Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 8. júní.

Draugareiðin

The Phantom Carriage er samvinnuverkefni Kælunnar miklu og Barða Jóhannssonar. Um er að ræða tónspor sem var sérstaklega samið fyrir rúmlega 100 ára gamla mynd (Körkarlen) og var það flutt í kirkju á kvikmyndahátíð í Transylvaníu. Eðlilega.

Sú iðja að semja tónlist við gamlar hljóðlausar myndir er ekki ný af nálinni og í hugann kemur t.d. tónlist múm við Beitiskipið Pótemkín. Körkarlen, á ensku The Phantom Carriage, kom út árið 1921 í leikstjórn hins sænska Victors Sjöströms en sá var gríðarlega áhrifamikill í árdaga kvikmyndalistarinnar. Barði (oft kenndur við Bang Gang) ýtti verkefninu af stað og fékk Kæluna til liðs við sig en sveitin og Barði unnu saman titillag plötunnar Nótt eftir nótt (2018). Það leiddi síðan til þess að hann stýrði upptökum á plötu sveitarinnar Undir köldum norðurljósum árið 2021. Myndin var sýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Transylvaníu á síðasta ári og léku Kælan mikla og Barði undir. Svo vel tókst til að ákveðið var að koma tónlistinni á fast form og verður hún nú sett undir smásjá.

Barði er ekki óvanur svona vinnu og Häxan líklega þekktast en Barði samdi tónlist við þá sænsk/dönsku mynd og gaf út árið 2006 en myndin sjálf er bara ári yngri en viðfangið hér.

Í viðtali við blað þetta fer Barði fögrum orðum um Kæluna miklu, þær Laufeyju Soffíu, Margréti Rósu Dóru-Harrysdóttur og Sólveigu Matthildi Kristjánsdóttur: „Þær hafa einstakan hljóðheim. Sólveig er að mínu mati einn fremsti raftónlistarlagasmiður landsins og sér um syntahljóðheiminn. Maggý býr til ótrúlega fallegar bassalínur; einfaldar en einstakar. Laufey er með silkimjúka rödd og semur áhugaverðar laglínur, en kann svo líka að öskra mjög fallega.“ Og þær hafa svipaða sögu að segja um hann. Hópurinn small saman eins og sagt er og það heyrist á plötunni. Hvort heldur í heildstæðum, rökkurbundnum Bang Gang-hljómi, hljóðgervladrifnum níunda áratugar gotablæ Kælunnar, söngrödd Laufeyjar, bassa Margrétar eða hljómborðstöfrum Sólveigar.

„Legend Of The Graveyard“ opnar verkið, höfugt og dularfullt og hljómar smá eins og tónlist við löngu gleymda ungverska bíómynd frá 1982. Nú, eða þá rúmenska. Þetta er evrópsk tónlist og kastalar, Nosferatu-myndir og kertastjakar fljóta úr hátölurunum. Þessu er viðhaldið í „The Grim Reaper“ en það stef er ögn nútímavæddara, mér finnst eins og ég heyri í gítar og tónlistin er poppvænni í mjög ákveðnum skilningi. Laufey tónar fallega yfir „David Holm“ og „Souls Of The Dead“ er spennuhlaðið millistef. „Körkarlen“ er eins lags titillag, hægt og seiðandi eins og platan öll reyndar ef við lítum heildrænt yfir sviðið. Það er myrkur yfir, þyngsli og skuggar og tónlistin smellur eins og flís við rass þegar rammar myndarinnar eru bornir saman við tónsporið. „Körkarlen“ nær að samþætta nútímalega, rökkurbylgjulega („dark wave“) stemningu við nokkurs konar fornfáleika, lagið rúllar áfram umvafið kóngulóarvef og það er rök og köld lykt yfir. Verkið er heildstætt, plötunni vindur áfram á rökréttan hátt og þessi skuggum troðni andi er dreginn listavel fram. Tilbrigða er og gætt, flauta gerir vart við sig í „Reminiscence“ og þar birtir eilítið til en sú pása er örstutt. „Leaving You Behind“ státar af Enyu-legum töktum, Enya ef hún væri frá Austur-Evrópu en ekki Írlandi, og restin af plötunni rennur áfram í því móti sem lýst hefur verið. Þetta er sveimbundið („ambient“), það er ekki verið að hvessa sig eða bregða manni, öllu heldur er platan umfaðmandi, eiginlega blíð, þó að söguþráðurinn sé kaldur sem nár.

Verkið verður flutt aftur þegar tækifæri gefast að sögn aðstandenda og ekki er loku fyrir það skotið að stækka þá við það, bæta við strengjum eða ámóta. Draugareiðin mun fara í gegnum holt og hæðir ef því er að skipta.
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: