jack white

[Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 7. júní, 2014]

Upp frá dauðum?

• Lazaretto er önnur sólóplata Jacks White
• Drengurinn er hamhleypa til verka, svo mikið er víst

Vitiði, ég ætlaði ekkert að hlusta á þessa nýju plötu White. Ákvað að nenna því ekki. Eina sólóplatan hans til þessa, Blunderbuss (2012), var ekki skemmtileg, hljómaði eins og afgangsefni og lítt innblásin að því er virtist. Þannig að ég ákvað að spara mér tíma. Svo fékk ég sms frá góðvini mínum í gær þar sem hann mærði Lazaretto, aðra sólóplötu White – sem út kemur á mánudaginn – og ég ákvað því að gefa henni eins og einn snúning, aðallega þá til að gefa vini mínum viðgjöf. Það sem átti svo að verða nokkur orð í sms-i snerist upp í heldur lengri tölvupóst þar sem ég lýsti yfir mikilli ánægju með þetta verk White. Ég átti ekki von á þessu. En vel gert, Jack. Þú átt skilið pistil.

Brokkgengur

Ég hef reyndar alltaf verið hrifinn af White og hans vinnu (og hann „vinnur“ mikil ósköp, sei sei já…) en ég teldist þó seint vera aðdáandi. Ég er meira forvitinn eða áhugasamur um þennan mann og hef alltaf annað augað (jafnvel eyrað) á því sem hann er að gera. Það er bara eitthvað við allan pakkann sem heillar; umslagshönnun, vinna hans með öðrum, hugmyndir hans og afstaða um hvernig beri að haga upptökum og útgáfum o.s.frv. Og tónlistin líka auðvitað, sem er þó brokkgeng á köflum. Raconteurs er t.d. snilld en Dead Weather ekki. White Stripes, jú, en ég er farinn að hallast að því að Get Behind Me Satan sé uppáhaldið mitt þar. Eldri plöturnar eru of einfaldar (ég tek við reiðipóstum í gegnum netfangið hér að ofan). Undanfarið hefur maður þó horft í mestri forundran á alla þá glæsilegu starfsemi sem White hefur verið að keyra í gegnum útgáfu sínu Third Man Records en sú athafnasemi öll er efni í heila grein. Ég þarf að einbeita mér að Lazaretto nú, þið verðið bara að „gúgla“ þetta. (Ég verð þó að nefna tvennt: White gefur út nýjustu plötu Neil Young, sem var tekin upp í Voice-o-Graph vínylupptökuklefa frá 1947 og sérstök vínylútgáfa af Lazaretto skartar m.a. heilmynd og rákirnar eru þannig að armurinn gengur út frá plötunni en ekki inn að miðju).

Umrót

Margt hefur á daga White drifið síðan Blunderbuss kom út, blóðugur (bókstaflega) skilnaður og þá hefur hann verið að tala hressilega niður til manns og annars að undanförnu; m.a. hefur Dan Auerbach úr Black Keys og Meg White, fyrrverandi félagi hans í White Stripes og fyrrverandi eiginkona einnig, fengið að finna fyrir því. Margir eru á því að þetta umrót allt hafi leitað út í plötuna nýju og í henni sé ákefð og innblástur sem hafi sárlega vantað á Blunderbuss. Ég var ekki sannfærður en oft er það mannlegi þátturinn sem kemur manni yfir þröskuldinn. Sms-ið góða leiddi mig því hingað inn og ég get staðfest þetta með umrótið. Hinir miklu vinir listarinnar – þessar tilfinningar sem við viljum aldrei upplifa (en losnum þó aldrei undan); sársauki, óöryggi, vonleysi og tómlæti – koma hér sterkar inn. En um leið finnur maður tilfinnanlega fyrir því að hér heldur mikill meistari um spaðana, listamaður sem veit upp á hár hvernig framleiða skuli slíkt „stöff“. Er það vel.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: