Í haust kemur út bókin „Tónlist er tónlist“: Greinar 1999 – 2012 sem inniheldur úrval greina eftir mig frá þrettán ára Morgunblaðsferli. Ég skrifa athugasemdir þegar við á, en sumar greinarnar eiga sér allsérstæða sögu. Það er búið að vera mjög skemmtilegt að rifja þetta upp. Hér er smá tíser eða „kitla“. Gylfi Ægisson í aðalhutverki:

Eitthvað sem átti að vera stutt símaspjall við Gylfa Ægisson út af nýrri safnplötu átti eftir að snúast upp í meiriháttar ævintýri. Ákveðið var að gera eitthvað aðeins meira úr meistaranum og hann kíkti í heimsókn til mín upp í Hádegismóa, með gítarinn og allt. Í kjölfarið var ákveðið að gera myndskeið og keyrðum ég og Sighvatur, síðar samstarfsmaður minn í Tónlistarstundinni, niður í Fjörukrá til að mynda Gylfa og spjalla við hann. Ég reyndi að fá Gylfa til að spila „Minning um mann“ bara með kassagítarinn, til að undirstrika hversu glæsilega harmrænt þetta lag er en ó nei, skemmtarinn var hækkaður upp í ellefu og þannig blastaði hann laginu þarna í Fjörukránni.

Við fengum Gylfa svo til að vinna fyrir okkur mynd sem við tókum af honum en hann sér sjálfur um alla hönnun fyrir plötur sínar sem skilar sér í hinum ævintýralegustu umslögum. Gylfi klikkaði ekki og sendi þessa stórkostlegu mynd sem gaf okkur um leið fyrirsögnina. En það er rúsína í þessum sagnfræðilega pylsuenda. Þegar vinnudegi var lokið fór ég fram á háborð (umbrotsborðið) til að tékka á gangi máli, eiginlega fyrir hálfgerða rælni. Þá var búið að klippa („edga“) Gylfa út úr myndinni og verkið þar með ónýtt. Ég útskýrði fyrir mönnum að myndin væri í raun sérpantað listaverk frá Gylfa og því mætti ekkert hrófla við henni. En djö… stóð þetta tæpt í þetta sinnið. Stórslysin hafa nú orðið en ég hefði hrokkið sérstaklega glæsilega af hjörunum ef þetta hefði orðið að veruleika.

Ég hugsaði í kjölfarið, „Af hverju er ekki búið að skrifa bók um þennan mann?“. Ári síðar varð hún svo að veruleika.