dangelo

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 27. desember, 2014

Fögnuð megnan færi ég…

• D‘Angelo snýr aftur eftir tólf ára hlé
• „Svartur Messías“ með tímamótaverk?

Plötur eiga það til að koma út óvænt um þessar mundir, viljandi sem óviljandi. Þessi tíska hefur fært okkur eitt stykki U2 plötu, sem var aukinheldur – í einhverjum tilfellum – óvelkomin og nú plötu Madonnu, eða prufuupptökur af henni, en Madonna segir að um leka sé að ræða og er trítilóð. Mig grunar þó að hún viti lengra en nef hennar nær, kynningarmeistarinn sem hún er. Ný plata D‘Angelo ber þó ekkert af þessu með sér. Ekki nóg með að henni hafi verið slengt út í fullu samráði við listamanninn heldur hefur henni auk þess verið tekið fagnandi af lærðum sem leikum.

Bið og bið

D‘Angelo? Hver er það? kann einhver að spyrja. Rifjum það upp og setjum merkilegheit útgáfunnar í samhengi. Það var árið 2000, eftir útkomu Voodoo, sem rætt var um D‘Angelo sem helstu vonarstjörnu framsækinnar r og b tónlistar. Síð-sálartónlist hans var hrífandi, þar sem gildi og fagurfræði klassískrar tónlistar af því taginu var splæst saman við hipp hopp og aðrar samtímahræringar í dægurtónlistarmenningu blökkumanna. Hann stóð nú jafnfætis Erykuh Badu, Lauryn Hill og viðlíka listamönnum hvað virðingu og vinsældir varðaði. Um aðra plötu hans var að ræða og fólk hafði beðið í ofvæni en frumburðurinn, hin stórgóða Brown Sugar, hafði komið út fimm árum fyrr, sem er augnablik ef miðað er við þessa seinni bið.
Og þá hófst önnur bið. Biðin ofurlanga. Okkar maður gestaði stundum hjá öðrum á þessari eyðimerkurgöngu meðfram því að glíma við áfengissýki, efaðist um eigið ágæti sem listamanns og hann hryllti við þeim kyntáknskröfum sem á hann voru settar. Nýja platan var auðvitað alltaf „alveg að koma“ og hvíslað var um plötuna James River árið 2009. Það var 15. desember síðastliðinn sem platan Black Messiah kom svo út, fullbúin, og nánast með engum fyrirvara. Vissulega var á margra vitorði að eitthvað væri í pípunum en forsagan gaf ekki tilefni til bjartsýni. Það voru hins vegar samfélagslegar þreifingar, pólitík, sem ýttu gripnum úr vör. Mótmælin í Ferguson, þar sem unglingspilturinn Michael Brown var skotinn til bana af lögreglunni, hreyfðu það hressilega við D‘Angelo að síðustu vikurnar lagði hann dag og nótt við það að koma plötunni út sem allra fyrst.

„Meistaraverk“

Viðbrögðin hafa verið með ólíkindum og orðinu „meistaraverk“ flaggað í gríð og erg af gagnrýnendum. Questlove, trymbillinn knái og einn af helstu samstarfsmönnum D‘Angelo, fer fögrum orðum um þennan vin sinn sem býr yfir þessum vel þekktu eiginleikum hinna sönnu listamanna. Meðfram styrk og framsýni fer sami skammtur af viðkvæmni og tilhneigingu til sjálfstortímingar, eins og hefur sýnt sig. Og það er sannarlega ekki verið að fara auðveldu leiðina, platan er „þung“, lykluð og torræð, maður heyrir áhrif frá Prince og Erykhu Badu og hljóðmottan er sýrulegin, eins og hún kraumi bókstaflega. Minnst hefur verið á sígild verk eins og There‘s A Riot Goin‘ On og What‘s Going On í þessu samhengi og alls ekki að ástæðulausu. D‘Angelo vinnur mjög markvisst með arfinn, líkt og síðsálartónlistarmanna er siður en um leið – og það er tilgangurinn sem helgar meðalið – er verið að horfa fram á við.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: