533224640

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 13. september, 2014

Sakleysið uppmálað

• U2 gaf út nýja plötu á þriðjudag, Songs of Innocence
• 500 milljón iTunes-notendur geta nálgast hana ókeypis

Það hafa verið áhöld um það hvort U2 – ein farsælasta rokksveit allra tíma – myndi gefa út langþráða plötu sína í ár eða hvort tafir yrðu ofan á, enn og aftur. Á þriðjudaginn, er Apple ýtti nýjasta snjallsímanum sínum úr vör, voru U2 á staðnum og svo sem ekkert óeðlilegt við það enda hefur sveitin starfað nokkuð náið með fyrirtækinu í gegnum tíðina (það var t.d. gefinn út sérstakur rauðsvartur How to Dismantle an Atomic Bomb spilastokkur á sínum tíma). En, öllum að óvörum, gengu þeir félagar svo á svið ásamt Tim Cook, yfirmanni Apple, og tilkynntu að þeir myndu hlaða plötunni, Songs of Innocence, upp á iTunes og notendur gætu brúkað hana þar endurgjaldslaust. Efnisleg eintök koma svo út um miðjan október (eðli svona stafrænna æfinga er þó þannig að platan lekur nú um alla miðla og streymdi t.a.m. um youtube á nokkrum rásum um hríð).

Lítill friður

Þeir eru snjallir, U2 liðar og nýr umboðsmaður þeirra, Guy Oseary, sem leysti kempuna Paul McGuinnes af í fyrra (McGuinnes hafði farið með mál U2 frá upphafi). Apple er í raun að kaupa allan þennan fjölda af „eintökum“ í risastórum magninnkaupum en upphæðin hefur ekki enn verið gerð opinber (talað er um 100 milljónir dollara). Einnig mun Apple kynna plötuna linnulaust í gegnum öll sín tæki og tól á næstu mánuðum og því ljóst að lítill friður verður fyrir Bono og félögum næstu misseri („Allir eru að tala um Bono. Ég er orðinn ótrúlega þreyttur á þessum Bono. Og ég er Bono!“ sagði meistarinn eitt sinn). Það er með eindæmum hvernig þessir menn halda sér á floti og ekki hægt annað en að taka hofmannlega ofan, hvernig svo sem manni lyndir við þá eða þeirra tónlist. Bono er líka algerlega ótrúlegur í að…ja… vera Bono. Á þessari Apple-kynningu í Kaliforníu (það er klippa á YouTube) náði hann að samþætta tvo ólíka hluti á listilegan hátt. Um leið og hann er auðsýnilega harðsvíraður bisnessmaður, algerlega glerharður, stígur hann fram af auðmýkt hins viðkvæma listamanns og ræddi m.a. um það hversu mikið hjartans mál það hefði verið honum og hans sveit að deila þessari mjög svo persónulegu plötu með eins mörgum og hægt væri, enda væri slíkt hugarfar bundið í eðli og eigindir U2. Svei mér þá, ef ekki mátti sjá tár renna úr dollaraglýjandi augunum.

Algjört æði

En, mig langar líka til að segja ykkur frá innihaldinu, sjálfri tónlistinni. Lítum á þetta sem bráðabirgða-upplifunarskýrslu sem á mjög svo mögulega eftir að taka breytingum fremur en geirnegldan dóm. Platan er spánný, er búin að rúlla nokkra hringi í eyrunum en þetta eru alltént hughrifin sem ég fæ: Ég sá að plötunni hafði verið sleppt seint á þriðjudagskvöldið og nokkrum sekúndum síðar streymdi hún um eyrun. Ég var óvenjuléttur í (hljóð)spori þegar ég gekk til móts við hana, bjóst þægilega ekki við neinu (sem ég hef líklega lært af biturri reynslu) og var í alvörunni forvitinn og spenntur fyrir innihaldinu en U2 var fyrsta sveitin sem ég tók algjört æði fyrir og þessi barnslega eftirvænting rígsitur í manni . Eitt af því fyrsta sem ég tók eftir voru textarnir. Tal um að platan sé persónuleg er ekkert gaspur út í loftið, lögin fjalla m.a. um móður Bono, stríðið í Írlandi, æskuárin í Dyflinni og fleira. Bono nær góðu heilli að snara upp sæmilegustu línum í þessum lögum og hann syngur af ákefð og einlægni. Hann stendur sig vel þar.

Gaddavírsgítarar

Platan fer hægt af stað, ekki mikið á seyði finnst manni í fyrri hlutanum en á þeim seinni þyngist róðurinn og verður um leið nokkuð glæsilegri. Gaddavírsgítarar sem minna á síðpönkið sem þeir unnu með í kringum October og vel í lagt í lagasmíðadeildinni. „This Is Where You Can Reach Me Now“ er vel grípandi, álitlegasti útvarpssmellur og síðasta lagið, „The Troubles“ er gullfallegt en hin sænska Lykke Li syngur þar snotra bakrödd. Það sem vantar helst hérna er að of mörg lög renna inn í mjög kunnuglega og um leið vel þreytta formúlu sem þeir hafa verið að jaskast á miskunnarlaust undanfarin fjórtán ár eða svo. Þetta seinni tíma „U2 rokk“ er þegar verst lætur svo gott sem gegnsætt, svo tilþrifalítið er það.
En…ég hef engu að síður góða tilfinningu fyrir þessari plötu akkúrat núna. Það er eitthvað þarna. Persónulega get ég ekki lengur eytt orku í að níða skóinn af þessum fyrrverandi átrúnaðargoðum mínum, ég sé einfaldlega ekki tilganginn með því. Kannski er það aldurinn (ég komst á fimmtugsaldurinn í ár) en ég er þægilega æðrulaus gagnvart þessu öllu saman. „Njóttu bara, Arnar minn. Þú varst alltaf alvöruaðdáandi,“ sagði góður vinur minn við mig á Fésbókinni á þriðjudagskvöldið í löngum þræði sem spannst vegna plötunnar. Ég fór að hans ráðum.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: