Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 9. desember, 2017

Hvað ertu, jólatónlist? Fyrri hluti

Pistilhöfundur bregður á sig jólasveinaskeggi og leitar að merkingu jólatónlistarinnar, geira sem hann hefur botnlausan áhuga á.

Þetta er svo furðulegt með jólatónlistina, eina geira dægurtónlistarinnar – ef geira mætti kalla – sem er þrælbundinn við einn mánuð á ári og þá flæðir hann út um allt. Og iðulega, alltaf sömu lögin. Merkilegt.

Flest þau lög sem dynja á okkur sýknt og heilagt eiga rætur að rekja til Bandaríkjanna og voru samin á fjórða og fimmta áratugnum. Oft er uppistaðan blanda af gleði og melankólískri þrá („I‘ll Be Home for Christmas“, „White Christmas“) en sum þeirra sitja í hreinni, yljandi og styrkjandi værð (hið ótrúlega „The Christmas Song (Chestnuts Roasting on an Open Fire))“ og enn önnur einbeita sér að hressilegum grallaraskap („Santa Claus Is Coming to Town“, „Rudolph the Red Nosed Reindeer“). Þessi lög og önnur til hafa verið mjólkuð út í hið óendanlega síðustu 70 árin eða svo af poppurum sem ákveða að hræra í eins og eina jólaplötu. Þessi sígildu lög hafa verið sett í þúsund mismunandi útgáfur og venjulega samanstanda nýjar jólaplötur af 7-8 lögum úr þessum ranni og svo mögulega 2-3 frumsömdum lögum.

Forsendurnar fyrir jólaplatnagerð eru eðlilega mismunandi. Með góðri jólaplötu er hægt að tryggja sér lífsviðurværi allt til enda, þar sem sölu- og stefgjaldatölur tikka af miklum móð þennan eina mánuð. Gott dæmi er plata Kylie Minogue, Kylie Christmas (2015), sem leit afskaplega vel út á pappírnum en var ákaflega rýr að innihaldi. Það er eins og hugmyndin hafi verið að byggja jólatónleikaröð í kringum hana svo, en okkar kona virðist ekki vera að eltast við neitt slíkt lengur. Gwen Stefani rær á sömu mið þetta árið og ég er búinn að rúlla plötunni hennar, og aftur, efnið fellur flatt.

En svo eru það listamenn eins og Kenny Rogers, sem er jafn mikill jólasveinn og hann lítur út fyrir að vera. Rogers hefur gefið út kynstrin öll af jólaplötum, misvel lukkaðar að vísu, en þarna gengur eitthvað upp virðist vera. Auðvitað er þetta atvinnugrein en það er eitthvað í blikinu í auga Rogers sem segir mér að þetta sé ekki bara mokstur á þeim grænu.

Svo koma plötur sem koma manni algerlega í opna skjöldu. Tökum jólaplötu Bob Dylan, Christmas in the Heart, sem dæmi (2009). Þar gengur allt upp, verkið er einkar sannfærandi og Dylan – þrátt fyrir inngreypta kaldhæðni og tómlæti gagnvart öllu og öllum – virðist syngja þetta allt saman beint frá hjartanu. Það er einhver mögnuð stemning á plötunni, hún er hlý og notaleg og væmni eða yfirkeyrsla heyrist ekki. Dylan syngur þessi lög af raunverulegri ástríðu og einlægni og gleymum því ekki að Dylan er gangandi alfræðiorðabók um ameríska alþýðutónlist og gildir einu um hvaða blæbrigði hennar er að ræða. Og úr þeim arfi spretta þau jólalög sem hann reynir sig við. Getur það kannski verið að við það að búa til svona plötu, sem er ekki „alvöru“ plata og er sniðin að mjög svo ákveðnu formi, hafi losnað um okkar mann? Hann hafi slakað á, leyft sér að vera hæfilega hispurslaus og við það hafi þessi góði og öruggi andi myndast?

Það er margt í mörgu eins og sjá má. Sjáumst í næsta jólatónlistarpistli sem verður birtur eftir tvær vikur (skrif um jólatónleika Eivarar í Hörpu koma í millitíðinni).

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: