Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 11. febrúar, 2017

Hverjar voru líkurnar?

 

Phil Collins var í eina tíð hataðasti maður poppsins en á undanförnum árum hefur hann fengið uppreist æru og það fyrir tilstuðlan ólíklegustu aðila.

Þetta er auðvitað sérstakt mál, og Phil Collins er bara eitt dæmi af mörgum í raun. Sviptivindar tísku og samþykkis, einn áratuginn ertu inni, svo úti, og svo inni aftur. Dægurtónlistin er einstaklega viðkvæm fyrir þessum hlutum og oft erfitt að rýna í hvað það er nákvæmlega sem stuðlar að svona endurskilgreiningum. Tökum Rumors með Fleetwood Mac sem dæmi, lengi vel táknmynd ofhleðslu og smekkleysu áttunda áratugarins hvað popp varðar en í dag hampað sem meistaraverki, og þá helst af fólki sem álítur sig sæmilega „hipp og kúl“. Phil Collins, af öllum mönnum, er að upplifa svipaða yfirhalningu og er fólk tekið að stíga fram úr ólíklegustu hornum, ausandi hann lofi. Ólafur Örn Josephsson, kenndur við indísveitina Stafrænan Hákon, hefur t.d. hlaðið í eitt stykki heiðrunarplötu sem nálgast má á Soundcloud. Svo eitt lítið dæmi, nærri okkur, sé tekið.

Sjálfur myndi ég teljast til aðdáenda og vel það. Einkum er ég hrifinn af sveit hans, Genesis, en sólólistamaðurinn, og bara maðurinn og allur pakkinn sem honum fylgir, hefur heillað mig æ meir á undanförnum árum.

Nú hefur eitt laga hans, „Against All Odds (Take a Look at Me Now)“ heltekið mig. Lengi vel var þetta bara „eitt af þessum lögum“ en að undanförnu hefur það galopnast fyrir mér og ég heyri nú og sé hluti sem voru mér duldir áður.

Lagið er einfaldlega snilld. Fyrir utan snotra melódíu og þessa sígildu „hækkunar“-taktík sem einkennir áhrifarík popplög liggur styrkurinn, galdurinn fyrst og síðast í söngnum, sem er síðan vel undirbyggður með einföldum en einlægum texta, byggðum á skilnaði Collins við fyrstu konu sína (sem hann fór rækilega yfir í nokkrum lögum frá þessum tíma). Collins var löngu búinn að sanna sig sem frábær söngvari, meira að segja á meðan hann var enn á bak við settið í Genesis (sjá t.d. sérdeilis góðar bakraddir í „Carpet Crawlers“ á Lamb) en svo auðvitað líka er hann gerðist forsöngvari sveitarinnar. Sýndi að hann gat sungið undurljúfar ballöður sem og jaðarbundnara efni eins og að drekka vatn.

Það sem „gerir“ þetta lag sem ég ætla nú að djúpgreina er mjög svo sannfærandi örvænting og skiptir í raun engu hvort það er leikið eða ekki. Maður trúir Collins einfaldlega. Fyrsta gæsahúðin, magastingurinn, er á mínútu 1.20-1.30. Hvernig hann syngur línuna „is against the odds…“, hvernig hann brotnar nánast klaufalega í laglínunni, eiginlega hallærislega í endanum, er magnað. Þetta er eiginlega misheppnað hjá honum og það er það sem gerir þetta svo flott. Gerir mann spenntan yfir framhaldinu. Það er barnalegt umkomuleysi þarna sem maður tengir sterkt við. Strax á eftir syngur hann, nánast feimnislega: „and that’s what I got to face…“. Það eykur áhrifin enn frekar.

Næsta andartak sem hnykkir á heildaráhrifum lagsins kemur örskömmu síðar, á 1.43-1.46, þegar sagt er tvíraddað: „turn around and see me cry“. Ásamt trommuslögunum sem nú koma inn er laginu lyft upp og þessi spenna sem er yfir um og allt í kring magnast.

Að endingu er farið í ákveðna speglun við fyrstu gæsahúðina, en nú er hlaðið í enn meiri dramatík en áður. En samt, án þess að missa sig út í melódramatík. Þetta er mjög mikilvægt. Collins, þó að hann sé farinn að garga þarna, nær á einhvern ótrúlegan hátt að halda sig innan marka og það gerir lagið svo magnþrungið. Hann gefur í jafnt og þétt og á 2.45-2.50 springur hann, endurtekur upphaflegu, áhrifaríku línuna en segir núna „against all odds“ en ekki „against the odds“. Aftur snýr hann röddina niður á þennan umkomulausa hátt og svo er lagið leitt út með fallegu „coda“.

Það er merkilegt að rýna í textann. Það er einhver barnaleg frekja þarna, sjálfsvorkunn en um leið örvæntingarfull von um að ástkonan komi aftur þó að sénsinn sé enginn.

Ég er búinn að vera að segja ykkur það. Dægurtónlistin er ekkert froðusnakk. Þarna eru djúplykluð örlög á epískum skala! Tökum Sting næst…

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: