Viðtal: Aldous Harding
Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 13. ágúst, 2022.
„Ég hef aldrei heyrt lögin mín“
• Nýsjálenska tónlistarkonan Aldous Harding heldur tónleika í Hljómahöll mánudaginn 15. ágúst
• Greinarhöfundur ræddi m.a. við hana um tónlist, barnagælur og kaffi
• Fullkomlega í núinu
„Jæja, og hvað viltu svo tala um?“ spyr Aldous Harding á hinum enda línunnar, þar sem hún situr í Osló og sýpur á kaffi. Þetta var eftir nokkrar mínútur af vel meinandi kurteisishjali frá báðum aðilum. Sem m.a. knúði þessi mögnuðu samskipti fram:
– Aldous: „Spilar þú tónlist?“
– Ég: „Nei.“
– Aldous: „Værir þú til í að spila tónlist?“
– Ég: „Já, en ég þarf að stytta mér leið. Ég hef ekki þolinmæðina í að læra þetta.“
– Aldous: „Ó, erum við ekki öll þarna… (og bros í gegnum símann).“
Þessi merka tónlistarkona, líkast til sú merkasta sem í dag starfar, hefur frá árinu 2014 gefið út fjórar plötur og er í þeim glæsileg stígandi. Harding þræðir þar listilega einstigið á milli aðgengilegheita og undrabragða og vegur hennar sem listakonu vex með hverju misserinu.
Ég vissi fyrir fram að það væri ekki á vísan að róa að fá viðtal við hana. Harding hefur alla tíð verið heiðarleg með það að henni þyki þau óþægileg og í þeim yfirlýsingum er ekkert yfirlæti eða stælar. Hún er raunverulega óörugg í þessum aðstæðum, nokkuð sem átti eftir að koma í ljós á þeim hálftíma sem við eyddum saman. Harding var afsakandi oft á tíðum og ég, kominn á miðjan aldur, var farinn að taka föðurlega „utan“ um hana er á leið, róa hana og hvetja. Ég hef aldrei upplifað jafn langar þagnir og hik í viðtali – og var hún þó búin að vara mig við – en útkoman varð því betri og dýpri. Velkomin í veröld Aldous Harding kæru lesendur…
Erfitt að spila á tónleikum
– Ég ætla að vanda mig við það að vera ekki of leiðinlegur…
„Nei, veistu, ég ætla að gera mitt allra besta („my „bíst““ með þykkum nýsjálenskum hreim) til að „vera með þér“ en ég er bara ekki sérstaklega góð í að tala um tónlist. Sérstaklega ekki mína eigin. Ég er opin og ég vil að þetta fari vel. Það mun taka mig tíma að svara þér. Ekki vera leiður ef þetta gengur ekki eins og þú ert kannski vanur…“
– Hei, engar áhyggjur!
„Ég er annars að súpa á kaffi og líður vel. Vonandi verð ég orkurík og sjarmerandi. Nema ég eigi eftir að skella á þig og fara í kalda sturtu.“
– Ha ha ha… ég sá þig reyndar spila hér á Íslandi í Fríkirkjunni 2017. En geri nú ekki kröfu um að þú munir eftir því. Finnst alltaf pínu fyndið þegar Paul McCartney fer að rifja upp eitthvað sem gerðist árið 1965 af mikilli nákvæmni…
„Já, og þótt ég hafi spilað þar – og segjum að ég hefði gert það í síðustu viku – þá gæti ég ekki rætt um það við þig, þar sem ég er fullkomlega í núinu þegar ég spila á tónleikum. Ég man ekkert eftir því sem var að gerast, þannig lagað.“
– Ég fíla þetta. Týnd í núinu. Þetta er staður sem margir væru til í að komast á.
„Já. Ég veit ekki…“
– Þetta er gjöf en ekki galli!
„Ég vona það!“
– En talandi um tónleika. Nýtur þú þess að spila á tónleikum? [Og við tekur held ég lengsta þögn sem ég hef átt í viðtali.]
„Emm… nýt? Bíddu… sko, ég hlakka alltaf til, aðallega af því að ég veit að þeim lýkur einhvern tíma (hlær). Skilurðu, þetta er svo mikil pressa. Ég nýt þess að færa fram eitthvað sem mér finnst hafa gildi en ég nýt þess ekki að standa fyrir framan hundruð manna. Ég veit það ekki. Ég veit það ekki, ég veit það ekki. En mér er sagt að ég sé góð í þessu.“
– Finnst þér kannski betra að búa til tónlist í hljóðveri?
„Já, ég get sagt fullum fetum að þess nýt ég. Ég er meira á staðnum þar einhvern veginn. Það er meiri stjórn, minni óvissa. Mér finnst gaman að leysa „þrautir“ inni í hljóðverinu.“
Hlutir í undirmeðvitundinni
– Hefur hljóðversvinnan orðið auðveldari með árunum?
„Að sumu leyti, já, en að öðru leyti ekki. Og þetta leitar allt jafnvægis. Mér fannst erfitt að taka upp Party (2017) af því að ég vissi þá ekki hver ég var sem listamaður. En með Warm Chris (2022) þá var ég öruggari. Ég vissi að ég gæti þetta. En ég fylltist efasemdum. Er þetta bara eitthvert grín? Er ég búin að gabba sjálfa mig (hlær)?“
– Og heyrðu. Á meðan ég man. Takk fyrir þessa tónlist! Hún er virkilega vel þegin get ég sagt þér…
„[Hikandi andvarp á hinum endanum, blandað furðu]. Þakka þér!“
– Ég hef verið að hlusta mikið á Robert Wyatt að undanförnu (goðsögn úr enskri popp/rokktónlist, hvers tónlist var í senn falleg og furðuleg, drifin áfram af sósíalískum hugsjónum). Eitt af því sem rann í gegnum tónlist hans var eins konar barnagælubragur, eins og hann væri að nýta sér aldagamlar vögguvísur að einhverju marki. Mér varð hugsað til þín þegar ég var að hlusta. Tengirðu?
„Já, ég þekki tónlist Roberts vel… (langt hik)… Ég skil hvaðan þú ert að koma. Þegar ég er að skrifa og semja hins vegar, þá… (löng þögn)… þá svona dreg ég fram hluti sem ég þekki inn og út. Hluti sem eru grafnir inn í undirmeðvitundina en spretta frekar auðveldlega fram þegar ég sæki í andagiftina. T.d. gamlar vögguvísur, einhverja leiki úr æsku, haftaleysið sem maður upplifði þá. Frelsið til að láta sig dreyma. Kannski var Robert að pæla í svipuðum hlutum, ég veit það ekki. Ég hef aldrei heyrt mín eigin lög (þessi síðasta setning er frábær og laundjúp að mati blaðamanns. Lýsir Harding einkar vel). En ég get ekki neitað því að jú, það er svona barnsleg leikgleði á köflum í tónlistinni minni.“
Blaðamaður tekur sig nú til og reynir að fara á dýptina. Tónlistarfólk eins og Jenny Hval og Perfume Genius, listafólk sem Harding þekkir vel og hefur m.a. unnið með, er oft upptekið af líkamanum í tónlist sinni. Og Harding hefur farið í þá átt líka, m.a. í myndböndum sínum. Ég hendi í hana pælingum um líkamsfræði og líkamsímyndir, af þó nokkrum vanefnum, og við tekur hringl okkar á milli, þar sem hvorugt okkar botnar í hinu. Ég ákveð að rjúfa dagskrá og koma okkur í var.
– Æ, þú afsakar. Ég var bara að reyna að vera gáfulegur…
„Ah, ég skil. Já, það tókst ágætlega hjá þér, a.m.k. á tímabili (hlær).“
Þarna er komin viss ró í viðtalið. Báðir aðilar leyfa sér smá spé og spaug og er það vel.
Hugmynd sem sækir á
– Ég á bara eina spurningu eftir. Trúirðu því?
„Æ, allt í einu finnst mér eins og þetta hafi farið algerlega í vaskinn…“
– Engar áhyggjur! Ég er búinn að fá yfrið nóg af góðu stöffi. Þú ert búin að vera svo heiðarleg. Í alvöru.
„Já (hljóðlátt).“
– Þannig að, næsta plata? Ertu að hugsa um hana? Ertu að semja hana? Hver er staðan?
„Ég er með eina hugmynd. Og ég læt sem ég sjái hana ekki eins og er (hlær). Þessi hugmynd er að toga í pilsið mitt og spyrja mig: „Getum við farið hingað. Eða þangað?“ Og ég er ekki alveg með einbeitinguna til að sinna þessari hugmynd. Ég hef áhyggjur af þessu, viðurkenni ég. Áhyggjur af því að ég eigi eftir að klúðra þessari hugmynd. Innsæið segir mér samt að bíða róleg. Ég er bara ekki alveg tilbúin til að sinna þessu alveg strax. En ég á eftir að gera fleiri plötur, engar áhyggjur þar.“
– Það er gott! Og að lokum, takk innilega fyrir að gefa þér þennan tíma. Og takk fyrir að „vera með mér“.
„Þakka þér fyrir þolinmæðina. Eins og ég sagði, þessi viðtöl eru ekki mitt kjörlendi. Ég vildi óska þess að ég væri betri í þessu. Í alvöru. En ég reyni að bæta upp fyrir það á öðrum sviðum.“
– Ekki biðjast afsökunar. Þú varst þú. Þú varst heiðarleg og opin, ég get ekki farið fram á neitt meira.
„Takk fyrir það.“
– Og hei, sjáumst á tónleikunum. Drekktu meira kaffi. Það er vökvi lífsins.
„Já. Ég er samt búin að drekka nóg í dag held ég. Ég er farin að finna lykt af hestum.“
Tónleikar Aldous Harding fara fram á mánudagskvöldið í Hljómahöll. Miða má nálgast á tix.is.
*****************************
Plötur Aldous Harding
Aldous Harding (2014)
Fyrsta plata Aldous Harding gaf ekki beint til kynna hvað í vændum væri. Ágætlega unnin ný-þjóðlagatónlist en um leið ekki nægilega mikið af glæringum til að stika hana frá öðru svipuðu efni.
Party (2017)
Hér tekur Aldous skrefið í átt að þeirri listakonu sem við þekkjum í dag. Leitandi plata og hrá og það mikið af skringilegheitum og hressilegri nýsköpun að málsmetandi eyru tóku að sperrast upp.
Designer (2019)
Hér er verið að temja „skrímslið“ ef svo mætti segja. Í einhverjum skilningi „poppaðasta“ verk Aldous og sú plata sem vakti á henni ærlega athygli. Heilsteypt og sannfærandi verk.
Warm Chris (2022)
Sönnun þess að Aldous lætur ekki mála sig út í horn og ætlar ekki að endurtaka sig. Skapalón Designer er þarna en um leið er horft í aðrar áttir. Það er hugrekki yfir, merki hinnar sönnu listakonu.
Stikkorðaský
Abba ATP Björk Bob Dylan Bubbi Bára Gísladóttir Bítlarnir Cyber David Bowie Eurovision Evróvisjón Færeyjar Glasgow Grænland Harpa Hildur Guðnadóttir Ian Anderson Iceland Airwaves Jethro Tull Jóhann Jóhannsson jólatónlist Kælan Mikla Misþyrming Morgunblaðið múm Músíktilraunir Nick Cave Nordic Music Prize Norrænu tónlistarverðlaunin Nuuk Nuuk Nordic Culture Festival One Direction post-dreifing President Bongo Reptilicus sigur rós Skotland Skúli Sverrisson Svartþungarokk Söngvakeppnin Söngvakeppni Sjónvarpsins Thick As A Brick tónleikar tónlist ... er tónlist íslenskur plötudómurUmræðan
- Hjörtur Geirsson on Plötudómur: Bubbi – Dansaðu
- PtaXa on Plötudómur: Ingibjörg Turchi – Stropha
- Ilmu Komunikasi on A Faroese Music Diary – Skrapt Festival 2023: #3
- Manajemen on A Faroese Music Diary – Skrapt Festival 2023: #3
- Ilmu Forensik on A Faroese Music Diary – Skrapt Festival 2023: #3
- Biomedis on A Faroese Music Diary – Skrapt Festival 2023: #3
- Informatika on A Faroese Music Diary – Skrapt Festival 2023: #3
- SO on Plötudómur: Bubbi – Ljós og skuggar
- Irgi Zanuar on Viðtal: Egill Ólafsson
- Sains Data on Uppgjör: Nuuk Nordic Culture Festival 2019
Safn
- January 2025
- December 2024
- November 2024
- October 2024
- September 2024
- August 2024
- July 2024
- June 2024
- May 2024
- April 2024
- March 2024
- February 2024
- January 2024
- December 2023
- November 2023
- October 2023
- September 2023
- August 2023
- July 2023
- June 2023
- May 2023
- April 2023
- March 2023
- February 2023
- January 2023
- December 2022
- November 2022
- October 2022
- September 2022
- August 2022
- July 2022
- June 2022
- May 2022
- April 2022
- March 2022
- February 2022
- January 2022
- December 2021
- November 2021
- October 2021
- September 2021
- August 2021
- July 2021
- June 2021
- May 2021
- April 2021
- March 2021
- February 2021
- January 2021
- December 2020
- November 2020
- October 2020
- September 2020
- August 2020
- July 2020
- June 2020
- May 2020
- April 2020
- March 2020
- February 2020
- January 2020
- December 2019
- November 2019
- October 2019
- September 2019
- August 2019
- July 2019
- June 2019
- May 2019
- April 2019
- March 2019
- February 2019
- January 2019
- December 2018
- November 2018
- October 2018
- September 2018
- August 2018
- July 2018
- June 2018
- May 2018
- April 2018
- March 2018
- February 2018
- January 2018
- December 2017
- November 2017
- October 2017
- September 2017
- August 2017
- July 2017
- June 2017
- May 2017
- April 2017
- March 2017
- January 2017
- December 2016
- November 2016
- October 2016
- September 2016
- August 2016
- July 2016
- June 2016
- May 2016
- April 2016
- March 2016
- February 2016
- January 2016
- December 2015
- November 2015
- October 2015
- September 2015
- August 2015
- July 2015
- June 2015
- May 2015
- April 2015
- March 2015
- February 2015
- January 2015
- December 2014
- November 2014
- October 2014
- September 2014
- August 2014
- July 2014
- June 2014
- May 2014
- April 2014
- March 2014
- February 2014
- January 2014
- December 2013
- November 2013
- October 2013
- September 2013
- August 2013
- July 2013
- June 2013
- May 2013
- April 2013
- March 2013
- February 2013
- January 2013
- December 2012
- November 2012
- October 2012
- September 2012
- August 2012
- July 2012
- June 2012
- May 2012