Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 6. ágúst, 2022.

Allt fram streymir…

Verk Sigurðar Guðjónssonar, Perpetual Motion, sem var framlag Íslands á Feneyjatvíæringnum, er marglaga. Tónlistarþáttur þess kom út fyrir stuttu sérstaklega, á forláta kassettu, en hann unnu þeir Sigurður og Valgeir Sigurðsson saman.

Ég var ekki í Feneyjum þetta árið og hef ekki séð verkið „Perpetual Motion“. Í rauntíma þ.e. Ég hef hins vegar séð það á ljósmyndum og í stuttum myndklippum á samfélagsmiðlum. Ég er enda ekki að fara að tala heildstætt um verkið sem slíkt, mun rýna í hljóð/tónlistarþátt þess sem er nú til frístandandi, líkt og tónlist við kvikmyndir sem gefin er sérstaklega út. Myndklippurnar gefa mér hins vegar hugmynd um hvernig verkið virkar. Inni í rými/herbergi standa tveir samtengdir risaplattar, annar liggur eftir á gólfinu og hinn nær upp í loft (mynda nokkurs konar L). Svo er eins og það renni einhvers konar stálfljót á þeim, hægt og taktvisst. Það er eins og niðurbræddar, tvístraðar stálflögur veltist þarna um. Dökk lýsingin og stállegið rýmið styður vel við þetta – og þá sérstaklega tón/hljóðlistin sem ég mun nú gera að sérstöku umtalsefni.

Það er Bedroom Community, útgáfan sem Valgeir Sigurðsson rekur ásamt fleirum, sem gefur út (vörunúmerið er HVALREKI28). Verkið má nálgast á Bandcamp sem niðurhal en einnig sem kassettu sem kemur út í takmörkuðu upplagi. Mikill glæsigripur og þess vandlega gætt að hann endurspegli meginverkið. Hönnunin er þannig að umslagið opnast líkt og um örútgáfu af verkinu í Feneyjum væri að ræða. Glæsilegt. Hljómsnældan sjálf gyllt og dásamlegur krómbragur yfir öllum pakkanum.

Tónlistin er samin af Sigurði og Valgeiri en Valgeir sá um hljóðblöndun og hljómjöfnun. Um 45 mínútna langt verk er að ræða, önnur hliðin ber rúmar 24 mínútur en hin rúmar 21. Umslagið er eftir Sigurð og setjarar, upp á letur að gera, eru þau Arnar Freyr Guðmundsson og Birna Geirfinnsdóttir.

Ég hef viljandi talað bæði um tón- og hljóðlist í þessum pistli enda hangir hljóðmynd verksins einhvers staðar þarna á milli. Það er vel hægt að kalla þetta „ambient“-tónlist en merkimiðinn „industrial“ á jafn vel við. Þessi tónlist er köld og kraumandi og á köflum gætir þú haldið að þú stæðir inni í vélasal, hlustandi á einhvern nið úr næsta herbergi. En þetta er líka mjúkt einhvern veginn. Þetta er alltént áhrifaríkt og passar fullkomlega við alla framvindu verksins. Get ég a.m.k. ímyndað mér!

Ég get um leið, þekkjandi tónlistarlegan bakgrunn Sigurðar giska vel, ekki annað en sett þetta verk í það samhengi. Sigurður lék um hríð í dauðarokksbandinu Cranium, einnig í industrial-rokksveitinni 2001 og þá gáfu hann og bróðir hans og nafni minn Arnar út plötuna Leðurstræti snemma á fyrsta áratug þessarar aldar. Öll þessi tónlist er bundin inn í nokkurs konar tíunda áratugs níhilisma og rökkur og það má vel greina þessa tauma í „Perpetual Motion“. Þar er þetta vissulega tamdara, framsetningin sterk og voldug, en hráleiki þess sem ég hef nefnt gárar samt undir. Cranium er í raun skýrasta tengingin. Þessi hljómsveit, hvar Sigurður lék á gítar, var ofsafengnasta dauðarokkssveit Íslands. Meðlimir táningar að aldri en orkan og sköpunin var með ólíkindum. Tónlistin var hvöss og yfirþyrmandi, „ill“ og miskunnarlaus. Köld, krómuð og afdráttarlaus. Ekki ólíkt tónlistinni sem hér er að finna. Á einhvern hátt er Sigurður því kominn heilhring eða öllu heldur, kjarni þess sem var þá er hér líka, þó að útfærslur séu vissulega aðrar.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: