Meg Baird's new album, Don't Weigh Down The Light, comes out June 23.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 15. ágúst, 2015

Þokutónlist

• Meg Baird gefur út þriðju sólóplötu sína
• Tímalaus þjóðlagatónlist

Meg Baird er líkast til sæmilega óþekkt nafn í eyrum dægurtónlistarunnenda en hljómsveitin Espers hringir mögulega einhverjum bjöllum, hvar hún er meðlimur. Sú sveit hefur verið með fremstu ný-þjóðlagasveitum, á uppruna sinn í Philadelphiu en hefur reyndar verið á ís í sex ár. Síðasta plata hennar, III (2009), var sérdeilis góð, „hlýjar og fallegar raddanir sitja þægilega með hárnákvæmum skammti af framsækni og tilraunamennsku,“ eins og ég sagði víst í dómi á sínum tíma og andi sígildra sveita eins og Fairport Convention, Incredible String Band o.fl. sveif þar fagurlega yfir vötnum (og jafnvel skógarrjóðri líka).

Samhliða

Meg Baird hefur keyrt sólóferil samhliða störfum í Espers en fyrsta platan kom út 2007. Mektarfyrirtækið Drag City, sem trónir nokkuð hátt yfir neðanjarðarheimum, gaf út og segir okkur sitthvað um rætur og tengsl Baird og félaga. Tónlist Espers er stundum kölluð nýbylgju-þjóðlagatónlist („indie-folk“) enda var senan sem umlukti þau skipuð fólki sem var að hlusta jöfnum höndum á Sonic Youth og Pentangle. Sem sólólistamaður hefur Baird hins vegar sniðið nýbylgjupartinn nokkuð ríflega af, tónlistin er meira og minna hrein þjóðlagatónlist, á köflum eins og henni hafi verið skotið hingað frá árinu 1972 með tímavél.
Baird hefur jafnt og þétt verið að finna blómum skreyttum fótum sínum forráð á plötum sínum. Sú nýjasta, Don’t Weigh Down the Light, var tekin upp eftir að Baird fluttist þvert yfir Bandaríkin, frá Philadelphiu til San Francisco, borg sem hæfir sköpun hennar einkar vel. Nýjasta platan er hiklaust öruggasta verk hennar til þessa, hún leikur á fleiri hljóðfæri, öll lögin eru frumsamin og tónmálið er algerlega hennar. Ræturnar þó kirfilega í nefndri þjóðlagatónlist, þó að úrvinnslan sé persónuleg, og heyra má í Judee Sill, Trees og Mellow Candle (þið verðið að tékka á einu plötu síðastnefndu hljómsveitarinnar. Flettið henni upp!).

Járn í eldi

Eins og sjá má er þjóðlagatónlist af öllum gerðum og frá öllum tímum miðlæg í list Baird og hún rekur m.a. ættir til Isaac Garfield Greer, sagnfræðings og appalasíu-tónlistarmanns frá þarsíðustu öld en hann hafði nokkur áhrif á hina ungu Baird er hún lá yfir safnplötum Smithsonian-safnsins. Baird er með ansi mörg járn í eldinum og hefur verið dugleg við að ljá öðrum tónlistarmönnum krafta sína, meisturum eins og Bonnie Prince Billy, Kurt Vile og Sharon Van Etten. Hún og systir hennar hafa þá gefið út efni sem The Baird Sisters en innblásturinn þar kemur frá fyrri tíma Appalísutónlist. Baird er ein af þeim sem er eitthvað svo dásamlega handan við þann tíma sem hún lifir og hrærist í, líkt og mistök hafi verið gerð á skrifstofu almættisins er fæðing hennar var ákveðin. Eða eins og Sandy Denny, andans systir hennar söng: „Who knows where the time goes?“

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: