins vegar ekki í plötusölu og andstaða Masons við bransann átti líka stóran þátt þar. Þetta viðhorf hjálpaði t.d. ekki þegar fyrsta breiðskífan, samnefnd sveitinni, kom út 1999 en Mason og félagar lýstu því yfir að platan væri ömurleg. Engu að síður var erfitt að dást ekki að þessum óvæntu sveigjum og beygjum og maður tók hatt sinn ofan fyrir greinilegum listrænum metnaði og heiðarleika. En seinna kom í ljós að ýmislegt fleira spilaði inn í þessa hegðun alla…

Núið

Þegar Beta Band hætti hélt Mason sér uppteknum með hliðarverkefninu King Biscuit Time en það hafði hann reyndar haft uppi í erminni fyrir daga Beta Band. Þá gaf hann einnig út undir nafninu Black Affair, þar sem hann fékk útrás fyrir áhuga sinn á raf- og dantónlist. En samfara þessu öllu fór Mason að tjá sig um álag það sem svarti hundurinn eða þunglyndið hafði valdið honum. Vorið 2006 hafði hann t.a.m. látið sig hverfa og skildi þá eftir vafasöm skilaboð á vefsíðu sinni sem var ekki hægt að túlka nema á einn hátt. Áhyggjufullir vinir og aðdáendur létu í sér heyra og eftir dúk og disk kom Mason aftur í ljós. Í dag segir hann sjúkdóminn viðráðanlegan en á þessum tíma, og einnig þegar hann var starfandi með Beta Band, var þunglyndið yfir og allt í kring.
Það er eitthvað skáldlegt við það að tengja bætta líðan við þá ákvörðun Masons að gefa loksins út undir eigin nafni. Eigum við að segja að með því að horfast í augu við sjálfan sig, þá verði maður frjáls? Alltént kom hin prýðilega Boys Outside út 2010 og þar skynjaði maður þessa nýtilkomnu sátt. Monkey Minds in the Devil‘s Time virðist ofurpólitísk á yfirborðinu en fjallar meira um það hvernig Mason hefur verið að sigla á milli skers og báru en er loks farinn að glitta í lygnan sjó og opnara haf.

„Ég hafði alltaf verið að lifa öfganna á milli,“ lét spakur Mason hafa eftir sér í viðtali við Guardian fyrir stuttu. „Loksins komst ég að því að það er bara ekki mjög skynsamlegt að keyra eitt stykki líf með þeim hætti.“

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: