Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 4. febrúar, 2017

 

Heimilisleg brjálsemi


Hin mjög svo ágæta norðlenska bræðra- og frændasveit Helgi og hljóðfæraleikararnir sendi frá sér nýja plötu fyrir stuttu, Bæ hæli, og eru þær þá orðnar vel á hálfan annan tuginn.

Skrif mín um téða sveit enda ávallt í einslags ástarbréfi því að það verður að viðurkennast að ég er gjörsamlega hugfanginn af henni og öllu því sem hún stendur fyrir. Það eru einhver hárómantísk gen í mér sem valda þessu, hlýtur að vera, og Helgi og félagar fullnægja öllum þessum þörfum mínum með hægð. Hljómsveitin hefur alla tíð hverfst um Helga Þórsson, bræður hans og frændur og gert er út frá Kristnesi sem liggur utan við Akureyri, en þar býr Helgi og sinnir þar ýmsum störfum ásamt konu, börnum og stórfjölskyldu. Svo við höldum fókusnum á tónlistinni, sem er í grunninn alíslenskt þjóðlagapönk, leikur um hana alþýðleiki sem er endalaust heillandi og virðist alveg sama hvar Helgi og hans menn stíga niður fæti í þeim efnum, allt er þetta snilld. Eða eins og ég sagði við Helga er hann afhenti mér einhverja plötuna: „Fimm stjörnur – óheyrð!“

Á síðustu plötum hefur verið nokkuð um stílaflökt, Meira helvíti (2005) var einslags óður til pönksins eins og nafnið ber með sér en hnykkt var á þjóðlagatónlistinni á plötunni þar á eftir, Veislan á Grund (2007). Síðasta plata, Nakti apinn, kom út 2011 og bar með sér nokkurs konar blöndu af þessu tvennu og líkt er með þessa hér. Sveitin býr nú yfir sérkenni, maður heyrir á fyrstu sekúndunum að hér eru Helgi og félagar á ferð, þó að uppbygging laga sé nokkuð hefðbundin er eitthvert einstakt „x“ sem liggur yfir allri framvindu.

Eins og með allar sveitir sem skara framúr fylgja alls kyns sögur – jafnvel goðsögur – Helga og hans fólki. Ein sagan sem fylgir þessari útgáfu er að platan hafi verið tilbúin en hún síðan týnst. Í fréttatilkynningu, sem er að sjálfsögðu útprentuð og barst mér í pósti, segir að platan hafi loksins verið kláruð í þriðju tilraun og það á einum degi í endaðan nóvember. Fréttatilkynningar Helga eru reyndar listaverk í sjálfu sér, en þar kemur auk þess fram að trommari og söngvari hafi klárað sitt í einum rykk en aðrir hafi verið að „hjakka í þessu fram á kvöld“. Þá er tónlistinni lýst á svofelldan hátt, þetta sé „eins og venjulega eyfirsk sveitatónlist með blúsívafi. Nema í valsinum, þar eru sterk áhrif sænskrar vísnatónlistar“.

Umslagshönnun er að sjálfsögðu í takt við allt sem ég hef lýst hér. Samanbrotið, ljósritað A3-blað og í ósviknum Crass-stíl. Platan fæst þá að sjálfsögðu aðeins í söluvagni Helga og konu hans Beate í göngugötunni á Akureyri en þeir sem „búa langt frá Eyjafirði“ geta reynt að panta diskinn í gegnum myvargur@gmail.com. Þetta er eins mikið alvöru og það gerist.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: