Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 30. september, 2017

Dásamlega ruglandi


Heiða Eiríksdóttir hefur verið giska iðin við kolann undanfarin misseri og alls hafa þrjár plötur litið dagsins ljós, í ýmsum formum, undir nafninu Heidatrubador. Tökum aðeins stöðuna á þessu sýsli hennar.

Heiða hefur komið að margvíslegum tónlistarverkefnum á löngum ferli, eða eins og segir í fréttatilkynningu vegna nýjustu plötunnar, Artist Celery: „Heidatrubador er tónlistarverkefni Heiðu Eiríksdóttur sem einnig er í hljómsveitinni Hellvar og Dys, var einu sinni í Heiðu og Heiðingjunum, var fyrir langa-löngu í Unun og þar á undan í fullt af bílskúrssveitum með skemmtilegum nöfnum sem enginn man eftir en voru samt prýðileg bönd.“

Heidatrubador er tiltölulega nýlegt verkefni, nafnið gefur til kynna að hér sinni hún söngvaskáldageiranum en það er þó ekki rétt nema að hluta til. Tónlistin undir þessu heiti er orðin býsna mikil að vöxtum, bæði heilar plötur og stök lög, en fer ekki endilega í þær áttir sem fólk á von á. „Mér fannst fyndið að gera tónlist sem væri ekki hefðbundin þjóðlagatónlist og nota samt nafn sem allir myndu halda að væri svona trúbadora-fólk-eitthvað,“ segir Heiða. „Mig langar í raun og veru aðeins að rugla í öllum. Ekki það að fólk sé ekki búið að átta sig á að ég er stundum soldið rugluð, en ég er kannski bara alveg sátt við það. Ég er svona að undirstrika ruglið mitt; staðfesta það sem fólk hefur grunað í mörg ár.“

Fyrsta útgáfa Heidatrubador var kassettan Third-eye-slide-show sem kom út hjá FALK-records árið 2016 í 50 eintökum (er einnig á Bandcamp-svæði FALK). Þar er á ferðinni tilraunatónlist að mestu, drungalegt og naumhyggjulegt „ambient“ og „industrial“ hljóðlykkjur. Heiða hefur þá og skotið út lagi og lagi, hlaðið þeim upp á Youtube eða Bandcamp-setrið sitt en einnig gefið út í föstu formi, t.d. kom út ansi lagleg sjötomma í takmörkuðu upplagi í febrúar 2016, kallast hún Root og er tónlist á a-hliðinni en myndverk á b-hliðinni, undanfari trúbadúraplötunnar Fast sem kom svo út í apríl á þessu ári. Útgáfa Fast var á vínyl, geisladiski og rafrænu formi (heidatrubador.bandcamp.com). Á Fast er söngrödd og gítar í forgrunni, lágstemmd, melódísk og innileg stemning ræður ríkjum. Heiða hefur síðan dvalist í Berlín að undanförnu og samið af kappi og eru tvær plötur tilbúnar. Sú fyrri var að koma út og kallast Artist Celery, kom fyrst út á Youtube en er og hægt að nálgast á Bandcamp.

Hér stígur Heiða frá hljóðheimi Fast og fer nær þeim sem er að finna á Third-eye-slide-show. Sonic Youth-legur gítar, hávaðaveggir og bjögun. Tvö síðustu lögin eru glæsileg útfærsla á þessu, hvar skældur rafmagnsgítarinn spilar algjöra burðarrullu.

Næsta plata kemur svo út á næsta ári, plata sem Heiða lýsir sem „kassagítarspoppi“. Það er því allt að gerast hjá Heiðu nú um stundir eins og sagt er. Þess má þá geta að Artist Celery er ýtt úr vör með myndbandi við lagið „Til vara“, sem Elvar Geir Sævarsson skaut og vann, en upptökur fóru fram í garði í hinni grænu Berlín.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: