Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 1. júní.

Í skríðandi fögru flæði

Fluid Time er fjögurra laga stuttskífa með Pöddunni sem skipuð er þeim Sigtryggi Baldurssyni og Birgi Mogensen. Platan kemur út á streymisveitum en líka á forláta fallegum vínil.

Þeir Sigtryggur og Birgir eru æskuvinir úr Kópavoginum og hafa bruggað ýmislegt saman sem tónlistarmenn, voru meðal annars í hljómsveitinni KUKL sem gerði garðinn frægan í Evrópu um miðjan níunda áratug síðustu aldar og reyndist síðar upptaktur að hljómsveitinni Sykurmolunum. Paddan er samstarfsverkefni þeirra og leika þeir á öll hljóðfæri og sjá um upptökur og upptökustjórn en fengu til liðs við sig sem gesti þá Þorleif Gauk Davíðsson á munnhörpu og fetilgítar í tveimur lögum og Eirík Orra Ólafsson á trompet í laginu „Splash“. Lögin voru hljóðblönduð af Árna Hjörvari Árnasyni og Alberti Finnbogasyni. Plötuútgáfan Lovitt Records í Washington DC gefur út plötuna og er henni dreift víða um heim.

Sveitin var stofnuð á öðrum áratug þessarar aldar. Meðlimi þarf svona vart að kynna, auk þess að hafa leikið með Þey, KUKL og Sykurmolunum hefur Sigtryggur spilað með fjölda annarra listamanna og á sér líka aukasjálf, Bogomil Font. Birgir Mogensen er klassískt menntaður gítarleikari og bassaleikari og hefur starfað með KUKL, Killing Joke, Spilafíflum og Inferno 5, svona meðal annars.

Fluid Time er almennilega römmuð inn sem útgáfa. Er til í efnislegu formi, er líka á helstu streymisveitum en auk þess er að finna myndbönd við hvert og eitt lag eftir meðlimi. Margt kræsilegt er þá að finna á paddanmusic.com, m.a. myndir, myndböndin góðu og upptökur og ljósmyndir frá tónleikum í Slóvakíu og Gamla bíói. Birgir lýsir tónlistinni sem svo: „Við treystum einfaldlega á innsæið og fylgdum eftir svo gott sem fyrstu hugmyndinni sem spratt fram í hljóðverinu.“ Sigtryggur segir að þeir séu líka í nokkurs konar samtali við raffönkdjassinn frá upphafi áttunda áratugarins en hann löptu þeir félagar upp af áfergju á unglingsárunum. Þetta heyrist vel í laginu „Splash“ hvar Eiríkur Orri leggur til trompetleik.

Lögin hafa vakið nokkra athygli á tónlistarvefsíðum og öðrum miðlum. Magnet Magazine segir plötuna afar frumlega, Reykjavik Grapevine talar um súrkálsrokk og Talk Talk-gítara og útvarpsstöðin KCRW í Los Angeles talar um að vel hafi heppnast að blanda nefndum spunadjassi við pönkrætur meðlima. Ghettoblaster Magazine streymdi þá plötunni í heild sinni skömmu fyrir útgáfudag.

Og þetta er vissulega og sannarlega tónlist án marka eða mæra. Haganleg hræra af alls kyns stefnum og á sleifinni halda menn sem þekkja þær og þeirra eigindir inn og út.

Við leggjum af stað í eins slags titillagi plötunnar, „Bug“. Eitt þeirra nafna sem komu í hugann þegar ég var að hlusta eitt kvöldið, svona almennt séð, er Jah Wobble, bassameistarinn mikli úr P.I.L. Sá hefur stundað áþekka aðferðafræði, að teygja sig yfir í eitt og annað til að spinna galdra og nafn hans skreið inn í hausinn á mér, þótt ég eigi erfitt með að negla hann niður á eitt lag. Í „Bug“ er sargandi síðpönksgítar, þykkur bassi og slagverkið hans Sigtryggs yfir og allt um kring. Einnig rafhljóð og munnharpa Þorleifs sem ýjar að Talk Talk eins og nefnt var. „Kokka“ kallar fram súrkálið (e. „krautrock“), Can og jafnvel La Düsseldorf. Þægilegt grúv þess til að gera, minnir á slakann sem þessi bönd voru komin í um 1980. Síðpönkslegar tilraunir í gítarleik og allra handa óvæntu gera síðan reglulega vart við sig, enda renna slíkar æfingar um æðar þeirra fóstbræðra. „Splash“ er vel heppnaður óður til spunadjassins vel að merkja en knúinn fram með Pödduhætti. Miles brosir samþykkjandi veit ég. „Vaguely“ lokar verkinu, síðrokk fremur en síðpönk og flæðið fumlaust eins og í fyrri smíðum. Skordýrin eru aðlögunarfærustu skepnurnar, það segir líffræðin mér, og sá sannleikur er í öndvegi á þessari vel heppnuðu skífu Pöddunnar.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: