Ljósmynd/Móheiður Hlíf Geirlaugsdóttir

Í minningunni…

Pistilritari veltir fyrir sér fortíðarþrá og minningarölti í tengslum við dægurtónlist eftir þrenna tónleika af slíku tagi um síðustu helgi.
Síðasta helgi raðaðist sem sagt þannig að ég sótti þrenna tónleika sem áttu það sameiginlegt að hljómsveitirnar áttu sinn feril um miðjan tíunda áratuginn, fyrir kvartöld (með einni undantekningu, sem ég kem að núna). Fyrir það fyrsta héldu Ívar Páll Jónsson og kona hans Ásdís Rósa Þórðardóttir tónleika með nýrri sveit sinni, Jane Telephonda, en Ívar var mikilvirkur á tónlistarsviðinu á tíunda áratugnum, leiddi nýbylgjurokksveitina Lunch ca 1992, innan um allt dauðarokkið, og gaf svo út plötuna The Third Twin árið 1995 með sama mannskap en þá undir nafninu Blome. Jane Telephonda var að kynna nýja plötu, Boson of Love, í Tjarnarbíói á föstudagskvöldi en flestallir sem komu að fyrrnefndum sveitum voru á sviðinu. Síðar sama kvöld lék rokksveitin Maus í kjallara Hard Rock Cafe en hún endurútgaf plötu sína Lof mér að falla að þínu eyra fyrir stuttu. Daginn eftir hélt Kolrassa krókríðandi svo tónleika á Húrra. Sú sveit var sömuleiðis að endurútgefa plötu, sína fyrstu, Drápu. Botnleðja, enn ein tíunda áratugar sveitin, endurútgaf þá plötuna Fólk er fífl fyrir ekki alls löngu.

Mikil starfsemi hjá sveitum sem flugu hæst fyrir tuttugu og fimm árum. Hvað veldur? Sjálfur tengdist ég þessari senu á sínum tíma, þá á aldursbilinu ca. 17 upp í 22. Nú er ég kominn á fimmtugsaldur og allt þetta fólk sömuleiðis. Þörfin fyrir að skapa, leika sér, ástunda list er þó greinilega rík í þeim öllum en einnig þörf fyrir visst endurlit, þörf sem var eðli málsins samkvæmt ekki til staðar á sínum tíma.

Fortíðarþrá eða nostalgía er vandmeðfarið fyrirbæri. Það er eins og það sé í senn jákvætt og neikvætt. Ylurinn við það að rifja upp góðar minningar og hitta gamla vini er sannur en það er eins og viss sorg sé handan við hornið líka enda nostalgía í eðli sínu ljúfsár. Við leitum í hana – en ekki bara til að ylja okkur. Hvað dæmin sem hér eru tiltekin varðar veltur þetta á framreiðslunni. Svona hlutir geta verið hreint og beint hallærislegir, tákn um stöðnun frekar en nokkuð annað en þeir geta líka verið virkilega fallegir og styrkjandi. Og svo fer þetta líka eftir augum sjáandans (og eyrum). Ungi ég hefði líkast til ekki komið nálægt svona hlutum, enda tilgangslaust. 43 ára ég lít á þetta allt öðrum augum – og er örugglega um leið ódómbær á vissan hátt.

Hvað Kolrössu og Maus varðar sá ég sama fólkið sem ég þekki og þykir vænt um. Maður hverfur inn í kvartaldar gamalt ástand einhvern veginn og tíminn verður skrítinn. Mér fannst þau ekki hafa elst vitund! Sömu taktarnir, líkamshreyfingarnar og brosin og í tilfelli beggja, mikill þéttleiki og bravúr (spyrjið bara fleiri. Þetta var almennilegt). Vinsældir svona viðburða og ástæðan fyrir því að fólk leggur í þá hefur líka að gera með meira en tónlist. Þetta er samvera, vinátta, samskipti – það að hitta fólkið sitt. Tónleikar Jane Telephonda voru með ólíkum hætti en líkt og með það sem ég hef nefnt var þarna fullorðið fólk, flestallt með feril utan tónlistar, samankomið innan um vini og fjölskyldu að búa til eitthvað í sameiningu. Stemningu sem og listaverk. Eitthvað satt og gott.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: