springsteen 2013

 

[Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 11. janúar, 2014]

Stjórinn tekur til

• Bruce Springsteen á fyrstu „stóru“ plötu ársins
• High hopes er engu að síður nokkurs konar samantekt

Það segir okkur ýmislegt um þá vigt sem Bruce Springsteen hefur að uppsópsplata, sem ber með sér endurhljóðritanir og afganga, er ein helsta útgáfufréttin í upphafi þessa árs. Það kemur hins vegar ekki á óvart, Springsteen hefur á síðustu árum hægt og bítandi nálgast svið sem menn eins og Dylan og Cash sitja á, þar sem eftirspurn og eftirvænting eftir hverju sem er frá þessum listamönnum er yfirgengileg.

Almennilegt heimili

Þegar poppfræðin hófu innreið sína í akademíuna á níunda áratugnum voru Madonna og Springsteen vinsæl umfjöllunarefni og ekkert lát virðist vera á pælingum um Stjórann frá öllum mögulegum sjónarhornum. Auk hefðbundinna ævisagna, ritaðra af lærðum sem leikum, er list hans og ævi skoðuð út frá trúmálum, stéttarvitund, pólitík og hugmyndinni um „ameríska drauminn“ svo eitthvað sé nefnt. Merkilega margir fræðimenn (karlmenn, í öllum tilvikum) á vissum aldri (ca. 40-65) eru algjörlega hugfangnir af Springsteen og geta skrifað og rætt um hann út í eitt.
Goðsögnin Springsteen styrkist því með hverju árinu og þúsundir sem taka þessari „nýju“ plötu höndum tveim. Platan er kynnt sem átjánda hljóðversskífa Springsteens en sú síðasta, Wrecking Ball, kom út 2012. Um er að ræða að mestu lög sem hafa legið í salti undanfarinn áratug, lög sem rötuðu ekki inn á plötur einhverra hluta vegna, og lýsir Springsteen því að hann hafi viljað búa þessum lögum almennilegt heimili. Þetta er reyndar ekki í fyrsta skipti sem Springsteen hefur lagst í svona æfingar. Sem tónlistarmaður er hann afar upptekinn af heildarmynd þegar gefa skal út plötur og hefur margsinnis fórnað frábærum smíðum á kostnað heildarinnar. Þetta átti sérstaklega við í kringum upptökur á meistaraverki hans, Darkness on the Edge of town (1978), en lög frá því tímabili litu loks dagsins ljós árið 2010 á tvöföldu plötunni The Promise. Einnig kom út, árið 1998, fjórfaldur kassi undir heitinu Tracks sem inniheldur viðlíka efni og svo skipta sjóræningjaútgáfur tugum.

Enn eru afgangar

Á plötunni nýtur Springsteen fulltingis sveitar sinnar, E Street band, og heyra má í tveimur föllnum félögum, þeim Clarence Clemons og Danny Federici. Einnig kemur Tom Morello, gítarleikari Rage Against The Machine, við sögu. Vinna hófst í desember 2012 og var plötunni klastrað saman í hléum frá hinu umfangsmikla Wrecking Ball-hljómleikaferðalagi.
Titillag plötunnar er nærfellt tuttugu ára gamalt og kom upprunalega út á stuttskífunni Blood Brothers árið 1995. Lagið „American Skin (41 Shots)“ fær loksins vísan stað en hljóðversútgáfa af því hefur hingað til aðeins verið til á sjaldgæfri kynningarplötu sem kom út 2001. Fjölmörg lög eru þá frá tímabilinu 2002-2008, ætluð á plötur en pössuðu svo ekki inn í hina helgu heildarmynd Stjórans. Tvö tökulög prýða gripinn; „Just Like Fire Would“, lag sem ástralska pönksveitin The Saints gaf út árið 1986, og „Dream Baby Dream“ eftir Suicide, sem Springsteen hefur flutt margsinnis á tónleikum undanfarin ár. Fleiri lög voru tekin upp sem náðu ekki inn á plötuna. Við sjáum því fram á afgangaplötu byggða á afgangaplötu. Ef einhver kemst upp með slíkt í dag þá er það Bruce Springsteen.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: