Fjölhæf Nive Nielsen er með þekktari grænlenskum tónlistarmönnum. — Ljósmynd/Schorle

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 28. september, 2019.

Norðlæg menningarveisla í Nuuk

Listahátíðin Nuuk Nordic Culture Festival er tvíæringur sem ýtt var úr vör í fyrsta skipti árið 2015. Nú, í þriðja sinn, verður heil vika undirlögð af alls kyns menningaruppákomum. Hátíðin hefst 7. október og mun greinarhöfundur sækja hátíðina og greina frá því helsta.

Frændur okkar í Færeyjum standa okkur nálægt, en samt finnst manni eins og maður fái alltof sjaldan fréttir þaðan. Önnur nágrannaþjóð er enn nær okkur, landfræðilega, en það er eins og fréttir frá Grænlandi séu enn sjaldgæfari, og þá sérstaklega af menningarmálum. Almenn vitneskja um slíka hluti og tíðari samgangur landa á milli mætti vera mun meiri.

Það er mikið stuð í Grænlandi nú um stundir og viss vakning í menningarlífinu sem og sjálfstæðismálum. Hátíðin sem pistilritari er svo heppinn að fá að sækja er ein af afleiðingum þessa, vikulöng menningarhátíð sem snertir á alls kyns geirum menningar og lista og hefur það að markmiði að samþætta það sem í gangi er að því leytinu til á norðurslóðum. Hátíðin gengur út á að má út mæri á milli listamanna og áhorfenda, afþreyingar og listar, listrýma og almenningsstaða.

Áhersla er lögð á að opna huga, koma á samböndum og víkka út sjóndeildarhringa. Hátíðin fer fram í höfuðstað Grænlands, Nuuk; í bókasöfnum, heimilum, listrýmum, bíósölum, íþróttahúsum, leikhúsum og verksmiðjum. Dans, leikhús, gjörningar, tónlist, vinnusmiðjur og bókmenntir; allt er undir og meira til. Hátíðin er nútímaleg, hún hamrar ekki eingöngu á ísjökum og húðkeipum og gengur út frá grunngildum er snúa að a) norrænni samvinnu, b) þátttökumenningu og c) samvinnu og samsköpun.

Hraður vöxtur
Madelaine Goordon Graadahl, verkefnastjóri hátíðarinnar, segir að upprunalegur tilgangur hennar hafi verið að færa norræn lönd nær hvert öðru með því að flytja inn listamenn þaðan til Nuuk. Þannig mætti koma á sambandi þeirra á milli og sá fræjum fyrir sterkari, menningarlegri tengslum en verið hafa. „Stefnan er líka sú, að koma á umgengni listamanna og fólksins sem sækir hátíðina, og reyna að rífa niður skil þar á milli. Við trúum því að fólk á norrænum slóðum deili fleiru en það kannski gerir sér grein fyrir, og hátíðin reynir að opna á frekara samband og hugmyndaflæði á milli.“

Graadahl segir hátíðina vissulega unga, þetta sé í þriðja sinn sem hún sé haldin. „Vöxturinn hefur verið ansi hraður,“ segir hún og maður finnur fyrir stolti og jafnvel æsingi, enda stutt í hátíðarhöldin. „Við erum þegar komin með heilmikið af samböndum um heim allan, við listamenn og aðrar hátíðir. Og erum enn að finna taktinn mætti segja, hversu stór og viðamikil hátíðin getur orðið miðað við hvar hún er haldin.“

Allir með
Hátíðin, NNK2019 eins og hún er skammstöfuð, leggur mikið upp úr þátttöku „mannsins á götunni“, að fá alla, hvort sem þeir eru formlega skilgreindir sem listamenn eða ekki, til að vera með og leggja eitthvað til. Samstarf, samvinna og samhygð eru orð sem maður hefur heyrt fleygt, þegar hátíðin kemur til tals.

„Okkur langar til að hátíðin sé galopin öllum,“ útskýrir Graadahl. „Allir eru velkomnir, sama hvaða menningu þeir tilheyra eða trú, hversu gamlir þeir eru eða hvað þeir hafa mikið á milli handanna. Og í samræmi við þá áherslu erum við að reyna að hafa eins fjölskrúðuga dagskrá og mögulegt er. Við leggjum ríka áherslu á samstarfið og samskipti. Að fólk tali saman, skapi saman og hjálpist að. Okkur langar ekki til að vera hátíð þar sem listamennirnir fljúga hingað, framkvæma sitt, og fara svo aftur til baka. Við viljum koma á vettvangi þar sem listamennirnir – og fólkið – geta verið í meira sambandi. Ný sambönd og ný list.“

Graadahl segir að grænlensk menning sé ekki endilega sérstakur áherslupunktur þó að hátíðin sé haldin þar.

„Tja, landslagið hérna getur reyndar ekki annað en spilað vissa rullu. Við viljum líta svo á að þessa viku muni hjarta norrænnar samvinnu slá af krafti í Nuuk og það er vonandi að hjartslátturinn nái út fyrir svæðið í framhaldinu.“

Hátíðin stendur frá 7.-13. október eins og áður segir og nánari upplýsinga er auðveldlega hægt að afla fyrir tilstilli veraldarvefsins.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: