Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 11. nóvember, 2017

Nú, jæja já…

 

Þriðja sólóplata gítarleikarans Hafdísar Bjarnadóttur kallast hinu jákvæða nafni Já. Og kallast á við tvær þær fyrri, Nú og Jæja, eins og reyndar er undirstungið kersknislega í fyrirsögninni.

 

„Öll skil á milli há- og lágmenningar, sí- og núgildrar tónlistar eru látin lönd og leið, stefnum er hrært saman blygðunarlaust og öllum skilgreiningum gefið langt nef.“ Þannig skrifaði pistilritari um fyrstu sólóplötu Hafdísar, Nú (2002), og þessar línur eru í raun réttri einkennandi fyrir allan hennar feril. Platan þar á eftir, Jæja (2009), fylgdi sömu reglum eða „óreglum“ ef þannig mætti að orði komast.

Síðan 2009 hefur Hafdís verið að vinna að Já, með hléum, en hún er alla jafna á fullu í tónleikahaldi víða um veröld og ávallt með gítarputtana í spennandi verkefnum sem fara sjaldnast (nei, aldrei) eftir vel troðnum slóðum. Broddurinn í íslenskri tilraunatónlist er kvennamegin í dag (Bára Gísla, Sigrún, Kristín Lárusdóttir, Steinunn Eldflaug, Kristín Þóra Haraldsdóttir, Kristín Anna og Gyða Valtýsdætur o.fl.) og fyllir Hafdís þennan fagra flokk.

Hafdís segir þessa plötu þá síðustu í þríleiknum Nú – Jæja – Já og eins og í fyrri verkum blandast saman ólík hljóðfæri, stílar og aðferðir. Hafdís segir sjálf í fréttatilkynningu að „í raun geng ég enn lengra í stílblöndun á Já en ég gerði á hinum plötunum tveimur. Ég veit ekki hvort ég get nokkurn tímann toppað þetta :)!“ Þá lýsir hún efniviðnum nánar í YouTube-viðtali (sláið inn „Já by Hafdís Bjarnadóttir!“) og segir frá því að hún hafi byrjað vegferðina á því að taka upp samtal tveggja einstaklinga í laumi, en fékk svo leyfi hjá þeim til að klippa allt út – nema „jáin“. „Ég er dálítil hrærivél,“ segir hún þar. „Mér finnst fyndið að ég sé lent í þessum geira, „nútímatónlist“. Fyrir mér eru stílar ekkert sérstaklega niðurnjörvaðir, fyrir mér eru það miklu heldur þeir sem spila inn á plöturnar og þeir sem ég er að semja fyrir, sem móta útkomuna hjá mér.“

Það væri að æra óstöðugan að ætla að telja upp allt það fólk sem vann með Hafdísi að plötunni. Upplýsingaskráin er með þeim lengri sem ég hef séð en til að gefa ykkur hugmynd um breiddina koma m.a. Lovísa Sigrúnardóttir, Jóel Pálsson, Þórdís Claessen, Einar Már Guðmundsson, Caput og Kammerkórinn Hljómeyki við sögu. Max Savikangas á einn víólutón! Platan var hljóðrituð í Reykjavík, Skálholti, Kaupmannahöfn, Stokkhólmi og víðar og fer – eins og þú ert líklega farinn að sjá, lesandi góður – um velli víða. Ef það er eitthvað eitt sem bindur þetta þó allt saman þá er það viss leikgleði og gáski sem hefur einkennt Hafdísi og hennar list frá upphafi vega.

Plötuna má nálgast á Bandcamp og þar er einnig að finna ítarlegar upplýsingar um gerð plötunnar. Geisladisk má og nálgast þar, og er hann innpakkaður í fallegar, heimagerðar umbúðir.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: