Saumur ©KAROLINA_THORARENSEN_BW_IMG_2316Ljósmynd/Karólína Thorarensen

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 18. júní, 2016

Í Saumi sérhvers manns…


Saumur er plata eftir þá Arve Henriksen (Trompet, söngur, rafhljóð), Hilmar Jensson (gítar) og Skúla Sverrisson (bassi). Birgir Jón Birgisson tók plötuna upp í Sundlauginni, Finnur Hákonarson hljómjafnaði og Skúli sá um eftirvinnslu og hljóðblöndun.

Skúli Sverrisson og Hilmar Jensson eru á meðal okkar mikilhæfustu tónlistarmanna er kemur að allra handa tilraunamennsku, þegar reyna skal á þanþol formsins og hætta sér út á ókunnar lendur standa þeir jafnan keikir í stafni. Þessu hafa þeir sinnt af elju um áratugaskeið, hérlendis og ekki hvað síst erlendis. Ég hef ekki pláss til að rifja upp afrek þessara meistara hér en þau eru mörg og merkileg, Skúli og Hilmar eru heimsklassalistamenn sem njóta bæði virðingar og vinsælda á alþjóðavísu. Skúli hefur hin síðustu ár einnig séð um listræna stjórnun á hinum frábæra stað Mengi sem hefur verið gott skjól og gróðurhús fyrir íslenska grasrót og tilraunamennsku. Mengi stendur að baki þessari plötu, sem inniheldur átta lög, hvers titlar eru byggðir á ljóðinu Saumur eftir Ólöfu Arnalds. Með þeim félögum er hinn norski Arve Henriksen sem á að baki alveg jafn tilkomumikinn feril og íslenskir félagar hans.

Þetta er falleg plata, ekki bara útlitslega (hönnuður er Sara Riel) heldur og innihaldslega. Tónlistarsköpun þessara aðila hefur verið býsna yfirgripsmikil og fjölbreytileg í gegnum tíðina, frá örgustu óhljóðalist yfir í tindrandi, varfærna fegurð og á þessari plötu erum við, meira og minna, í síðastnefndu deildinni. Platan hefst á „Kom“ sem ber með sér helgan himnablæ og tónn gervallrar plötunnar er sleginn. Ljós og skuggar togast á, undir engilblíðum falsettusöng Arve krauma áhrifshljóð sem eru í senn áleitin og aðlaðandi. Trompetinn rís af krafti undir rest, studdur hringlandi gítar og þessum einkennandi bassahljóm Skúla þar sem vissri hljóðbjögun er beitt til að framkalla höfugt, dáleiðandi flæði. Þeir sem hafa hlustað á Seríuplötur Skúla vita hvað ég á við.

Þriðja lagið, „Undan“, hefst á þessum hljómi og maður þarf ekki nema nokkur sekúndubrot til að heyra hver stendur á bakvið hann. Yfir „syngur“ svo trompet Arve, hljómurinn er fallegur, angurvær og nánast viðkvæmnislegur. Þessi helgi sem maður fann fyrir í upphafslaginu er þarna yfir um og allt í kring. Mér varð hugsað til titillags fyrstu sólóplötu David Sylvian, Brilliant Trees, er ég hlustaði og kannski ekki að undra, Arve hefur unnið með þeim meistara.

Þetta fagurfléttaða flæði er þó ekki samfellt, „Forkun“ er skuggalegri, svartari smíð, „Mín“ er líka knosaðra verk, hefst á snilldarlegu gítarplokki sem leiðir lagið, blásturinn er hvass og áhrifshljóðin sömuleiðis. Í „Opna“ stígum við inn í djúpan dal; tónlistin er surgandi hrátt „ambient“-flæði; ógurlegt og fallegt í senn. Eins og maður standi á brimbörðum kletti og horfi rólegur yfir úfið haf (þið afsakið náttúrulýsinguna en, svona er þetta bara!). „Blíða“ ber hins vegar nafn með rentu, hæglátari smíð sem leiðir okkur í endastefið, „Náð“, sem kallast á við upphafið. Sama helgi er yfir, söngurinn er á sínum stað, og verkið er leitt til lykta með reisn.

Eins og sjá má er lítið hægt að setja út á þetta verk, það stendur glæsilega og er höfundum til sóma. Mér skilst að þetta samstarf hafi verið afar lengi í bígerð og ég samfagna því mönnum að loks hafi þeir náð landi. Vonandi að þeir tjaldi ekki til einnar nætur, úr því að þeir eru loks komnir.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: