mark mulcahy

[Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 6. júlí, 2013]

Kæri Mark J. Mulcahy…

• Mark Mulcahy, fyrrverandi söngvari Miracle Legion, gefur út nýja sólóplötu
• Költlistamaður í miklum metum hjá Thom Yorke, Michael Stipe og fleirum

Þegar Mark Mulcahy missti eiginkonu sína á voveiflegan hátt árið 2008 stóð hann einn uppi með tvíburadætur þeirra hjóna, bundinn í báða skó og tónlistarferillinn í uppnámi. Á þeim tíma var Mulcahy einna þekktastur fyrir að hafa leitt Miracle Legion, gítarnýbylgjuband í anda R.E.M. sem gerði út frá austurströnd Bandaríkjanna á níunda áratugnum og lét eftir sig nokkrar bráðgóðar skífur, einkum þykir frumburðurinn, Surprise Surprise Surprise (1987), vera framúrskarandi. Platan Me and Mr. Ray (1989) vakti og athygli og þess má geta að á b-hlið einnar tólftommunnar sem kom út í tengslum við hana („You’re The One Lee“) má heyra í samstarfi sem sveitin átti við okkar eigin Sykurmola og komu sveitirnar þar fram sem Sugar Legion.
En Miracle Legion komst þó aldrei í meistaradeildina þrátt fyrir að hún væri virt mjög af gagnrýnendum og forföllnum tónlistarnörðum. Sama má líka segja um sólóferil Mulcahys sem hófst með hinni stórgóðu Fathering árið 1997. Allar plötur hans hafa verið mærðar af rýnum en almenningur hefur svo gott sem skellt algerum skollaeyrum við.

Gæsahúðin ein

Eiginkonumissir Mulcahys leiddi hins vegar í ljós að aðdáunin á honum risti mun dýpra en merkjanlegt hafði verið fram að þeim tíma. Ári síðar, 2009, kom nefnilega út heiðrunarplatan Ciao My Shining Star: The Songs of Mark Mulcahy, sem var ætlað að hjálpa honum yfir fjárhagslega kúfinn sem nú blasti við. Stigu þar fram stórstjörnur á borð við Thom Yorke, Frank Black og Michael Stipe eins og getið er í inngangi og lýstu því yfir að þær væru ekki einasta hrifnar af tónlist Mulcahys, hann væri eitt merkasta tónskáld sem Bandaríkin hefðu alið frá upphafi! Önnur þekkt nöfn sem léðu málstaðnum lið voru Dinosaur Jr., The National, Josh Rouse, Ben Kweller, Juliana Hatfield, Mercury Rev og Vic Chesnutt svo einhverjir séu nefndir. Yorke spilaði t.a.m. útgáfu af hinu magnaða „All For The Best“ af Surprise Surprise Surprise. Til er myndband á youtube þar sem hann leikur það á kassagítar á tónleikum í Roseland Ballroom í New York og er flutningurinn gæsahúðin ein.
Plata þessi gerði mikið fyrir Mulcahy eins og gefur að skilja, og þá ekki bara fjárhagslega heldur andlega líka. Hann lýsti því í viðtali vegna plötunnar nýju að sú tilfinning að það væri til slatti af fólki sem væri alls ekki sama um hann væri góð og gefandi og plata þessi hefði forðað honum frá lagerstarfi í Wal-Mart. Mulcahy hefur því tekist að sinna uppeldi dætra sem og tónlistarstússi með sæmilegustu reisn og nýja sólóplatan því á vissan hátt ávöxtur þessarar viðurkenningar frá tónlistarbræðrum hans og -systrum.

Eitt lag í einu

Reyndar eru heil átta ár liðin frá útkomu síðustu sólóplötu, In Pursuit of Your Happiness (2005), og Mulcahy hefur litlar skýringar á því af hverju plata sé að koma núna, hann hafi verið að hljóðrita endrum og eins en aldrei hafi fókus myndast fyrir breiðskífu. Það var ekki fyrr en hann og upptökustjórinn, Henning Ohlenbusch – sem rekur eigið hljóðver í Northampton, Massachussets þar sem Mulcahy býr nú – drógu upp áætlun um að fullvinna eitt lag í einu að ferli hrökk í gang og plata hóf að vaxa. Afraksturinn kallast hinu skringilega nafni Dear Mark J. Mulcahy, I Love You og í stað þess að vinsa úr lagabunka samdi okkar maður lag sérstaklega fyrir hvern þann dag sem hafði verið ákveðinn fyrir upptöku. Tónlistarlega er útkoman nokk rokkaðri og þéttari en áður og segir Mulcahy að ástæðan fyrir því sé meðspilararnir, listafærir tónlistarmenn úr Northampton sem hafi leikið með honum undanfarin ár. Hægt tempó og einfaldleiki sumra eldri laganna hafi verið vegna þess að hann sé ekkert sérstaklega góður gítarleikari og þurfi því að spila hægt!

Tagged with:
 

One Response to Mark Mulcahy: Hvað er fyrir bestu?

  1. Ingimar Neinei Bjarnason says:

    Það er nú gott að hann er fluttur til Northampton. Þegar vandræðin gengu yfir bjó hann í Springfield sem er hræðileg og til þess eins góð að keyra í gegnum á leiðinni til Northampton eða Vermont.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: