blur 2015
Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 25. apríl, 2015

Dularfulla töfrasvipan

• Bretapoppssveitin Blur gefur út nýja plötu, þá fyrstu í tólf ár

Þegar Bretapoppið svokallaða, „Britpoppið“, stóð sem hæst árið 1995 bitust tvær sveitir um konungdóminn sem því fylgdi. Oasis voru kjaftforar verkalýðsblækur frá Norður-Englandi sem endurunnu Bítlalög með undraverðum hætti. Svo vel var þetta gert að lögin hljómuðu eins og þú værir að heyra þau í fyrsta skipti. Blur voru listaskólastúdentar frá London og tónlistin af hökustrokusortinni, með nokkuð áberandi vísun í enskuheit Kinks og síðari „mod“-bylgjuna. Sveitirnar gátu eiginlega ekki verið ólíkari. Enn þann dag í dag hafa þær nokkuð gott tak á bresku þjóðarsálinni, sem bíður eiginlega og vonar, leynt sem ljóst, eftir nýrri Bretapoppsbylgju.

Læti

Oasis hætti með látum árið 2009 eftir að Liam Gallagher henti plómu í stóra bróður sinn eftir tónleika. Allar götur síðan hefur verið hvíslað um og ýjað að endurkomu. Blur eru hins vegar búnir með þann pakka. Ekki nóg með að sveitin hafi komið aftur saman, og það í bróðerni, heldur er ný plata og klár, The Magic Whip, og kemur hún út nú eftir helgi. „Bræðurnir“ í Blur, Damon Albarn og Graham Coxon eru þá á betri stað en áður. Coxon og Albarn létu þó handalögmál að sjóarasið eiga sig að mestu og stunduðu frekar hina klassísku, spennuhlöðnu launillsku ( að vera „passive agressive“) sem setti bandið eðlilega á hliðina undir rest.
Coxon hætti 2001 og síðasta hljóðversplatan, Think Tank, kom út 2003. Coxon hefur síðan þá keyrt sæmilegasta sólóferil og Albarn hefur verið sérstaklega farsæll í sínum verkefnum, hvort heldur í gegnum hópa eins og Gorillaz og Mali Music eða upp á eigin spýtur. Hrynparið, þeir Alex James og Dave Rowntree hafa að langmestu sinnt störfum utan tónlistarinnar, hinn fyrrnefndi hefur m.a. fengist við ostagerð og fjölmiðlun en hinn síðarnefndi er lögfræðingur og pólitíkus.

Einlægt

Albarn er sá sem þarf minnst á því að halda að endurreisa Blur. Engu að síður kom sveitin saman til hljómleikahalds árið 2009 og hefur leikið annað slagið á stærri viðburðum. Ekkert hefur þó verið í spilunum hvað nýja tónlist varðar. Í upphafi árs 2012 var gerð tilraun til að taka upp en hún endaði úti í skurði. Í maí 2013 voru meðlimir strandaglópar í Hong Kong í fimm daga en tónlistarhátíð í Tókýó, þar sem sveitin átti að spila, hafði verið blásin af. Menn dunduðu sér við að taka upp til að drepa tímann en afraksturinn safnaði síðan ryki. Síðasta haust hafði Coxon svo samband við Albarn og fékk grænt ljós á að kafa í efnið og reyna að vinna úr því útgáfuhæfa plötu. Coxon fór í þá vinnu með upptökustjóranum Stephen Street og í febrúar síðastliðnum var tilkynnt að platan kæmi út. Kom það nokkuð flatt upp á fólk sem var eiginlega búið að gefa drauma um slíkt upp á bátinn.
Það merkilegasta við þetta allt saman er að meðlimir virðast einlæglega kátir með að vera komnir saman aftur. Í maíhefti Mojo er viðtal við sveitina og þetta er myndin sem maður fær þar. Athugið að Albarn, eins og áður hefur komið fram, þarf engan veginn á þessu að halda, listrænt eða fjárhagslega. Þannig að eitthvað annað stýrir þessu, eitthvað heilnæmt sem maður er hreinlega ekki vanur að sjá. Þörf fyrir vináttu, metnaður fyrir listinni sem slíkri? Ef þetta er blekkingarleikrit er það a.m.k. frábærlega unnið. Og ekki að það skipti máli, þannig séð, á endanum. Tónlistin er komin út og hún talar á endanum fyrir sig sjálf.

 

 

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: