Það var einhvern veginn allt rétt við útsendinguna frá tónleikum Hljómskálans í Hörpu síðastliðinn laugardag. Ég tek rafrænt ofan fyrir þessu öllu saman. Fyrir það fyrsta er það mjög svo framsýnt og já, hetjulegt nánast, að taka sig til og leggja kvöldið undir ný, íslensk lög og mörg þeirra voru frumflutt þetta kvöld. Margir í þessari stöðu hefðu stokkið á öruggara efni. En þetta var útgangspunkturinn og þetta hafa þeir félagar; Sigtryggur, Kiddi og Bragi verið að gera í þessum afskaplega vel lánuðu þáttum … að búa til nýja íslenska dægurtónlist.

Mér finnst það þá til marks um það hversu harðir við Íslendingar erum þegar komið er að tónlistarsköpun hér á landi að farið sé svona bratt og kinnroðalaust í þetta. Besti útsendingartími, á RÚV og það innan marka Listahátíðar og bara keyrt af stað með nýtt íslenskt efni. Ekkert rugl. Þetta er til hreinnar fyrirmyndar. Mér verður hugsað til nágrannaþjóða sem eru hreinlega ekki komnar á þennan stað ennþá, að hlúa svona vel að eigin fólki. Þetta er hugarfar sem mun skila sér til íslenskrar tónlistarmenningar svo um munar. Ræktum garðinn hérna heima upp í topp, útrásir og annað slíkt kemur svo í kjölfarið.

Sjá tónleikana hér.