Haf trú Blóðmör er í dag skipuð Árna Jökli Guðbjartssyni, Hauki Þór Valdimarssyni og Viktori Árna Veigarssyni. — Ljósmynd/Óttar „Spaði Proppé.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 19. júní, 2021.

Heitt, sveitt og feitt

Rokksveitin Blóðmör sigraði í Músíktilraunum með glæsibrag fyrir réttum tveimur árum. Fyrsta breiðskífa sveitarinnar, Í skjóli syndanna, kom út fyrir stuttu.

Ég man það eins og það hafi gerst í gær er ég sá myndina af Blóðmör sem fylgdi með kynningargrein um Músíktilraunir 2019. Kornungir rokkþyrstir piltar, allir eins í útliti, standandi ábúðarfullir fyrir framan skip í slippnum. Til í þetta. Tveir þeirra í lopapeysum, í takt við nafnið, og þetta var svo afskaplega íslenskt og skemmtilegt eitthvað. Sjarminn sem maður greindi þarna skilaði sér enda upp á svið og inn í tónlistina og þeir unnu Tilraunirnar örugglega.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan, tvívegis hafa orðið mannabreytingar á bandinu en sveitin hefur haldið sér virkri þrátt fyrir heimsfaraldur. Og nú er komin út bústin breiðskífa sem verður að teljast laglegur árangur. En áður en ég legg í úttekt á tónlistinni sem slíkri langar mig til að lýsa aðkomunni að gerð plötunnar, mannskapnum þar og ekki síst pakkningunni en auk streymisveitna og slíks kemur platan út á forláta vínyl.

Haukur Þór Valdimarsson, söngvari og gítarleikari, semur lög og texta Blóðmörs en hann er auk þess vínyláhugamaður og þar erum við félagarnir andans bræður. Vínyllinn ber þessa merki þar sem hugað er að hverju smáatriði. Hann kemur út í tveimur litum, gylltum og bláum og báðir með hvirfiláferð („swirl“) hvar svartir taumar liggja á aðallitnum. Plöturnar eru 180 grömm og plötumiðarnir sjálfir af ólíku tagi sem sýnir metnað. Umslagið er opnanlegt („gatefold“), veggspjald fylgir, „nærbuxurnar“ eru plastfóðraðar (mjög mikilvægt sagði Haukur mér og þar er ég honum sammála) og innri liturinn í umslaginu er svartur sem sýnir kannski best nákvæmnina sem Haukur lagðist í. Plötunni fylgir þá lúmsk hylling á eldri tímum í vínylútgáfum, t.d. er límmiði framan á þar sem segir: „Fyrsta breiðskífa hljómsveitarinnar loksins komin út. Hress, hugljúf og frábær skemmtun fyrir alla fjölskylduna, unga sem aldna.“

Það er Reykjavík Record Shop sem gefur út og um upptökustjórn sáu Birgir Jón Birgisson og nafni minn Guðjónsson sem auk þess hljóðblandaði. Friðfinnur Oculus hljómjafnaði. Umslagsmyndin glæsta er eftir Skaðvald og þess ber að geta að Matthías Stefánsson bassaleikari var þarna enn meðlimur og lék inn á plötuna (og söng).

Tónlistin? spyrðu. Þetta er skemmtilegt, ungæðislegt og spriklandi rokk og ról. Og alveg afskaplega íslenskt, eitthvað sem gefur henni heillandi brag. Það er hægt að draga línu frá þessu bandi í gegnum Botnleðju, Ham, Helga og hljóðfæraleikarana, Spilverkið og alla leið til Hauks Morthens. Ólík dæmi, ég veit, og hægt að tiltaka fleiri, en ekkert af þessu hefði getað gert út frá öðru svæði en Íslandi og eins er með Blóðmör.

Tónlistin er melódískt, þungarokksskotið pönkrokk og vísað t.d. í Ham og Botnleðju. Ég hugsa líka um Búdrýgindi (sigurvegarar Músíktilrauna 2002) því að ungmennaandinn svífur hér hressilega yfir vötnum. Haukur er skemmtilegur textasmiður, hefur greinilega yndi af gömlum og gegnum orðum og finnur þeim stað í grallaralegum textunum.

En þetta er síst eintóna. Fyrsta lagið, „Nýtt líf“, er einskonar yfirlýsing, lag sem hljómsveit semur eftir tvö ár af volki. Nokk flókin uppbygging, hugvitssamleg riff og vandaður texti sem talar inn í þroska og reynslu, eitthvað sem er svo undirstrikað með sjálfri lagasmíðinni. „Hátíðarhöld“ er dásamlegt, maður finnur nánast lykt af réttarstemningu og/eða unglingafylleríi í Þórsmörk. Það er íslenskur kjarni þarna, ósvikinn. En svo, í „Tíminn“, er hent í smá þjóðlagastemmu í upphafi. Blíður söngur og kassagítarstrokur.

Það er í góðu lagi með ungmennin, þið þarna úti. Þau hafa reyndar aldrei verið jafn skemmtileg, skapandi og með sitt jafn mikið á hreinu þó þau neyðist til að skáka í skjóli vorra synda.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: