Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 14. júlí, 2018

Andans maður

 

Raftónlistarmaðurinn Andi gaf út aðra plötu sína í vikunni og kallast hún Allt í einu.

 

Samnefndur frumburður Anda frá því í hitteðfyrra vakti verðskuldaða athygli á honum, enda frábær plata þar á ferð, „glúrið tölvupopp“ eins og ég ræddi í pistli um málið. Platan var fyrst og síðast eitthvað svo skemmtileg; fjörlegir og nánast kímileitir taktar, tölvuleikjaflipp og „viljandi hallærishljóðgervlar“ eins og ég kallaði það víst. „Eins og ef Giorgio Moroder hefði verið beðinn um að semja tónlistina við Donkey Kong Jr. Það er einhver galgopaháttur í gangi sem nær manni algerlega,“ sagði ennfremur. Það var hin merka útgáfa Lady Boy Records sem gaf þá plötu út, sem kassettu í fimmtíu eintökum en einnig er hægt að nálgast streymi á bandcamp.

Nýja platan er átta laga og kemur út á vegum hins nýstofnaða listahóps Skýlið. Platan kemur út í takmörkuðu upplagi eða í 500 eintökum á tólf tommu vínyl. Í kjölfarið mun svo plötunni verða dreift stafrænt á allar helstu streymisveitur. Lítið var vitað um manninn á bak við Anda er hann ruddist fram á sviðið en það upplýsist hér með að Hafnfirðingurinn Andri Eyjólfsson stendur á bak við verkefnið. Tónlistarferill hans hófst er hann hóf nám sitt við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar á klassískan gítar og að námi loknu gegndi hann kennarastöðu við skólann í þrjú ár. Nokkrum árum síðar samhliða námi sínu við Háskóla Íslands í kvikmynda- og bókmenntafræði byrjaði Andri, eftir stutt hlé frá tónlist, að semja raftónlist vegna sívaxandi áhuga á þeim geira. Í fréttatilkynningu um nýju plötuna segir að Andri sæki m.a. innblástur í ítalska diskóið svokallaða, „Italo Disco“, og svo er glettnislega bætt við að hans framreiðslu mætti jafnvel kalla „Íslandó diskó“. Í samtali við blaðamann lýsti Andri lítillega verkferlinu: „Að mörgu leyti samdi ég þessa plötu á svipaðan hátt og þá fyrri. Við gerð beggja notaði ég til dæmis gítar-lúppur til að búa til bassa, ryþma og laglínur sem ég færði síðan inn í tölvuna og breytti í rafhljóð. Ég er klassískur gítarleikari að mennt og hafði varla neina þekkingu á danstónlist við gerð fyrstu plötunnar, hvað þá öllum þeim ólíku stefnum og straumum sem til eru innan greinarinnar.“ Andri segist svo hafa skólað sig aðeins betur til hvað gerð þessarar plötu varðaði: „Þegar ég byrjaði á Allt í einu kynnti ég mér betur um hvað raftónlist snýst og tók þann lærdóm inní músíkina. Mig langaði t.a.m. í fyrstu að gera einhverskonar teknótónlist og lék mér með svokallaða hring-takta, sem eru mjög dáleiðandi. Taktpælingarnar urðu svo reyndar það eina sem eftir stóð sem áþreifanlegur innblástur úr heimi teknósins.“ Andi heldur línu fyrri plötunnar annars svona meira og minna. Jú, segja má að þessi sé straumlínulagaðri; meira teknó – eins og tilgangurinn var – en galgopahátturinn og gleðin er þarna vissulega og jarðbindur smíðarnar ef svo mætti segja. Fortíð Andra mótar verkið þá sömuleiðis. Þetta eru í grunninn „lög“ af poppkyni, fremur en naumhyggjuleg hljóðverk.

Orðstír Anda hefur jafnt og þétt verið að byggjast upp. Hann hefur spilað reglubundið á tónleikum og nýverið kom út safnplata á vegum HFN Music í Þýskalandi þar sem lag Anda, „Spúkí Woogie“, má finna á meðal laga fleiri íslenskra tónlistarmanna.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: