Image may contain: 4 people, people standing and indoorLjósmynd/Hrefna Björg Gylfadóttir

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 18. nóvember, 2017

Estrógen í sýrubaði

 

Horror er fyrsta breiðskífa CYBER, eða CYBER is CRAP eins og sveitin er líka kölluð. Helsvalt og valdeflandi femínistarapp þar sem engin grið eru gefin frá fyrsta

 

Oft heyrir maður sagt að „á endanum snýst þetta nú bara um sjálfa tónlistina“ þegar dægurtónlist er rædd en þetta er langt í frá svona einfalt. Þessi heimur er hallur undir, eða öllu heldur viðkvæmur fyrir heildarpakkanum. Michael Jackson, eitt rosalegasta hæfileikabúnt sem hefur blessað okkur að þessu leytinu til, gerði magnaða tónlist. En þetta var svo mikið meira. Föt, dansspor, leiklistargeta, ímynd, myndbönd og endalaust ævintýri í kringum manninn sem ýtti á mun fleiri takka en þennan tónlistarlega.

Þetta veit CYBER. Eða CYBER is CRAP eins og þetta er kóðað inn á Spotify. Kollegi minn ágætur á DV, Kristján Guðjónsson, tók ítarlegt viðtal við sveitina fyrir stuttu og þar segir Jóhanna Rakel, einn meðlima: „Við höfum alltaf viljað vera með sterkt heildarkonsept. Við leggjum til dæmis mikið í tónleika, erum alltaf í karakter, í búningum, með ruglaða „visjúala“ og svo framvegis. Við erum með mjög vel útpælt og smart „merch“ og „heildarlúkk“ – þó ég segi sjálf frá. Fyrir mér er svo ógeðslega mikilvægt að geta verið Cyber á öllum sviðum, ekki bara í tónlist. Ég vil að þú getir lifað, andað, klæðst og borðað Cyber í öll mál.“ Aðrir meðlimir eru DJ Sura og Salka Valsdóttir.

Og þannig er nú það. CYBER er eiginlega of töff (sjá mynd) og það er eitthvert magnað áreynsluleysi í öllum þeim mismunandi uppstillingum sem þær hafa verið að færa okkur. Stundum eru þær í sadó-masóklæðnaði, næsta dag eru þær komnar í bleika jogginggalla og daginn eftir það eru þær farnar að afgreiða á Aktu taktu (sjá myndbönd á youtube). Og allt er þetta jafn töff. Og þó þær hafi ekki lýst því yfir opinberlega er þetta þrælpólitískt hjá þeim. Femínísk valdefling, þar sem þær leika sér með kynlífstilvísanir og ögrandi kynþokka en allt saman á þeirra forsendum og engra annara. Til fyrirmyndar.

Ég ætla að enda á því að tala um tónlistina. Finnst það við hæfi miðað við yfirlýsingar mínar. Að hún sé, þrátt fyrir allt, hluti af heildarmyndinni fremur en hryggjarstykkið. Í fyrra kom stuttskífan …is CRAP út og bar með sér tilraunakennt rapp, nokkur konar jaðar-hipphopp. Horror ber með sér sterkari heildarmynd, er staumlínulagaðri og áhlýðilegri en ekki um of. Þetta er vel sýrt enn; taktar letilegir og hljóðmotturnar drungalegar, í takt við plötutitilinn. Góðir gestir koma við sögu, t.a.m. Emmsjé Gauti, Young Karin, Hatari og Countess Malaise (sem syngur/rappar með þeim snilldarlagið „Psycho“). Heildaráran er skuggaleg og súrrealísk, lög eins og „Horfa“ líða um í valíumgufu og „Skríða“ býr yfir ógnvekjandi andrúmslofti.

Það sem er spennandi við Cyber er ákveðin fjarlægð. Þær brosa sjaldan, eru ofsasvalar og í einhverjum heimi sem virðist lúta eigin lögmálum. Þetta er eins og með Grace Jones. Maður er hálfsmeykur við þetta fólk – og fílar það.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: