[Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 26. maí]

Í fullum blóma

• Gæðasveitin Beach House gefur út plötuna Bloom
• Legrand og Scally á bólakafi í draumheimum sem fyrr

„Við gætum þess að láta ekkert trufla okkur. Það er ákveðinn rytmi í gangi og við göngumst bæði upp í miklum önnum, erum t.d. í mikilli vinnulotu núna við það að semja. Við viljum ekki fara fram úr okkur heldur og erum ekki að hugsa þetta um of. Við erum bara augnablik í eilífðinni.“ Þessi draumkenndu orð eru úr munni Victoriu Legrand, söngkonu Beach House, en þau féllu er greinarhöfundur ræddi við hana á síðasta ári. Tilefnið var viðtal fyrir Morgunblaðið vegna væntanlegra tónleika dúettsins á Airwaves. Legrand myndar einn helming hans en hinn helmingurinn er Alex nokkur Scally. Orð Legrand eru sem í fullkomnum samhljómi við tónlist sveitarinnar, eins og þau fljóti um í draumsenu – sem sýnd er hægt. Þau Scally og Legrand hafa enda yfir sér ókennilega áru, eru þetta systkin? Elskendur? En þau eru hvorugt, eru músíkalskt par sem á að eigin sögn í mjög svo telepatísku sambandi er kemur að því að semja tónlist. Fjórða plata þeirra, Bloom, kom út í þarsíðustu viku og pressan á plötuna allnokkur en sú er kom þar á undan, Teen Dream, var valin plata ársins 2010 af mörgum miðlinum. Meðal annars hafnaði hún í þriðja sæti í vali Morgunblaðsins á erlendri plötu ársins og sagði í umsögn: „Hljóðheimur Beach House er algerlega einstakur; Það er sorg og myrkur þarna en um leið óræð fegurð, birta og von.“

Huggandi

Hér hefur mikið verið talað um drauma og tónlist Beach House er m.a. skilgreind sem „dream pop“. Ekki að furða því að þannig nákvæmlega eru hughrifin þegar á er hlýtt. Lögin streyma áfram línulega, minna hvert á annað og platan nýja, líkt og sú síðasta, er heildarupplifun fremur en að um sé að ræða safn af mismunandi samsettum lögum. Þá er maður aldrei almennilega viss um hvort þeirra sé að syngja, raddirnar eru nánast tvíkynja og maður er ekki viss hvort um sé að ræða háa karlmannsrödd eða lága kvenmannsrödd. Hljóðgervlabundnar smíðarnar, sem eru í senn melankólískar og huggandi, minna þá á sveitir sem gerðu út frá 4AD-merkinu breska á níunda áratugnum en það var mikið kjörlendi fyrir dularfullar og dreymnar tónsmíðar. Cocteau Twins koma óneitanlega upp í hugann og jafnvel Dead Can Dance, án miðaldatilvísananna og heimstónlistarinnar. Báðar þessar sveitir voru líka að stofni til skipuð pari, karli og konu.

Spenna

Bloom var tekin upp í Texas og sá upptökustjórnandinn Chris Coady (Yeah Yeah Yeahs, Grizzly Bear, Blonde Redhead) um að snúa tökkum líkt og á síðustu plötu. Upptökur tóku sjö vikur og gerir Victoria LeGrand tilraun til að lýsa plötunni eða öllu heldur titli hennar í nýlegu viðtali við Village Voice. Titillinn, Bloom, sé að mörgu leyti lykilinn að henni.
„Við vorum að leita að orði eða orðum sem myndu lýsa því sem við erum að reyna að koma á framfæri,“ segir hún. „Bloom var orðið. Það var byggt á tilfinningu…trú á þetta orð. Ég tengi það við eitthvað órætt, að það hafi ekkert inntak einhvern veginn…ég veit ekki…það er ákveðin spenna bundin í þessa plötu og þetta orð, „bloom“ er tilraun til að fanga þá hugmynd.“ Eins og sjá má er allt í samræmi hjá Beach House, veri það í tónlistinni eða tilraunum þeirra sem búa hana til í að lýsa henni. Órætt og draumkennt svo sannarlega.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: