Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 25. nóvember, 2017

Sýnir Kolrössu

Keflvíska rokksveitin Kolrassa krókríðandi fagnar frumburði sínum, Drápu, með tónleikum á Húrra í kvöld kl. 22 en auk þess er platan komin út á vínyl. Höfundur rölti niður Minningatröð.

Áleitið, sargandi fiðluískur og þykkur bassinn fer í gang. Kröftugar ættbálkatrommur fylgja og surgandi gítar með. Myrkt og ágengt nýbylgjurokk sem hefði bara getað verið samið í upphafi tíunda áratugarins. Svona hefst „Hrafn“, upphafslag Drápu, sjö laga stuttskífu sem Kolrassa krókríðandi gaf út seint á sama ári og þær unnu Músíktilraunir með glæsibrag. Árið var 1992 og þær Elíza Geirsdóttir Newman, Ester Bíbí Ásgeirsdóttir, Sigrún Eiríksdóttir og Birgitta María Vilbergsdóttir mynduðu einstaklega sannfærandi kvartett. Ljósmyndir frá þessum tíma sýna orkuríkar, glaðværar stúlkur (c.a. 16 og 17 þegar þær unnu) og þær einfaldlega glóa, svo ofursvalar eru þær. Þetta var eiginlega of gott til að vera satt. Þétt og falleg hljómsveitarára lék um þær, harðsnúið gengi sem hafði allt að vinna og engu að tapa.

Kolrassa vann Músíktilraunir örugglega eins og segir og var næstu ár í broddi fylkingar neðanjarðarrokkssenu sem kom í kjölfar þeirrar brautryðjendastarfsemi sem Smekkleysa og tengdar sveitir höfðu staðið að nokkrum árum fyrr. Hér var komin ný kynslóð, nýtt vor. Ég var partur af þessari senu, sautján ára gamall, mátandi mig í gervi unglings með hár ofan í augu, íklæddur slitnum Converse-skóm (þegar Elíza hitti mig í fyrsta sinn, í heimabænum sínum, sagði hún mér að ég liti út eins og söngvarinn í Charlatans). Í fyrsta skipti vorum „við“ að gera það sem maður las um í tónlistarblöðunum, kominn með aldur og eitthvað aðeins meira en hvolpavit. Kolrössur unnu með það nýrokk sem var í gangi þá, My Bloody Valentine, Ride, Sonic Youth o.fl. Þetta heyrir maður að einhverju leyti á Drápu, en svo miklu meira til. Íslenskum þjóðlagastemmum er blandað við (og arabískum!). Og þrátt fyrir ungan aldur, klikkuðu þær ekki á valdeflandi kraftsöng, til heiðurs sjálfum sér og kynsystrum sínum („Kona“). Það er eitthvað ótrúlegt við það að handleika þessa plötu í dag – á forláta vínyl – og sjá myndirnar af þessum unglingum. Svo hugrakkar og sterkar eitthvað. Ég kemst næstum því við þegar ég skrifa þetta.

Ég er síst hlutlaus þegar að þessum efnum kemur, eins og sjá má, en mér finnst þessi plata dásamleg. Einföld á einhvern hátt – en samt ekki. Hrá og sjarmerandi, sjá og heyra t.d. kraftmikinn, sjarmerandi söng Elízu. Undir öllu kraumar heillandi frumkraftur ungviðisins sem stoppar ekki til að tékka hvort að þetta eða hitt megi. Það var bara gert, punktur.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: