Það er ekki á hverjum degi sem maður fer með japanskan tilraunatónlistarmann á tónleika með rúmenskum og ítölskum tilraunatónlistarmönnum. En það var engu að síður raunin hjá mér í gær! Sá japanski eða sú japanska öllu heldur er frá Berlín og spilar mögulega á Glaumbar vegna Reykjavik Live í kvöld. Hinir tveir (sjá mynd) eru skiptinemar í LHÍ sem ég komst í kynni við fyrir stuttu. Luca B er Ítali og leikur á gítar en Cornelia hin rúmenska spilar á fiðlu. Indælis fólk, við höfum m.a. hisst á kaffihúsi til að tala um tónlist vítt og breitt (Luca er mikið að spá í íslenskri tilraunatónlist á meðan Cornelia er að rannsaka tengsl nýrrar tónlistar og eldri). Og á dögunum komu þau heim til okkar hjóna og bökuðu pitsu handa okkur!

Tónleikarnir fóru fram í hinu svokallaða svartholsherbergi í húsnæði LHÍ við Sölvhólsgötu. Lýsing var minniháttar og búið að skreyta á hæfandi hátt, kertaljós sá um týruna og við þau voru ljósmyndir, bæði nýjar og gamlar sem vísuðu til Rúmeníu. Efnisskráin samanstóð enda af rúmenskri þjóðlagatónlist og m.a. voru leiknar upptökur sem raktar eru til Béla Bartók, hljóðrit sem hann gerði í rúmenskum þorpum rétt eftir að 20. öldin gekk í garð. Merkilegt og dulúðugt, nánast draugalegt umhverfið, ljáði þessum fornu upptökum töfrandi blæ. Rúmenska þjóðlagatónlistin var í senn fjörug og melankólísk eins og oft vill vera með tónlist frá þessum heimshluta. Oft líka eins og einhver tryllingur leynist undir. Í upphafi lék Luca á klassískan gítar og Cornelia með á fiðlu. Um miðbikið lagði Cornelia svo bogann á rafmagnsgítar sem lá á litlum svartmáluðum stigapalli og dró hann eftir strengjunum. Luca magnaði rafmagnið upp með bjögunartæki. Hann tók sér svo gítarinn í hönd og lék þjóðlagatónlistina á hann – með viðeigandi þungarokkssveiflu. Hið gamla og nýja leitt saman á táknrænan hátt, hugðarefni Corneliu komið úr bókasafninu og yfir á tónrænt form.

Cornelia fer á morgun aftur heim til sín (vafalaust með rímnatilraunir þeirra Sigur Rósarmanna og Steindórs Andersen í farteskinu). Luca verður hérna út júní. Hann tekur glaður við allri tónlistarlegri uppfræðslu ef þið sjáið hann…

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: