Ef menn eru af minni kynslóð (fæddur ’74) komast þeir varla undan því að hafa einhverja skoðun á Depeche Mode. Inni á klósetti hjá mér er sérrit frá Mojo, vandað mjög, um tölvupopp eða svuntuþeysarapopp („synth-pop“ eins og breskir kalla það) sem ég er sífellt að glugga í. Ég fæ aldrei nóg af því að lesa um eða hugsa um þennan merka geira tónlistar og ég er sérstaklega forvitinn um frumár stefnunnar, þegar sveitir eins og Ultravox (fyrri tíma þ.e.), Human League (fyrri tíma einnig) og forveri ABC, Vice Versa, voru að fóta sig í kringum ’78-’79.

Depeche Mode er í aðalhlutverki í blaðinu, sagan öll, frá Kraftwerk og fram til vorra tíma hverfist um sveitina. Þetta er eðlilegur útgangspunktur, það er einhvern veginn allt í þessu bandi hvað þessa sögu varðar og í gegnum hana má greina þróun og margbreytilegheit tölvupoppslistarinnar. Að ekki sé talað um dramað sem fylgt hefur sveitinni en það nær á köflum skakspírskum hæðum. Black Celebration er á í þessum töluðu orðum. Hvað segið þið um þetta mál? Hvaða plata er í hæstu hæðum hjá ykkur? Og hvað með þessa þróun undanfarin ár. Eru Gore og félagar úti að skíta?

 

Tagged with: