The Proclaimers - 2012D

[Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 29. júní, 2013]

Hin tvíeina skoska þjóðarsál

• The Proclaimers fanga skoska þjóðarsál betur en flestir í tónlist sinni
• Ný safnplata, sem markar kvartaldarafmæli, kemur út eftir helgina

Ég þurfti að flytja til Skotlands og búa þar um hríð til að fatta hversu mikla þýðingu The Proclaimers hafa fyrir hinn almenna Skota. Ég leit á dúettinn sem nokkurs konar undur með einn smell, en þeir bræður standa á bakvið hið margleikna, en í sjálfu sér ekkert svo stórkostlega lag „I‘m Gonna Be (500 Miles)“ sem fleiri en kæra sig um kunna utanbókar. Þegar mér var sagt að eigindir hins venjulega Skota endurspegluðust best í tónlist Proclaimers tók ég ekki mark á því. Og furðaði mig á því að allt skyldi fara annan endann þegar tilkynnt var um það að Proclaimers myndu spila við Stirling kastala á „Hogmanay“, hinu skoska gamlárskvöldi. En það var sem við manninn mælt, í beinni útsendingu frá kastalanum mátti sjá þúsundir Skota taka undir hvert orð frá Proclaimers, við lög sem ég vissi ekki að væru til. Það var ljóst að ég þurfti að bretta upp poppfræðiermarnar.

Þráðbeint

Og auðvitað er allt rétt sem skoskir vinir mínir segja um dúettinn. Aðspurðir hvað sé það „skoskasta“ sem þeim detti í hug hvað popptónlist varðar er Proclaimers ávallt það fyrsta sem kemur upp.Fyrirfram hefði ég haldið að Runrig yrði nefnd, en svo er ekki, sú sveit er of svæðisbundin (Hálöndin) til að höfða til hins almenna Skota. En Proclaimers er nokkurs konar Bubbi Skotanna, tónlist sem allir þekkja og geta sungið með í og í textum kristallast oft eitthvað sem Skotar einir geta tengt þráðbeint við. Smellurinn sem ég nefndi hér í upphafi er aðeins brot af sögunni, þó hann sé skiljanlega mun stærra brot í eyrum hins alþjóðlega poppheims. Mikilvægasta framlag Proclaimers til skoskrar dægurtónlistar – og sjálfsmynd Skotanna – er að sjálfsögðu þessi þykki hreimur en annað eins hafði aldrei heyrst í poppi. Það er nokkuð rækilega stimplað inn í fólk hérna að skoski hreimurinn – eins dásamlegur og hann nú er – varni því velsældar í popplandi sem og öðru því sem það hyggst taka sér fyrir hendur. Proclaimers gáfu hins vegar lítið fyrir þetta. Pönkrætur bræðranna og sú staðreynd að þeir komu fram á sjónarsviðið er pólitískt meðvitað popp (Billy Bragg, Housemartins) var móðins stýrði málum á frábærum frumburði þeirra, This Is The Story (1987). Platan opnar á laginu „Throw The ´’R’ away“, bráðfyndinni en um leið baneitraðri smíð sem virkar eins og yfirlýsing; þeir Skotarnir ætli sko ekki að láta Englendingana segja sér fyrir um sönginn. Þessi afstaða átti eftir að hafa djúp áhrif þó það hafi tekið drjúgan tíma fyrir þau að koma fram. Fyrir stuttu ræddi Aidan Moffat, fyrrum leiðtogi Arab Strap, t.d. um áhrif bræðranna en Arab Strap hefur sömuleiðis verið skoskum sveitum innblástur varðandi hreim en einnig hefur hún byggt undir sæmilega heilnæma afstöðu til þess hvaðan maður er að koma, eitthvað sem margar nýsveitir hafa gripið á lofti (Glasvegas, The Twilight Sad og listamenn á Fence Records t.d.).

Áreynslulaust

Þeir bræður, Charlie og Craig Reid, eru auk þess harðir þjóðernissinnar og mæla með aðskilnaði Skotlands og Bretlands, eitthvað sem kosið verður um á næsta ári. Þessa trú þeirra má t.d. nema í gegnum lög eins og „Cap In Hand“ og hið stórkostlega „Letter From America“. Ólíkt Runrig eru bræðurnir ekki að flagga skoskum rótum sínum meðvitað og tónlistin dregur ekki áhrif frá hinni ríku þjóðlagatónlist Skotlands heldur sækir þvert á móti mikil áhrif til Ameríkunnar. Það var Sunshine On Leith (1988) sem gerði Proclaimers síðan heimsfræga og eftir nokkuð hökt í útgáfu á tíunda áratugnum hafa plöturnar verið að koma út á þetta tveggja ára fresti. Þær eru hver annarri líkar; innihalda þægilegt, áreynslulaust popprokk sem sveigir á sama tíma listavel frá einhverju miðjumoði. Seint myndu Proclaimers teljast svalir. Það er hins vegar eitthvað heillandi við þá og aðdáunarvert og það er nóg að sjá eitt viðtal við þá til að falla kylliflatur fyrir þeim.
Grein þessa tengi ég við nýja safnplötu, The Very Best Of – 25 Years 1987 – 2012. Tvær safnplötur hafa komið út áður, árin 2002 og 2003 en nýja safnið veitir eðli málsins samkvæmt besta yfirlitið til þessa, en útgáfa og virkni undanfarin tíu ár hefur verið mun meiri en í árdaga. Ég hvet lesendur líka til að kíkja aðeins á opinbera heimasíðu sveitarinnar og skoða viðtöl og lagaflutninga á youtube til að fá ítarlegri sýn á þetta. En samt, maður þarf eiginlega að búa hérna eigi maður að eiga möguleika á að skilja af hverju Skotinn er svona yfirmáta hrifinn af bræðrunum hornspengdu.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: