[Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 30. júní]

Manndrengurinn er mættur

• Justin Bieber gefur út fyrstu „alvöru“ breiðskífu sína
• Hin átján ára gamla ofurstjarna er á vissum tímamótum

Það er merkilegt, og að ég held algerlega einstakt, að þrátt fyrir að hafa verið stöðugt í sviðsljósinu í hartnær þrjú ár er poppofurstirnið kanadíska Justin Bieber fyrst nú að gefa út sína fyrstu eiginlegu breiðskífu.
Það er merkilegt, og að ég held algerlega einstakt, að þrátt fyrir að hafa verið stöðugt í sviðsljósinu í hartnær þrjú ár er poppofurstirnið kanadíska Justin Bieber fyrst nú að gefa út sína fyrstu eiginlegu breiðskífu. Tónlistin hefur þó flætt út nokkuð stöðugt. My World (2009) er sjö laga stuttskífa og My World 2.0 (2010) er skilgreind sem nokkurs konar framhald af þeirri plötu. My Worlds Acoustic (2010) er eins og nafnið gefur til kynna órafmögnuð útgáfa af nokkrum laganna sem þessar plötur prýða (öllu klabbinu meira og minna var svo safnað saman á My Worlds: The Collection (2010)). Under the Mistletoe, jólaplata, var svo gefin út um síðustu jól og sama ár kom líka út endurhljóðblöndunarskífa, Never Say Never: The Remixes. Þetta segir kannski ýmislegt um breytta tíma í poppheimum, breiðskífa er ekki upphaf, endir og mælikvarði alls þegar kemur að því að skapa sér vinsældir. Svo miklu meira kemur til og það á svo sannarlega við um Justin Bieber.

Viðhald

Ég þarf ekki að fara sérstaklega í saumanna á því Bieberæði sem tröllriðið hefur heiminum undanfarin þrjú ár. Æði sem þessi eru „fasti“ í poppmenningunni og hafa verið allar götur síðan Elvis Presley steig fram á sjónarsviðið. Sem tónlistarbarnastjarna er Bieber að feta í fótspor David Cassidy og Michael Jackson og ægivinsældirnar minna helst á þær sem Britney Spears naut í upphafi ferils síns er hún var enn saklaus og prúð (hún var reyndar jafn gömul og Bieber er núna er fyrsta plata hennar kom út).
Bieber stendur í dag frammi fyrir því sem allar áðurtaldar stjörnur hafa staðið frammi fyrir. Hvernig á að spila með þá staðreynd að fólk er að eldast og þroskast, er ekki lengur á fermingaraldri heldur á síðari stigum unglingsaldurs? Hvernig yfirfærum við þá staðreynd á tónlist og ímynd þannig að við getum viðhaldið iðnaðinum og störfunum sem eru í kringum viðkomandi? Margur markaðsmaðurinn hefur efalaust átt nokkrar svefnlausar nætur í þessum ljósaskiptum og margar tilraunirnar til að búa til „alvarlega“ listamenn úr unglingunum hafa misheppnast að fullu. Jackson náði þessu, Spears að vissu leyti en mér verður t.d. hugsað til unglingasveitarinnar New Kids On The Block sem gaf út plötuna Face the Music árið 1994, sama ár og Bieber fæddist. Sú skífa var undir nafninu NKOTB og var sem nagli í líkkistu fremur en viðhaldsaðgerð á flagnandi ferilsskipi.

Það sem er

Jæja, snúum okkur þá að breiðskífunni nýju, Believe. Þó Bieber sé sem eyrnavítissódi í hugum „alvarlega“ þenkjandi tónlistarpælara er því ekki að neita að í smellasmíði hefur Bieber verið ágætlega hagur, sérstaklega í hinu frábæra – og um leið ofurvinsæla – „Baby“. Fyrstu smáskífurnar af Believe hljóma þá býsna vel. „Boyfriend“ sekkur inn jafnt og örugglega og maður fer að fyrirgefa rappið í upphafi. Betri er þó næsta smáskífa, „As Long as You Love Me“, grímulaus og gripvænn poppslagari sem er greinilega ætlað að hnykkja á forvinnu hins lúmskara og niðurtónaðra „Boyfriend“. Ég ætla að þetta sé sæmilega útreiknað hjá Bieber og hans fólki.
Ég ætla ekki að fella dóm um plötuna hér, en takið eftir því í „Boyfriend“ að röddin er breytt og litlar tilraunir gerðar til að halda í það sem var, öllu heldur er verið að vinna með það sem er. Hvort Bieber nær að halda vinsældum sínum er svo í höndum almættisins. Bara ekki raka þig sköllóttan þó þú fáir mögulega skell á næstu árum…

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: