pj harvey

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 4. október, 2014

Hitt kynið

• Karlmenn pósta nú topplistum með kvenkyns listamönnum á Fésbók
• Á meðan lét KÍTÓN, Félag kvenna í tónlist, til sín taka á Patreksfirði

Fésbókin er eins og þið vitið bölvaðasti tímaþjófur sem maður hefur á ævi sinni komist í kynni við. Ástar-haturssambandið er gríðarsterkt því að hún getur um leið verið vettvangur fyrir einkar jákvæða hluti. Maður viðheldur vinskap (og kemur honum á) og hægt er að hreyfa við alls kyns mikilvægum hlutum svo eitthvað sé nefnt.

Kerfisvilla

Þannig gekk fyrir stuttu áskorun manna á milli á Fésbókinni um að nefna tíu plötur sem hefðu haft áhrif á líf þeirra. Ísland er það lítið samfélag að á nokkrum dögum var eins og allir og amma þín líka væru búnir að gera slíkan lista. Í miðjum látunum bar á kvörtunum um að þetta væru eingöngu strákar að tala um strákahljómsveitir og var það hárrétt ábending. Fyrir rælni sá ég svo á „vegg“ vinar míns að vinur hans hafði skorað á hann að gera kvenlægan lista. Ég reigðist aftur við þetta, fannst þetta spennandi og um leið þarft samfélagslegt útspil. Ég henti óðar í slíkan lista, skoraði svo á fleiri kynbræður að gera slíkt hið sama og keðjan er orðin sæmilega löng þegar þetta er ritað.
Það sem er afhjúpandi við þetta tiltæki er að enginn þeirra, sem settu saman lista, átti í neinum vandræðum með það. Ef eitthvað er báðust menn fyrirgefningar á því að þurfa að sleppa út fjöldanum öllum af snillingum. Þetta rennir stoðum undir þá staðreynd að það er ekki vöntun á kvenfólki í tónlist sem er vandamálið heldur ákveðin „kerfisvilla“ sem við búum við. Ég drap á þetta mál í pistli síðasta desember og sagði þar m.a.: „Konum er haldið niðri í þessum heimi með flóknu samspili valdatækja sem hafa þróast í gegnum árþúsundir… Þessir hlekkir eru mikið til ósýnilegir en um leið mjög svo raunverulegir og hindra hæfileikaríka, kvenkyns tónlistarmenn í að ná sjálfsögðum markmiðum sem karlmenn hafa sjálfgefna flýtileið að.“

Aukin meðvitund

Sjálfur er ég sekur eins og syndin hvað þetta varðar og tók ég mig í gegn eftir áramótin. Og sjá, það vantaði ekki merkisplöturnar úr hinum kvenlæga ranni (þið getið flett pistlunum mínum upp á arnareggert.is) en ég þurfti hins vegar að taka mig á, opna augu og eyru og leggja á mig vinnu, eitthvað sem maður gerir ekki gagnvart strákunum. Gagnrýnisraddir tala niður svona „átök“ eins og þessa topp tíu lista, að menn séu að vorkenna „grey stelpunum“ og það sé rangt að beina kastljósinu svona meðvitað að þeim. Ég er ósammála þessu. Ef það á að færa hlutina í réttara horf þarf eitthvað svona til og bara nóg af því. Breytingar verða ekki nema með „aukinni meðvitund, uppfræðslu og markvissum aðgerðum bæði innan frá (bransinn/tónlistarheimurinn) og utan frá (hlustendur/„móttakendur“),“ svo ég vitni aftur í fyrri pistil minn. Þess vegna var Félag kvenna í tónlist, KÍTÓN, m.a. stofnað á síðasta ári og hefur það verið afar virkt frá stofnun, stóð m.a. fyrir tónlistarsköpunarlegum vinnubúðum á Patreksfirði í síðustu viku. Sumir þeirra sem settu saman lista völdu að tileinka þá KÍTÓN en listarnir og þræðir þeim tengdir einkenndust af fölskvalausri gleði, virðingu og áhuga.

Hlutir að þokast?

Annars keypti ég mér nýjasta Mojo eins og venjulega í vikunni og á forsíðunni er Siouxsie Sioux. Sem er ekki þannig séð í frásögur færandi ef Kate Bush hefði ekki verið framan á því síðasta. Að konur prýði forsíðu Mojo, sem er nánast alltaf með karla á forsíðunni, tvo mánuði í röð er einsdæmi í sögu blaðsins. Eru hlutirnir kannski að þokast í réttari átt eftir allt saman? En hvað, er þetta ekki bara eitthvert femínískt raus í mér? Ó jú, það geturðu sveiað þér upp á. Og ég þarf að rausa miklu meira og oftar um þessa hluti. PS. Fyrirsögnin, Hitt kynið, er og titillinn á tímamótariti Simone de Beauvoir frá 1949, Le Deuxième Sexe/The Second Sex.

Framhaldspælingar:

Fleiri tækifæri bjóðast karlmönnum vegna kynferðis og nóg er að horfa til prósentutala hvað það varðar, allt frá forsíðum á tónlistarblöðum til hlutfalls keppenda í Músíktilraunum. Enginn setur konum stól fyrir dyrnar viljandi og meðvitund um þessi mál er líkast til aldrei meiri en nú en við búum hins vegar við aldagamalt þjóðfélagsskipulag sem mismunar konum á margvíslegan hátt, m.a. í tónlist. Flest erum við fyrir löngu orðin samdauna þessu og ég er enginn undantekning hvað það varðar.

Modern drummer birti lista yfir 50 bestu trommara allra tíma á dögunum og það var ekki ein kona á listanum. Er þetta vegna áhugaleysis kvennanna? Varla. Sama á við um gítarlista o.s.frv..

Ég held að einmitt vegna þessa, mismunun sem er það djúpt grafin í allt skipulag að við erum hætt að taka eftir því, geti hindrað hæfileikaríkar konur í að ná eyrum hlustenda, því miður. Það er ekki sjálfgefið í þessu tilfelli að góð tónlist nái í gegn á endanum.

Tagged with:
 

5 Responses to Konur í tónlist búa við kerfisvillu sem hægt er að lagfæra

  1. flott skrif og gaman að sjá myndina af Polly Jean en plata hennar To bring you my love er einmitt á mínum topp 10 🙂

  2. Katrin Hardardottir says:

    Takk, og aftur takk. Þessi kerfisvilla er viðloðandi alla geira samfélagsins og það eru orð að sönnu hjá þér, hana þarf að uppræta!

  3. Morten Lange says:

    Fín skrif !

  4. Mjög góður pistill!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: