savages

[Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 25. maí, 2013]

Svarthvítt síðpönk

• Savages er brakandi ferskt fereyki sem gerir út frá London
• Frumburðurinn, Silence Yourself, minnir á Joy Division, Interpol og Siouxsie Sioux

Ég veit, það virðist æpandi þversögn liggja í því að kalla eitthvað „ferskt“ og nefna svo þrjá (og það mjög svo augljósa) áhrifavalda í næstu línu. Við gætum reyndar farið í endalausar hártoganir um merkingu þess að vera ferskur, kallað Strokes og Interpol í vitnastúku og velt því fyrir okkur hvort það sé eitthvað nýtt undir sólinni lengur. Við getum ekki öll verið Deerhoof (sem nappar reyndar slatta frá Captain Beefheart og Beach Boys þegar maður pælir í því).
Alltént! Savages er frá London, hefur verið að gera allsæmilegan skurk í neðanjarðarrokkheimum undanfarin misseri og er svo sannarlega undir áhrifum frá síðpönkinu sem nefnt er í innganginum. En það sem skilur að í þessum efnum er að Savages eru með þetta „eitthvað“ sem skýrir hamaganginn í pressunni. Interpol, sú frábæra sveit, var með þetta „eitthvað“ líka þó að hún hljómaði ískyggilega eins og Joy Division og Chameleons á sínum tíma. Sveitir eins og White Lies og Editors, svo ég taki dæmi, eru hins vegar ekki með þetta „eitthvað“.

Fortíð

Savages, sem eru að höndla þetta „eitthvað“ svona listilega vel, var stofnuð haustið 2011 og fyrstu tónleikarnir voru í janúar í fyrra (upphitun fyrir British Sea Power). Sveitin var sett saman af gítarleikaranum Gemmu Thompson og fékk hún söngkonuna Jehnny Beth til liðs við sig en sú er frönsk og á að baki dálítinn listaferil, hefur leikið í listrænum myndum í heimalandinu og var annar helmingur dúettsins John & Jehn sem hefur gefið út tvær breiðskífur með indírokki/poppi. Beth rekur auk þess eigið merki, Pop Noire, sem gefur út fyrstu breiðskífu Savages í samstarfi við Matador. Aðrir meðlimir eru þær Ayse Hassan (bassi) og Fay Milton (trommur). Útgáfulega séð liggur aðeins ein sjötomma og tólftomma fyrir en þær stöllur hafa hins vegar verið að vekja athygli fyrir kraftmikla tónleika sem þykja mikið sjónarspil og þar liggur orðsporið (þú þarft að sjá bandið til að geta heyrt það, sagði einhver spekingurinn). Samræmdur, dulúðugur og já, svartur klæðaburður innan um flöktandi ljós, skugga og reyk þar sem Jehnny Beth leiðir gengið áfram með tilfinningaþrunginni sviðsframkomu.

Framtíð

Gagnrýnendur hafa sérstaklega nefnt hvernig ögrandi, taugatrekkjandi stælum Siouxsie Sioux er blandað fínlega við þann epíska blæ sem fylgdi Joy Division þegar ritað er um hljómleika sveitarinnar. En gott tónleikaorðspor er eitt, mælistika farsældar í rokkheimum liggur samt enn í útgefnu efni og þá einkanlega breiðskífunum. Spenna er enda allnokkur vegna Silence Yourself, breiðskífunnar sem út kom í þessari viku (og streymir hún nú í heild sinni á opinberri vefsíðu Savages). Það skýrist svo á næstu misserum hvort einhver innistæða er fyrir öllum látunum. Fjölmiðlar spara ekki stóru orðin að vanda en það gerir bandið ekki heldur, er hressilega gott með sig. Minnir óneitanlega á það hvernig Smiths og Oasis t.d. höguðu sér og það er sosum ekki verra að hafa munninn fyrir neðan nefið í þessum bransa. Verð líka að lokum að stýra ykkur á viðtal við bandið sem Pitchfork birtir; takið sérstaklega eftir uppsetningunni, sem fullnýtir alla möguleika netsins glæsilega (pitchfork.com/features/cover-story/reader/savages/).

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: