Metnaður Viktor Orri Árnason slær hvergi af á plötunni Eilífur. Ljósmynd/Yvonne Hartmann.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 21. ágúst, 2021.


Og amen eftir efninu

Viktor Orri Árnason gaf nýverið út plötuna Eilífur sem inniheldur samnefnt verk í níu hlutum. Umfjöllunarefnið er möguleiki mannsins á eilífu lífi, hvorki meira né minna.

Ég hef fylgst með Viktori Orra sem tónlistarmanni síðan hann var smástrákur. Ég sá sveit hans, Búdrýgindi, vinna Músíktilraunir fyrir nítján árum þegar hann var á fimmtánda ári og ég dæmdi frábæran frumburð hennar, Kúbakóla . Seinna fylgdist ég opinmynntur með Viktori og félögum í Hjaltalín vaxa upp í að vera ein merkasta sveit sem starfað hefur á Íslandi, fyrr og síðar. Ég hef augu – og eyru – með pilti og hef glaðst yfir því hversu vel honum hefur gengið að fóta sig í alþjóðaheimi tónlistarinnar. Bækistöðin til þess hefur lengi vel verið Berlín, sú mikla menningar- og listaborg, hvar Viktor nam við hin virta Hanns Eisler-skóla. Í kjölfar náms fór hann m.a. að vinna með Jóhanni heitnum Jóhannssyni.

Það var því sannkölluð gæðastund er Viktor heimsótti mig á dögunum á heimili mitt, fúlskeggjaður og fullorðinn! Ég hafði ekki séð hann í árafjöld og hvað þá sest niður með honum og spjallað, en þarna sátum við eins og tveir gamlir vinir. Hann er þá fluttur heim, á æskuslóðirnar í Kópavogi, og þegar kominn með vinnuaðstöðu sem hann deilir með öðrum íslenskum tónlistareldhugum.

Ég skrifaði um plötuna VAST sem Viktor gerði ásamt Yair Elazar Glotman fyrir tveimur árum. Á einu kvöldi léku þeir af fingrum fram, á fiðlu, lágfiðlu og kontrabassa. Tónlistin drungaleg þar sem hún „hendist fram og til baka og veltist upp og niður, en er formuð engu að síður … sumt af þessu er skítugt, hrátt, „ekki í lagi“,“ eins og ég reit á sínum tíma. Tilraunaverk.

Eilífur , sem er fyrsta sólóplata Viktors, er með allt öðrum hætti. Þetta er stóreflisverk, tónlistin samin og kirfilega frágengin þar sem kórar og sinfóníusveitir koma að málum. Útgefandi er hið virta Pentatone. Ef ég ætti að fara að þylja eitthvað upp myndi ég klára mitt naumt skammtaða pláss en ég bendi lesendum á að heimsækja prýðilega heimasíðu Viktors, viktorarnason.com, þar sem hægt er að fá ítarupplýsingar. Gaman samt að sjá að gamli vinur hans, gítarleikari Búdrýginda, Benedikt Smári Skúlason, leggur til gítar í einu verkanna og þá stýrði Viktor sjálfur Budapest Art Orchestra fyrir plötuna. Karlakórinn Fóstbræður kemur meira að segja við sögu. Já, það er allt undir!

Pælingar um eilíft líf liggja verkinu til grundvallar eins og segir í kynningu, stórt tema sem tónar við mikilfengleik tónlistarinnar sjálfrar. Viktor leggur hins vegar á heimasíðu sinni áherslu á að fyrst og síðast sé verið að fagna lífinu sem slíku og því sem gerir það þess virði að lifa því. Og, nú ætla ég að vona að fólk sé ekki komið með kvíðahnút vegna þeirrar yfirþyrmandi epíkur sem ég er hálfpartinn búinn að gefa í skyn, því að platan er nefnilega ekki með þeim hætti. Hún er níu laga, 43 mínútur, og traustar rætur Viktors í poppi og rokki, ásamt með færni hans í klassík sem nútímatónlist, styðja við verkið og gefa því vængi. Hann veit hvenær skal fara á dýptina en líka hvernig beri að skila henni með sem áhrifaríkustum þætti. Þetta er ekki ósvipað og var með Hjaltalín, hverrar andi gerir vart við sig hér á köflum. Sprenglært fólk sem nýtti sér kunnáttuna til að skila aðlaðandi, áhrifaríkri tónlist.

Platan hefst með tíu mínútna verki („Var“), sem er það þyngsta hér, og karlakórsraddirnar fá mig til að hugsa um Arvo Pärt. Það er dumbungur, sem fær að halda sér, og er tilgangur með því. Tónmálið er svipað á „The Thread“ en Viktor hleypir okkur í sólskinið á „Maiden“. Hér læðir undurblíð melódía sér inn, já, hún er eiginlega ægifögur. Hugsaði ég um Jóhann Jóhannsson? Auðvitað. Á 0.57 opnast lagið og maður er hremmdur. Hremmdur af fegurðinni. Við taka verk sem flökta á milli þessara póla, „Er“ er dramatískt á meðan „The Vision“ er snoturt. Viktor spilar á hljóðverið, sinfóníusveitirnar, fiðluna sína og sköpunarmáttinn af eftirtektarverðu listfengi út í gegn og sem frumburður verður þessi plata að teljast stórvel heppnuð. Það er bara þannig.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: