Ugluspegill Laddi, Þórhallur Sigurðsson, anno 2021. Ljósmynd/Sveinn Speight.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 22. janúar, 2022.

Er það satt sem þeir segja um Ladda?

Glæstur er hann, þrefaldi vínilpakkinn sem kom út fyrir stuttu til að marka 75 ára afmæli hins ástsæla Ladda.

Pakkinn góði, sem kallast Það er aldeilis , telur 40 lög (44 á geisladiski). Heildaryfirferð eða svo gott sem. Eitt nýtt lag, „Ertu memm?“, er þá þarna líka (og þess má geta að nýtt jólalag, „Dingaling“, kom út fyrir síðustu jól).

Ég var eitthvað að vandræðast með þennan pistil, því ég ætla ekki að fara að þylja upp einhvern lagalista en hvert mannsbarn á ákveðnum aldri kann öll þessi lög hvort eð er utan að. Hins vegar nýti ég hvert tækifæri sem gefst til að tjá mig um þennan ótrúlega hæfileikamann, mann sem ég dái og dýrka botnlaust. Ég hlífi ykkur við hástiginu, en mikið gladdi það mig þegar hann – sem ég set í flokk með Picasso, Dylan og Shakespeare – fékk fálkaorðuna á dögunum. Sjaldan hefur einn gripur verið jafn verðskuldaður. Ég fékk svo færi á að mæra hann vel og lengi í hlaðvarpinu Besta platan á dögunum (flettið því upp) en utan þess er ég alltaf að tala um Ladda, hugsa um hann og brydda upp á einhverjum bröndurum og eftirhermum sem hann hefur látið eftir sig, hvort sem það eru sígild atriði úr áramótaskaupum, Æðsti strumpur eða ódauðleg atriði úr mínu heittelskaða Heilsubæli . Snilldartilþrifin sem liggja eftir þennan listamann eru óteljandi. Hvernig einn og sami maðurinn getur brugðið sér í allra kvikinda líki og gott betur er ekkert minna en ótrúlegt. Óskiljanlegt þegar maður hugsar um það.

Ég er á þeim aldri (f. 1974) að ég fékk Ladda beint í æð. Ég var barn þegar hann og bróðir hans Halli byrja að dæla út plötum og barn/unglingur á níunda áratugnum er sólóplötur hans – sem mynda lungann af þessu safni – koma út. Ég kann öll þessi lög utan að, aftur á bak og áfram, hvort sem mér líkar betur eða verr. Ég ætlaði ekki að telja neitt upp en nefni hérna nokkur uppáhöld. „Búkolla“ sem opnaði hina dásamlegu Deió er hér að sjálfsögðu en líka „Sandalar“ sem kom á Brunaliðsplötu og ég man glöggt eftir myndbandinu (sem nú er að sjálfsögðu hægt að nálgast á youtube). Hið undurfurðulega „Það var úti á Spáni“ prýðir þá safnið og svo hið stórkostlega „Austurstræti“. Þvílíkt lag! Og það samdi Laddi sjálfur.

Ég rakst á Ladda fyrir rúmri viku fyrir utan aðalstöðvar RÚV. Við þekkjumst þannig séð, svona bransakunningsskapur, og við heilsuðumst með virktum. Hann var að fara inn í RÚV til að hitta Óla Palla Rokklandskonung sökum ferilsviðtals (sem var sent út 16. janúar). Óli hafði sagt mér að Laddi hefði verið eilítið tregur í taumi, enda til baka að eðlisfari og fannst hann hafa sagt allt sem hægt væri að segja mörgum sinnum, sem er auðvitað alveg rétt. En Óli landaði honum þó með lagni. Ég var nýbúinn að ræða þetta við Óla er ég rakst á meistarann og ég setti höndina á öxlina á honum og sagði: „Laddi. Það langar alla til að heyra hvað þú hefur að segja. Alltaf.“ Hann brosti fallega og feimnislega til mín og svaraði: „Já. Ég skil þetta ekki.“ Hló við og labbaði við það auðmjúkur inn í aðalstöðvarnar. Klár í enn eitt giggið. Fyrir okkur.



Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: