Gamall og gegn vinur minn, Jón Gunnar Geirdal, er maðurinn sem er að plögga Rokkjötna í Kaplakrika 8. september næstkomandi. Viðburðurinn ber nafn með rentu en fram koma HAM, Skálmöld, Sólstafir, Brain Police, The Vintage Caravan, Bootlegs, Endless Dark og Momentum. Þetta „gamall og gegn“ er þá ekkert kjaftæði, ég og Jón Gunnar ólumst upp saman í Kjarrhólma Kópavogs endur fyrir löngu og vorum mikið saman frá því að ég man eftir mér og fram að því að ég flutti þaðan níu ára. Svo ég skreytti þetta aðeins með hjartnæmri, persónulegri frásögn!

En hér kemur formleg tilkynning frá Geirdal og co. Og það er óhætt að mæla með þessum gerningi, Ham, Skálmöld, Sólstafir og Brain Police! Þetta er flösufeyking í öðru veldi…:

Þann 8. september verða haldnir risatónleikar í íþróttahúsinu í Kaplakrika þar sem áherslan verður lögð á rokk í þyngri kantinum. Á tónleikunum, sem hlotið hafa nafnið Rokkjötnar 2012, koma alls fram átta af stærstu rokksveitum landsins. Þær rótgrónustu eiga rætur sínar að rekja allt til níunda áratugarins á meðan aðrar eru nýrri af nálinni, en allar eiga þær það þó sameiginlegt að spila ósvikna rokktónlist af sveittari gerðinni.

 Tónleikamenning Íslendinga hefur vaxið mjög síðustu ár og þar eru rokktónleikar engin undantekning. Þó hefur hingað til verið fáheyrt að slíkum fjölda af fremstu rokksveitum þjóðarinnar sé att saman við aðstæður sem þessar. Þannig verður ekkert til sparað, hljóð- og ljósakerfi verður af stærðargráðu sem fátítt er að prýði slíkar samkomur og umgjörðin öll hin glæsilegasta.

 Hljómsveitirnar sem koma fram eru HAM, Skálmöld, Sólstafir, Brain Police, The Vintage Caravan, Bootlegs, Endless Dark og Momentum. Þrátt fyrir að öllu verði til tjaldað verður allt kapp lagt á að halda kostnaði niðri og miðaverð því aðeins 4.990 krónur. miðasala hefst miðvikudaginn 27.júní og fer fram á www.midi.is 

 Samstarfsaðilar Rokkjötna eru Tuborg & Jagermeister.

One Response to Rokkjötnar í Kaplakrika: Helmassaður pakki!!!

  1. Þetta verður járn út í gegn!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: