Red Riot Hildur og Cell7 eru kraftmikið tvíeyki.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 12. júní, 2021.

Popp í krafti kvenna

Það hillir undir talsverðan fjölda poppplatna frá kvenkyns flytjendum á þessu ári og er það vel.

Kveikjan að þessum pistli liggur í linnulitlum tilkynningum um plötur frá ungum og efnilegum tónlistarkonum, stígandi sín fyrstu skref með fimm til sjö laga plötum sem lúra á Spotify og/eða Bandcamp. Nöfn eins og t.a.m. Laufey, Rakel og Raven, innihaldið þekkileg og móðins popptónlist, stundum með nútíma r og b blæ, stundum af þjóðlagakyni. Ógrynni nafna hafa lent á borðinu mínu undanfarin tvö misseri. Salóme Katrín, Karítas, Karítas Harpa, Kristín Sesselja, Elín Hall, Blankifúr, svo fátt eitt sé nefnt. Fram undan svo efni með Ástu, Árnýju Margréti og Red Riot (Cell7 og Hildur). Og poppdrottningarnar Bríet og GDRN á fullu stími líka. Hallelúja!

Tónlistarkona að nafni Sigga Ózk gaf til að mynda út plötuna Ný ást á dögunum. Allt tipp topp, veri það umslagshönnun, kynningartextar, ljósmyndir, spilamennska o.s.frv. Tónlistin sjálf sannfærandi. Djassskotið popp í bland við stálkaldar r og b drifnar stórborgarstemmur. Sigga sjálf nýskriðin yfir tvítugt og textar ástarbundnir þar sem á skiptast skin og skúrir. Vel syngur hún þá, smá Amy Winehouse (og Teyana Taylor, Summer Walker) en fyrst og síðast ástríða og kraftur sem hún beitir af lagni út plötuna.

Hvernig stendur á þessu flóði sem er að sönnu fagnaðarefni? Tæknin hefur eitthvað að segja, einfaldara er að gefa út en áður og öll stig þar með minna flækjustig en áður. En það eru aðrar og mikilvægari skýringar líka sem fara heldur dýpra. Nú er alveg ljóst að konur eiga við ramman reip að draga á sviði tónlistar, hindranirnar eru margvíslegar og ég ætla ekki að fara sérstaklega út í hverjar þær eru hér. En eitt mikilvægasta tólið til að leiðrétta skekkjuna er sýnileiki og vettvangur (e. „platform“). Þegar ung, upprennandi stúlka sér aldrei kynsystur sínar á tónleikahátíðum, í tónlistartímaritum eða á bak við trommusett er ekki nema eðlilegt að hún hugsi að hún eigi ekkert erindi þangað. Skekkjan og skilaboðin eru kerfislæg, þetta er rammað inn í það samfélag sem við lifum og hrærumst í. Það sama á við um kynsegin og hinsegin fólk að sjálfsögðu, í raun alla þá sem eru ekki í þeirri valdastöðu sem hvítir karlar njóta.

Undanfarin ár höfum við séð æ fleiri stelpur taka þátt í Músíktilraunum, við sjáum passað upp á kynjahlutfall í útvarpsspilun (Rás 2) og samtök eins og Stelpur rokka! eru að vinna mikilvægt starf. Takið eftir, að allt eru þetta aðgerðir, við hugsum okkur ekki út úr villunni. Hjal um að fólk ætli sér að gera betur næst, „besta“ lagið sé valið óháð kyni (sem á einhvern ótrúlegan hátt er svo alltaf eftir karlmann) og svo framvegis er bara það. Hjal. Ef þér er raunverulega annt um réttlátara þjóðfélag og sjálfsagðan framgang kvenna ráddu þær þá inn á hátíðina þína, skrifaðu um þær, spilaðu þær, hlustaðu á þær, talaðu um þær og veittu þeim athygli.

Það er nefnilega meira en að segja það að taka sér pláss í bransa sem hefur frá upphafi verið kvenfjandsamlegur svo ég segi það bara hreint út. Komandi úr umhverfi þar sem þér er kennt að vanda þig umfram allt, trana þér ekki fram og vera ekki fyrir á meðan karlmenn venjast því að geta vaðið uppi og gert hlutina kinnroðalaust, algerlega án skammar. Þetta er línan. Er því nema von að ég sé kátur eftir þessa upptalningu í blábyrjun greinar? Að sjá alla þessa útgáfu? Mikið sem ég óska þess að allt það hæfileikakvenfólk sem við eigum í tónlistinni kýli á það, gefi út, skapi og tjái sig. Skítt með útkomuna. Hún þarf ekki að vera fullkomin. Bara að hún sé þarna. Skammar- og kinnroðalaust.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: