Slök Herdís Stefánsdóttir í New York.

Sól, sól, skín á mig

Herdís Stefánsdóttir hefur verið að vekja athygli í heimi kvikmyndatónlistar, sérstaklega fyrir tónlist sína við The Sun is also a Star, sem er Hollywoodframleiðsla í stærri kantinum.

Hver er Herdís Stefánsdóttir? Jú, ég varð fyrst var við þetta nafn í gegnum rafpoppsdúettinn East of my Youth árið 2017 og eftir hann liggja nokkur lög og stuttskífa sem út kom það ár. Nafn hennar blasti svo við mér vegna dómnefndarstarfa á síðasta ári, en þá var hún tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir tónlistina við The Sun is also a Star. Sama ár og East of my Youth hóf að vekja athygli útskrifaðist Herdís frá New York University með MA-gráðu í kvikmyndatónlistargerð. Tónlistin hefur alltaf verið í henni að eigin sögn en hún reyndi lengi vel að ýta henni í burtu og fór m.a. í lögfræðinám. Í því námi kom tónlistin aftur inn í líf hennar af miklu afli og samfara bókagrúski fór hún að semja og spila af fítonskrafti sem hún vissi vart að hún byggi yfir. Tónlistin tók að lokum yfir og verk eftir Herdísi hafa nú ratað inn í innsetningar, dansverk og leikhús en einnig í stuttmyndir og myndir í fullri lengd. Auk The Sun is also a Star (2019) á hún tónlistina í South Mountain sem kom út sama ár en það er Hilary Brougher, ein af virtari kvenleikstjórum samtímans, sem gerir þá mynd. Þá á Herdís líka tónlistina í HBO-þáttaröðinni We‘re Here sem var frumsýnd fyrir stuttu. Herdís vann með Jóhanni Jóhannssyni á meðan hún var í námi, kom að Arrival, og stuttmyndir sem hún hefur unnið tónlistina fyrir hafa verið sýndar á hátíðum eins og Berlinale, TIFF og Sundance. Herdís hefur talsvert verið í viðtölum vegna þessa við ýmsa miðla, hlaðvörp og kvikmyndaleg sérfræðirit en ég ákvað barasta að fara beint í rótina og heyra aðeins í henni sjálfri og allt fyrir tilstuðlan hins netbundna heims. Herdís býr í Berlín alla jafna en er á Íslandi um þessar mundir. Spjall okkar fór þó fram í gegnum Messenger-forritið góða og aðeins í gegnum tölvupóst. Ég var fyrir það fyrsta forvitinn um það hvernig fólk landar svona stórum bitum eins og The Sun is also a Star?

„Það var í raun frekar langsótt og ótrúlegt að það hafi gerst miðað við aldur og fyrri störf!“ segir Herdís og hlær í gegnum netið. „Umboðskonan mín bað mig að útbúa möppu með tónlistinni minni fyrir þessa mynd, sem er oft gert. Ég hafði aldrei gert tónlist fyrir kvikmynd í fullri lengd áður og hafði því alls ekki mikla reynslu. Við sendum tónlistina og bjuggumst í raun ekkert við svari og svo kom auðvitað ekkert svar! Það var ekki fyrr en nokkrum mánuðum seinna að hún sendir mér skilaboð og segir að Warner Brothers séu alltaf að streyma tónlistinni minni (en hún fær þá meldingu um það). Í sömu viku hringir hún í mig og segir: „Herdís, þú munt ekki trúa þessu en Warner Brothers voru að hringja í mig og spyrja hvort þú værir laus.“ Ég hélt auðvitað að hún væri að grínast. En þá hafði leikstjórinn verið að hlusta á tónlistina mína og fannst ég vera tónskáldið fyrir myndina. Hún fékk það þá í gegn að ég væri ráðin! Stóru kvikmyndaverin eru ekki mikið í því að ráða fólk með litla reynslu svo ég var frekar heppin!“

Ég spyr Herdísi út í konur í þessum bransa, hvort hún skynji einhverjar breytingar, en tölulega og sögulega séð standa þær höllum fæti gagnvart karlmönnunum.

„Konum er klárlega að fjölga í þessum bransa,“ svarar hún. „Ég held að við munum sjá fleiri og fleiri á næstu árum. Ég hef séð miklar breytingar á síðustu árum eða síðan ég byrjaði að pæla í kvikmyndatónlist. Þegar ég var að byrja gat ég varla talið kvenkyns kvikmyndatónskáld á fingrum annarrar handar og vissi ekkert hvar ég ætti að leita að þeim! Hildur Guðnadóttir og fleiri konur eru að ryðja veginn með stærri verkefnum og ferskir vindar blása um Hollywood, finnst mér.“

Fram undan hjá Herdísi er að vinna tónlist fyrir Blackport (Verbúðin) sem er ný sjónvarpssería frá Vesturporti. Hún segist þá vera að vinna að sólóplötu líka og verður líka í sýningu í Borgarleikhúsinu í lok árs. Það er ýmislegt hægt greinilega, sé hjartanu fylgt.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: