Tvístígandi Hallgrímur Oddsson gefur ýmislegt í skyn og beitir skemmtilegum orðaleikjum.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 20. apríl, 2019.

Í biðröð undir sæng

Einyrkinn og söngvaskáldið Hallgrímur Oddsson fylgir hinni sjö ára gömlu Einfaldlega flókið eftir með nýrri skífu, Aldrei það villtur að ég rati ekki í vandræði.

Fyrir sjö árum , er ég keyrði vefþættina Tónlistarstund á mbl.is í góðu samstarfi við Sighvat Ómar Kristinsson, tók ég nýútkomnar plötur til kostanna. Hundruð platna renna í gegnum fingur mína ár hvert en þessi var eftirminnileg. Kerskin, undarleg – á einhvern hátt venjuleg en samt óvenjuleg. Platan var eftir Hallgrím nokkurn Oddsson, mann sem ég þekkti ekkert, en plötur af svipuðum toga voru ekki óalgengar. Skúffuskáld, hæfileikamenn (stundum) í tónlist en ekki með tónlistina að aðalstarfi. Og svo kemur að því að lagt er í að taka upp, gefa út, og er niðurstaðan stundum frábær, stundum hrikaleg, oftast einhvers staðar á milli. Það tók Hallgrím sautján ár að koma þessari fyrstu plötu sinni út, þannig að í samanburðinum kom þessi með hraðpósti.

Ég staldraði við Einfaldlega flókið á sínum tíma af einfaldri ástæðu. Þarna var eitthvert „x“. Eitthvað sem fékk eyrun til að sperrast upp. Það var erfitt að setja hendur nákvæmlega á hvað það var. Ég reit svo á sínum tíma: „ Á yfirborðinu virðist þetta fremur hefðbundin dægurtónlist. Þriggja gripa popprokk með alþýðublæ, djassskotin á köflum … [en hvað sker hana frá] … Það gæti legið í textunum, skemmtilega ort uppgjöf við tiktúrur kvenþjóðarinnar (og sjálfs sín. Veraldarinnar?). Það gæti legið í sérkennilegum söngnum og það gæti legið í því að lögin fara sínar leiðir þegar þeim hentar – óforvarandis.“

Eins og á fyrri plötunni er Halldór Gunnar Pálsson gítarleikari Hallgrími til halds og trausts við útfærslu hugmynda og honum til fulltingis eru Valdimar Olgeirsson á kontrabassa, Magnús Örn Magnússon (trommur/slagverk) og Leifur Jónsson (píanó). Upptökur fóru fram í Sundlauginni hjá Birgi Jóni Birgissyni að utanskildu píanóinu sem tekið var upp í Paradís hjá Ásmundi Jóhannsyni. Gítarskreytingum var og bætt við í vinnuaðstöðu Halldórs Gunnars. Eftirvinnsla var í höndum Birgis Jóns hljóðblandara og Finns Hákonarsonar sem hljóðjafnaði. Samkvæmt upplýsingum er plötunni ætlað „að segja frá degi í lífi manns frá því hann vaknar uns hann sofnar aftur en fyrsta lagið og síðasta eiga að vera for- og eftirmáli um mannskepnuna í víðari skilningi“.

Hallgrímur hefur gaman af því að tefla saman andstæðum í textum, plötutitlar hans báðir bera þessa merki og í fréttatilkynningu segir hann að „ef illa færi fyrir dómi reyndi ég að opna fyrir annan skilning (til vara) og misskilnings (til þrautavara).“

Skemmst frá að segja, þarf Hallgrímur ekki að hafa áhyggjur, þó hann taki vissulega áhættu – eins og allir listamenn – þegar hann ber verk sín á borð fyrir almenning. En hvar hefði mátt berja í bresti og hvar stirnir á hjá þessum áhugaplötuútgáfumanni eins og hann lýsir sér? Bresti sé ég trauðla. Líkt og á fyrra verki er tónlistin djassskotin og nokk þægileg alþýðutónlist. Melódísk, já svei mér þá. Um leið er þetta, eins og áður segir, eitthvað svo undurfurðulegt. En í algerlega réttum skammti. Söngrödd Hallgríms gerir mikið hvað þetta varðar. Hún er nánast klemmd, blíð þó en ekkert sérstaklega sterk. Hallgrímur notar hana vel, textar eru orðmargir og segja margt og hann er ástríðufullur og túlkandi. Það er næstum því kabarettbragur yfir. Hann fer á stundum á hlemmiskeið, sjá hið víraða „Stefnuljós“, þar sem hann fer úr Diabolus in Musica stemmum yfir í hálfgert dauðarokk – á tuttugu sekúndna bili. Í „Aldrei ein“ orgar hann, í tilfinningaþrungnu ákalli. Og svo má telja. Óvæntir sprettir í unnvörpum og aldrei leiddist mér. Og þá er heldur betur til einhvers unnið.


Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: