Jóla-Laddi Þjóðargersemin Þórhallur Sigurðsson, betur þekktur
sem Laddi, hefur sungi ófá jólalög í gegnum tíðina.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 23. desember.

Snjókorn falla …

Hér verður litið til afreka Ladda á jólalagasviðinu og nýútkomin safnplata, Snjókorn falla, verður til grundvallar. Einnig verður tæpt á öðrum nýútkomnum jólaplötum, innlendum sem erlendum.

Það væri að æra óstöðugan að rekja helstu afrek þjóðargerseminnar Ladda, manns sem ég set hiklaust á stall með Shakespeare, Bob Dylan og Picasso. Nei, ég verð að halda aftur af mér með þær mæringar og stilla miðið af því að Jóla-Laddi er útgangspunkturinn hér. Sem barn níunda áratugarins þekki ég flest lögin á Snjókorn falla inn og út og flestir ofursmellirnir komu út á þeim áratug og aðeins inn í þann tíunda. En ég er það gamall að ég man vel eftir þeim lögum sem reka restina á vínylplötunni, hvar Halli og Laddi fara á kostum sem þeir sjálfir og Glámur og Skrámur. Frasinn ódauðlegi „Jóla hvað?“ fæddist á plötunni Jólastjörnur (1976, meira um hana síðar) en þrjú lög af henni prýða plötuna. Þetta var blómaskeið Halla og Ladda og öll lögin sem brennd í mann eins og vel steikt laufabrauð. Þá má ekki gleyma stórkostlegri smíð Ladda, „Leppalúði“, sem er að finna á meistaraverkinu Með eld í hjarta sem Brunaliðið gaf út 1978. Dumbungslegt, angurvært lag og vel „gotneskt“, ólíkt öllu því sem Laddi hefur lætt frá sér.

HLH flokkurinn gaf út plötu 1984, Jól í góðu lagi, og þrjú lög af henni prýða safnið. „Rokkað í kringum jólatréð“ heyrist oft á jólastöðvunum en „Komdu um jólin“ sjaldnar, rokkari sem er saminn af okkar manni. Af þeirri plötu kemur líka sagan ótrúlega, „Skrámur skrifar jólasveininum“, sem kemur enn þann dag í dag á hláturviprum.

„Rokkað út jólin“ (1986) er sömuleiðis sterkt eins og „Snjókorn falla“, þekktasta jólalag Ladda, sem út kom sama ár. Athugið að hér er ekkert grallaragrín í gangi, lagið er „eðlilegur“ óður til töfra jólanna. Samsöngur Dengsa og Hemma Gunn frá 1991 er dásamlegur og ég hlæ alltaf eins og barn þegar ég heyri þá félaga glettast. Eiríkur Fjalar á þá lagið „Það er æðislega obboðslega gaman oft á jólum“ frá hamfaraárinu 2007 og er það með nýrri jólasmellum meistarans. Bráðskemmtileg ærslalæti. Vínyllinn ber og spánnýtt lag, „Skóinn út í glugga“, sem Laddi syngur með Friðriki Dór og hér er og að finna lagið „Dingaling“ frá 2021.

Vínylútgáfan er glæst og takmarkað upplag plötunnar er með tvískiptum lit, rauðum og grænum. Sjón er sögu ríkari.

Fjögur aukalög eru á geisladiski og Spotify. „Mig langar svo í ljón og fíl í skóinn“ og „Ég fer alltaf yfir um jólin“ (Af Jólaball með Dengsa…), „Bráðum koma jólin á ný“ af safnplötunni Senn koma jólin (1994) og syrpan „Á góðri jólastund“ sem Laddi (Þórður húsvörður) og Bryndís Schram leiða („Út með köttinn“ o.fl.). Lagið atarna birtist fyrst á plötunni Hurðaskellir og Stúfur staðnir að verki (1982).

Það er Alda sem gefur út og stendur hún aukreitis að þremur jólaútgáfum á vínyl. Jólasjó með Baggalúti og svo eru Jólastjörnur endurútgefnar ásamt plötunni Gáttaþefur og uppáhaldsjólalögin! hvar Ómar Ragnarsson fer á kostum. Allar þessar endurútgáfur eru vel úthugsaðar og frágengnar.

Það er mismunandi á milli ára hversu margar nýjar jólaplötur skila sér. Jóladraumur Guðmundar Jónssonar er af þeim toga en einnig plata Iceguys, Þessi týpísku jól, plata Völu, Jólin okkar og hin undurfurðulega plata Óbærilegur sléttleiki húðarinnar eftir Per: Segulsvið. Að ekki sé talað um smáskífuna Christmas with You sem Laufey okkar gerði með Noruh Jones! Jólagjöf í lagi fyrir okkur tónelska. Gleðileg jól dyggu lesendur!

—Erlendar jólaplötur—

Það er fátt um fína drætti erlendis verður að viðurkennast. Helstu fréttirnar eru jólaplata Cher, sem kallast einfaldlega Christmas. Andleysi titilsins lýsir innihaldinu ágætlega. Brandy, r og b-stjarnan gamalkunna, er þá með plötu og Gregory Porter, Samara Joy og Tarja Turunen einnig. En eins og þið sjáið, það er bara ein stórfrétt. Ein sú skemmtilegasta í ár, ef ekki sú skemmtilegasta, er We Wish you the Merriest með Seth MacFarlane og Elizabeth Gillies. Hollywood-jól með bjöllum og brassi í anda Frank Sinatra og Bing Crosby/Rosemary Clooney. Svo rakst pistilritari á allsvakalegan lagaspotta á Spotify með nýjum útgefnum jólaplötum í ár og telja þær tugi, reyndar hundruð. Með alls kyns fólki og af alls kyns gerðum. Það er engin leið að fylgjast með í dag, ég þyrfti að fá jólasveininn með mér í lið en hann kann þá list að koma miklu í verk á stuttum tíma …

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: