Image result for adapter bhatti

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 26. maí, 2018

 

Hrynhitinn aðlagaður

Íslensk-þýska hljómsveitin Ensemble Adapter, sem einbeitir sér að sköpun og túlkun nútímatónlistar, leikur undir á nýrri plötu hins þýsk-indverska Ketan Bhatti.

Ég kynntist Gunnhildi Einarsdóttur hörpuleikara er ég bjó í Berlín fyrir réttum 12 árum. Bjó í íbúð hennar á meðan við fjölskyldan komum okkur fyrir í borginni og höfum við verið í sambandi síðan. M.a. hef ég fylgst með henni og starfi hennar fyrir Ensemble Adapter, hljómsveit sem hún og maður hennar, Matthias Engler (slagverk), höfðu stofnað tveimur árum fyrr. Adapter starfar enn, ásamt þeim hjónum skipa þau Kristjana Helgadóttir (flauta) og Ingólfur Vilhjálmsson (klarínett) hópinn. Máttur og megin Adapter liggur í nútímatónlist, nýrri sköpun og því að þenja út það sem mögulegt er – krossa yfir mörk og mæri. Eins og nafnið gefur til kynna. „Með því að samþætta ólíka listmiðla með tónlistinni er hægt að lyfta þeim öllum upp, ég trúi því t.a.m. ekki að þessir hlutir séu að skyggja hver á annan,“ sagði Matthías við blaðamann þegar Adapter var tveggja ára gamall. „En til þess að þetta virki þurfa þessir ólíku listamenn að samþætta sig og vinna í sameiningu að heildarútkomu sem skilur eitthvað eftir sig.“ Þessum kúrs hefur verið haldið glæsilega allar götur síðan.

Í síðustu viku kom út ný plata, þar sem Adapter sér um tónlistarflutning. Nodding Terms er gefin út af hinu framsækna merki col legno en höfundur tónlistar er Ketan Bhatti, vinur sveitarinnar frá Berlín. Hann sinnir tónlistarskrifum fyrir leik- og dansverk og einnig söngleiki. Hann og bróðir hans, Vivan Bhatti, hafa þá samið tónlist fyrir breikdanshópinn Flying Steps og sett Bach í hipphopp-snið.

„Við Matthias kynntumst Ketan í Brandt Brauer Frick Ensemble,“ segir Gunnhildur mér. Hjónin leika með nefndri sveit en þeir Paul Frick og Jan Brauer, meðlimir þar, koma og við sögu á plötu Bhatti. „Hann var trommuleikari þar til að byrja með. Hann fór fljótlega að einbeita sér að því að semja tónlist og taka upp og Adapter lá því beint við sem samstarfsaðili þegar hann fór að prófa sig áfram með að skrifa kammertónlist. Við höfum áður gert nokkur mismunandi verkefni í sameiningu og þessi plata er einskonar heildarútkoma þeirra verkefna.“

Á Nodding Terms reynir Bhatti sig við samslátt kammertónlistar og raf/klúbbatónlistar. Hljóðfæri Adapter eru lögð að naumhyggjulegu, grúvbundnu flæði og heyrn er sögu ríkari! Titillinn, „nodding“, vísar þá í tvennt, að fólk kinki kolli taktvisst vegna grúvsins og líka að það kinki kolli og segi „aha!“, þar sem samsuðan er svo glúrin. Segir í nokk grallaralegri fréttatilkynningu.

„Flóknir taktar eru ekki sérstök áskorun fyrir Adapter,“ segir Gunnhildur. „En kannski að það að umgangast þá á svona meira „grúví“ hátt sé dálítið óvenjulegt. Það er samt mjög gaman og á vel við okkur“ (hlær).

Image result for ketan bhatti nodding

 

 

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: