photo

Móheiður Hlíf Geirlaugsdóttir, sérlegur útsendari arnareggert.is, gerir upp ATP hátíðina sem fram fór um liðna helgi.

Allir heimsins morgnar

Það var fyrir fjórtán árum síðan sem ég fór fyrst á All Tomorows  Parties í litlum sumardvalarstað sunnan við Brighton. Staðurinn sjálfur minnti svolítið á gömlu herstöðina nema að þarna mátti lesa hina þunglyndislegu áletrun Snappy Happy Holiday upp um alla veggi. Þarna vorum við þá kærustuparið ásamt öðrum plötubúðarstarfsmönnum úr Japis, Laugavegi 13, og það á gullöld síðrokksins. Við parið eltumst m.a. við hina og þessa hljómsveitarmeðlimi til að taka við þá viðtöl en kærastinn, nú eiginmaðurinn, var þá að skrifa í verktakavinnu fyrir Morgunblaðið. Flestir gestirnir voru litlir indíkrakkar eins og maður kallaði þá (en við kannski litlu eldri sjálf). Stelpur í rauðum sokkabuxum og gulum Doc Martens og strákar í Converse. Gestir ATP liðna helgi voru hins vegar af mun fjölbreyttara tagi þó fjöldi Docs og Converse hafi líkast til verið svipaður. Indíkrakkarnir – einhvers konar forverar krúttanna – eru orðin grá í vöngum og jafnvel krúttin orðin ráðsett. Hljómsveitarvalið þetta árið var kannski ekki jafn einhæft og þarna um árið og áhorfendaskarinn því skemmtilega blandaður, þarna áttu allir að finna eitthvað við sitt hæfi.

Fyrsta hljómsveitin sem ég sá á fimmtudeginum var ein af mínum uppáhalds. Hjónin í Low sungu með sínum hljómfögru röddum gömul og ný lög, hjónakornin eiga langan og jafnan feril að baki, eitthvað sem var auðheyranlegt. Einfaldlega gott band og síðasta plata, The Invisible Way, virkilega sterk.

Það verður að viðurkennast að ég var bæði hissa og ánægð með hve vel tímaáætlanir stóðust og allt utanumhald um hátíðina var til fyrirmyndar. Á fimmtudeginum var kannski fæsta fólkið en auðvelt var að komast framarlega án nokkurs troðnings. Veðrið hins vegar lék ekki við hvern sinn fingur, það var íslenskt slagveður og rigningin svo mikil að ég lagði hreinlega ekki í að kíkja á HAM né Spiritualized í  Andrews Theater. Útlendingarnir sem virtust vera stór hluti gesta voru margir hverjir vel búnir í útivistarfatnaði svo að þeir veigruðu sér ekki við að ganga á milli, hins vegar heyrði ég nokkra vera furðu slegnir á stílíseruðum Íslendingunum.

Eftir Low í Atlantic studios, aðaltónleikasviðinu, var tríóið Shellac, hljómsveit hins afkastamikla upptökustjóra Steve Albini og þeirra Todd Trainer og Bob Weston. Ég hafði nú séð þá félaga á fyrri ATP hátíðinni sem ég fór á sem hinir skosku Mogwai “hóstuðu”, þ.e. sáu um að  velja hljómsveitir. Mikil eftirvænting var í salnum sérstaklega hjá fyrrverandi indíkrökkum. Framkoma þessara félaga var einkar hressileg, hávaðinn var ágætlega eyrnarskerandi, Steve og Bob höfðu eðlilega elst eitthvað og kynnst velmegun en trommarinn hafði ekki elst um gramm og sýndi sína gömlu góðu engisprettutakta. Í síðasta laginu, þegar Bob var meðal annars búinn að leika flugvél og öllum illum látum, fóru þeir að taka niður trommusettið undan trommaranum. Sjálfri hafði mig minnt að ég væri hrifnari af þeim en einhvern veginn virðast þessir nördalegu kallar ekkert ná sérstaklega til mín. Lengri lögin þóttu mér leiðinlegri en þessi melódísku.

Næstur á svið var Kurt Vile og the Violators. Þar hitti ég norska kunningjakonu sem vonaði að þeir yrðu nú aðeins hressilegri en Spiritualized. Í bæklingnum stóð að Kurt þessi væri einn besti gítarleikari og söngvasmiður síðari ára og væri fæddur 1980. Ég get ekki sagt að þessir loðnu og síðhærðu menn hafi sannfært mig um þá staðhæfingu, lögin flutu um fullkomlega óáhugaverð án þess ég tæki eftir hvernig þau enduðu eða byrjuðu. Gárungarnir, eða Doktor Gunni í þessu tilfelli, vildi meina að þetta væri óttalegt væl og verð ég að vera sammála Doktornum þar.

Á föstudeginum höfðu Converseskórnir fengið að víkja fyrir svörtum vaðstígvélum en slagviðrinu hafði þó engu að síður slotað. Fyrstu tónarnir sem ég heyrði voru síðustu tónar Ástralans Ben Frost. Geðveikislegir og þungir og fólk bar honum vel söguna. Strax á eftir hófu Mammútgyðjurnar raust sína, tónlist þeirra hefur þyngst töluvert sem mér finnst vera vel, söngur Katrínu Mogensen er sérstakur en ber einnig einhvern keim af stórstjörnu okkar Björk. Þótti mér þau vera skemmtilegasta íslenska bandið yfir það heila. Á milli þeirra náði ég plötusnúðinum Einari Erni úr Ghostigital sem spilaði og dansaði pönk. Á eftir Mammút kíkti ég á aðra sveit sem einnig er skipuð ungum konum að mestu en það voru systurnar í Pascal Pinon. Kynjahlutfallið þetta kvöld á ATP var því mjög gott og hrósvert.

Ég hef fylgst nokkuð vel með Jófríði og Ásthildi frá því þær byrjuðu í Pascal Pinon og ég er ánægð með framþróunina hjá þeim. Jófríður er með einstaklega skemmtilega og góða rödd, og samsöngur systranna sérlega góður. Síðasta lagið þeirra var glænýtt og líst mér bara harla vel á það sem koma skal hjá Pascal. Hin stórfenglega Sóley spilaði á sama tíma í Atlantic Studios en Pascal og þægileg sæti héldu mér frá henni í þetta skiptið.

Næsta sveit á aðalsviði var Liars sem þekkti ég ekki mikið en kunningjakona benti mér á að þarna mætti heyra Sisters of Mercy takta og söngvarinn með áþekka rödd og söngvari Bauhaus. Sjálfri þóttu mér þeir mistækir mjög og á milli Sisters taktsins fannst mér vera tilgerðarlegur Scooter á ferð.

Ég færði mig nær sviðinu og hlakkaði til næstu stórsveitar sem var hin margfræga skóglápssveit Slowdive. Neil Halstead og Rachel Goswell spiluðu þétt saman, líkt og árið væri 1991 fremur en 2014. Rachel brosti hlýlega til áhorfenda en virtist stundum ekki vera nægilega með á nótunum, þessi fyrrum indídrottning var eins og brosmildur handavinnukennari að norðan og Neil orðinn ansi grár; minnti á smíðakennara með gítaráráttu. Þó settið væri ansi þétt fannst mér hljóðið ekki nægilega gott, sér í lagi hvað hljóðnema Rachel varðaði.

Þegar ofvaxna P-ið birtist á skjánum fór ég að finna fyrir troðningi fremst við sviðið og var nánast farin að slást við unga konu til þess að halda stæðinu mínu í annarri röð. Portishead var mætt í allri sinni dýrð og Beth Gibbons opnaði með lögunum „Silence“ og upphafslagi Dummy, „Mysterons“. Röddin hennar viðkvæm og undurblíð en djúp og sterk í senn. Undursamleg. Billie Holiday okkar tíma. Toppi ATP var náð þessa helgina, hver slagarinn af hinni klassísku Dummy kom á fætur öðrum; „Glory Box, „Wandering Star“ en líka af seinni plötum þeirra tveim. Áhorfendaskarinn stóð sem dáleiddur af þessari ofursvölu söngkonu og í þónokkrum lögum söng salurinn allur með. Í baksýn voru svo svart-hvítar myndir af Beth og félögum og jók það enn frekar á upplifunina. Eftir að hafa staðið þarna fremst við sviðið alla tónleikana fór ég í síðasta uppklappslaginu sem ég hefði auðvitað ekki átt að gera því Beth gerði sér lítið fyrir og steig niður og tók í höndina á þeim sem fremst stóðu. Þetta kvöldið hefði ég ekki getað innbyrgt meira þó ég vildi, svo stórkostlegir voru tónleikarnir.

Laugardaginn verð ég hins vegar að láta öðrum í té að dæma þetta árið. Hátíðin búin að taka sinn toll af undirritaðri og ég var auk þess boðin í partý til einhvers milljónamærings (hóst).

Það er augljóst að eftirspurnin eftir svona hátíð er til staðar og Tómas Young og félagar hafa séð um framboðið með miklum myndarbrag. Ég vona innilega að ATP haldi áfram á Íslandi því það er alveg ljóst að hátíðin á vel heima hér.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: