Image may contain: 2 people, people sitting and indoor

Ljósmynd/Freyja Gylfadóttir fyrir Heima

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 14. apríl, 2018

 

Nú er heima!

 

Tónlistarhátíðin Heima fór fram í ýmsum heimahúsum í Hafnarfirði nú á miðvikudaginn, síðasta vetrardag. Pistilritari rölti um götu bæjarins og þáði góðgjörðir úr höndum tónlistargyðjunnar.

Tónlistarhátíðin Heima eða HEIMA fór nú fram í fimmta sinn í Hafnarfirðinum. Hátíðin er haldin að færeyskri fyrirmynd og gengur út á að tónleikar eru haldnir í heimahúsum. Þrettán listamenn og hljómsveitir af alls kyns toga komu fram á jafn mörgum heimilum tvisvar um kvöldið og eins og nærri má geta var nándin mikil. Gestgjafar buðu gjarnan upp á léttar veitingar og þar sem maður gæddi sér á saltstöng í stofunni stóð Króli í 20 sentimetra fjarlægð frá mér á meðan húsbóndi og -freyja sátu uppi í sófa með barnaskaranum og kunnugir sem ókunnugir röðuðu sér víðs vegar um heimilið; ýmist skrafandi, hlustandi eða hlæjandi. Fríkirkjan í Hafnarfirði og Bæjarbíó luku einnig upp dyrum sínum. Rás 2 var þá á staðnum og útvarpaði hluta dagskrárinnar.

Ég renndi í hlaðið hjá þeim Gunnþóru og Michael á Vesturgötunni um áttaleytið þar sem Between Mountains, sigurvegarar Músíktilrauna frá því í fyrra, léku í stofunni. Stemningin var u.þ.b. eins og ég lýsti hér að framan, með eindæmum hugguleg og hlýleg og ég fann að þessi hátíð – og þetta form – hefur eitthvað alveg sérstakt við sig. Segi það og skrifa að Between Mountains er einkar efnileg sveit, nýju lagasmíðarnar þeirra sýna mikil og örugg þroskaskref og árangur innan seilingar, sé rétt haldið á spöðum. Ég rölti því næst til Hebu og Ægis á Austurgötunni hvar Dr. Spock léku fyrir troðfullu húsi. Ég rétt sá glitta í gula hanskann og nokkuð steikta og vel Spock-lega útgáfu af „Strawberry Fields Forever“. Þvínæst var það Hverfisgatan þar sem meistari Valgeir Guðjónsson lék við hvurn sinn fingur. Valgeir er sjarmerandi mjög, þegar hann brosir þá brosir hann allur og fólk hrífst auðveldlega með í glettninni. Goðsögn, ekkert minna. Þessi rúntur Reykvíkingsins um miðbæ Hafnarfjarðar, á hlýju síðvetrarkvöldi (smá úði þó) var mikill bónus. Gaman að virða fyrir sér hús og götur, nett færeysk stemning í húsasundunum, nema ég hafi bara haft eyjarnar fögru og tengingu þeirra við hátíðina ögn of hugfasta. Kæri Hafnfirðingur, auðvitað á bærinn þinn engan sinn líka í veröldinni, höfum það alveg á hreinu!

Ég fann mig svo aftur hjá þeim Gunnþóru og Michael þar sem Jói P og Króli voru að spila (og önnur goðsögn, Bjartmar, í næsta húsi!). Eitt af því sem „gerir“ þetta knáa tvíeyki er hversu ólíkir þeir eru. Króli á útopnu, masandi af einlægni jafnt sem ástríðu á meðan það dettur hvorki né drýpur af Jóa P. Hann er á hinum endanum á sjarmanum, svellkaldur og svalur, fimmti Kraftwerk-meðlimurinn.

Að lokum þetta: Ég hef aldrei náð að taka þessa hátíð almennilega út, grunaði að þetta væri snilld en stemningin öll kom mér í opna skjöldu verð ég að viðurkenna. Þetta með að opna hús sín fyrir ókunnugum bjó til mjög heilnæma og „mennska“ stemningu sem var gefandi. Þetta var innilegt, fallegt og tært, ég veit að ég er kominn í hæstu tilfinningahæðir en svona var þetta bara. Ég fór sæll og sáttur í rúmið. Glaður. Til mikillar fyrirmyndar.

 

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: