viv albertine

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 2. maí, 2015

„Dæmigerðar stelpur“

• Viv Albertine, fyrrum Slits-liðsmaður, átti eina bestu bók 2014
• Mikill uppgangur í sjálfsævisögum tónlistarmanna

Þegar síðasta ár var gert upp hvað tónlistartengdar bækur varðar voru tvær bækur einna mest áberandi. Annars vegar saga Roberts Wyatts (sem ég skrifaði um síðasta nóvember) og svo bók Viv Albertine, sem var eitt sinn liðsmaður í Slits, einni áhrifamestu pönksveit allra tíma. Sérstaklega var hún áhrifamikil hvað stöðu kvenna í þeirri tónlist varðar (og tónlist almennt reyndar ef út í það er farið).

Barátta

Titill þessa pistils vísar í eitt laga Slits en í gegnum stuttan feril storkuðu liðsmenn viðteknum gildum og viðmiðum í rokkbransanum svo um munaði. Fjórar kornungar stúlkur þar sem hljóðfærakunnáttu var verulega ábótavant, fyrsta kastið a.m.k., en sköpunarþrótturinn og spánnýtt viðhorf til þess hvað það er sem gefur listaverkum raunverulegt gildi heillaði alla þá sem komust í kast við þetta orkuríka band. Í raun „börðust“ liðsmenn á tvennum vígstöðvum, annars vegar voru þeir hluti af nýrri liststefnu sem mætti mikilli andstöðu frá þeim sem með völdin fóru og hins vegar var það feminíska byltingin innan dægurtónlistarinnar, þar sem Slits sáði fræjum af miklum krafti.
Albertine lét sig hverfa eftir að Slits lagði upp laupana og fór nánast huldu höfði í áratugi, var húsmóðir úti í bæ þar til hún megnaði ekki lengur að hafna þeirri köllun sem kom henni upprunalega í Slits. Hún fór að búa til tónlist á nýjan leik fyrir rúmum fimm árum og í kjölfarið kviknaði hugmyndin að bókinni. Þar gerir hún upp árin í tónlistinni og utan hennar af mikilli einlægni og þessi „nakta“ nálgun fékk gagnrýnendur til að falla flata og bókin toppaði margan árslistann. Farsæld þessi varð til þess að Albertine er að leggja í nýja bók sem kemur út sumarið 2016.

Vöxtur

Það er mikill vöxtur í bókaskrifum hjá tónlistarmönnum nú um stundir. Allir og amma þeirra eru að gefa út bækur, það eru ekki lengur bara stjörnurnar sem gefa út heldur kantmennirnir einnig. Rótarar og hljóðupptökumenn eru meira að segja farnir að stökkva á þennan vagn. Hvað veldur þessu? Tracy Thorne, söngkona Everything But The Girl, gaf út bók í hittifyrra sem sló í gegn á líkan hátt og bók Albertine. Hún segir að blogg- og samfélagsmiðlavæðing hafi eitthvað um þetta að segja, fólk geti prufað sig áfram þar og einhverjir uppgötvi að þeir geti vel haldið á penna. Thorne gefur einmitt út aðra bók sína í ár, þar sem hún skrifar um sönginn sem slíkan og söngvara.
Ég vil nefna tvær bækur til viðbótar úr þessum ranni sem fólk ætti eindregið að kynna sér. Annars vegar bók Kim Gordon úr Sonic Youth, Girl in a Band, og hins vegar – og þetta er mikilvægt – bók Patti Smith, Just Kids, sem kom út 2010. Þar er á ferð stórkostleg bók; falleg bæði og næm og það blasir við manni að Smith hefði alveg eins getað orðið frábær rithöfundur eins og frábær tónlistarmaður.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: